Hoppa yfir valmynd
11. maí 2001 Heilbrigðisráðuneytið

5. - 11. maí 2001

Fréttapistill vikunnar
5. - 11. maí 2001


Endurskoðun almannatryggingakerfisins - ráðherra mælir fyrir frumvarpi

Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, mælir í dag (föstudag) fyrir frumvarpi til laga um breytingar á almannatryggingalögum og lögum um félagslega aðstoð. Frumvarpið byggist efnislega á tillögum nefndar sem endurskoðaði almannatryggingalögin og kynntar voru fyrr í vikunni. Frumvarpinu er ætlað að bæta hag þeirra elli- og örorkulífeyrisþega sem búa við þrengstan kost og er það í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að endurskoða skuli almannatryggingakerfið og lögð sérstök áhersla á að bæta kjör þeirra sem hafa lægstar tekjur.
Sjá frumvarpið >

Verkaskipting heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis verði skoðuð og skýrð
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur lýst áhuga á því að fara yfir þá málaflokka heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins sem skarast, skoða hvað betur megi fara og hvar verkaskipting gæti verið skýrari. Þetta kom fram í svari ráðherra við munnlegri fyrirspurn á Alþingi í vikunni, þar sem rætt var um meðferðarstörf og ferðakostnað aðstandenda ungra fíkniefnaneytenda. Ráðherra sagði dæmin sanna að varðandi umræddan málaflokk væru skil á milli ráðuneytanna óskýr í mörgum greinum. Í framhaldi af því lýsti hann yfir áhuga á að fara yfir verkaskiptingu ráðuneytanna vegna fleiri málaflokka þar sem verkefni skarast.
Nánar >

Umræður á Alþingi um byggingu hátæknisjúkrahúss
Hátæknisjúkrahús er fyrst og fremst þjónusta sem þar er veitt, ekki byggingin sjálf. Það er því ekki staðsetningin eða húsið sem skiptir mestu heldur þjónustan og viljinn til að veita hérlendis sambærilega þjónustu og þá sem veitt er hjá öðrum þjóðum sem Íslendingar bera sig við. ,,Hvort það er gert í einu húsi eða fleirum ræðst af því sem er hagkvæmast fyrir veikt fólk." Þetta kom m.a. fram í svari Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi í vikunni um áform um að reisa hátæknisjúkrahús og hvar slíkt sjúkrahús yrði mögulega reist ef af yrði. Ráðherra ræddi nokkuð þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað með sameiningu stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík og samþættingu á þjónustu þeirra, og sagði þar hafa verið lagðan hornstein að einu hátæknisjúkrahúsi á höfuðborgarsvæðinu. Hann sagði byggingu hátæknisjúkrahúss frá grunni gríðarlega framkvæmd og kostnaðarsama og vísaði í mat danskra sérfræðinga sem telja ekki þörf fyrir nýtt hús. Aftur á móti væri brýnt að móta stefnu til langs tíma um það hvernig staðið skuli að uppbyggingu Landspítala - háskólasjúkrahúss, við Hringbraut eða í Fossvoginum og þetta hefði verið eitt af því fyrsta sem hann ræddi við forstjóra og stjórnarformann sjúkrahússins þegar hann tók við embætti heilbrigðisráðherra. Jón sagði að fyrir lægju úttektir og álit um þessi mál og hyggðist hann setja á fót vinnuhóp ráðuneytis og sjúkrahússins til að fara yfir kostina.
Sjá umræðu um málið á vef Alþingis >

Ríkisstjórnin móti heildarstefnu í málefnum barna og unglinga
Samþykkt var á Alþingi í dag (11. maí) þingsályktunartillaga um að fela ríkisstjórninni að undirbúa heildstæða og samræmda opinbera stefnu í málefnum barna og unglinga. Markmiðið er ,,að tryggja hag og velferð barna og unglinga á öllum sviðum þjóðlífsins og búa þeim sem best og jöfnust skilyrði til uppvaxtar og þroska" eins og segir í tillögunni. Í þessu skyni verður skipuð nefnd með aðild forsætisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis, umhverfisráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Nánar á vef Alþingis >

Miðstöð mæðraverndar við Barónsstíg tekin í notkun
Miðstöð mæðraverndar var formlega tekin í notkun í húsnæði Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur við Barónsstíg í gær (10 maí). Tilurð mæðradeildarinnar er sameining mæðradeilda Kvennadeildar Landspítala - háskólasjúkrahúss og Heilsuverndarstöðvarinnar í eina deild, en gengið var frá samkomulagi um sameininguna í júní 1999. Með sameiningunni skapast náið samstarf fagaðila og er tilgangurinn ekki síst að nýta sem best þá sérþekkingu sem báðar heilbrigðisstofnanirnar hafa yfir að ráða.

Úttekt á nýgengi krabbameins á Suðurnesjum
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra svaraði í vikunni fyrirspurn á Alþingi þar sem spurt var hvert nýgengi krabbameins á Suðurnesjum hefði verið undanfarna áratugi samanborið við aðra landshluta. Skoðuð voru gögn fyrir tímabilið 1991 - 1999 og borið saman nýgengi fyrir eftirtalin mein: Öll krabbamein hjá körlum og konum. Blöðruhálskirtilskrabbamein hjá körlum. Brjóstakrabbamein hjá konum og lungnakrabbamein hjá körlum og konum. Niðurstaða skoðunarinnar var sú að ekki sé hægt að fullyrði að fleiri greinist með krabbamein á Suðurnesjum en í öðrum landshlutum. Þó sé tilhneiging hjá konum í þá veru og á það sérstaklega við um lungnakrabbamein.
Sjá svar ráðherra >

Skýrsla Landspítalans fyrir árið 2000 á Netinu
Skýrsla Landspítala - háskólasjúkrahúss fyrir árið 2000 er komið út. Í henni er sagt frá starfi spítalans árið 2000, sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík og birtir reikningar Landspítala - háskólasjúkrahúss árið 2000. Í skýrslunni er yfirlit fræðigreina sem vísindamenn við stofnunina birtu í ritrýndum tímaritum á því ári. Lýsingar á sviðum spítalans og skrifstofum eru miðaðar við apríl 2001 og gefa því greinargóða mynd af skipulagi starfseminnar núna.
Nánar >


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
11. maí 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum