Hoppa yfir valmynd
17. maí 2001 Heilbrigðisráðuneytið

12. - 18. maí 2001

Fréttapistill vikunnar
12. - 18. maí 2001



Breyting á lögum um málefni aldraðra varðandi vistunarmat og þjónustuhópa aldraðra

Samþykkt var á Alþingi í vikunni frumvarp heilbrigðis- og trygginganefndar, til breytinga á lögum um málefni aldraðra. Breytingin er tvíþætt og snýr að því að styrkja faglega hæfni þjónustuhópa aldraðra og auka kröfur um fagþekkingu þeirra sem sinna vistunarmati aldraðra. Í þjónustuhópum aldraðra sitja fimm manns, skipaðir af sveitarstjórnum á viðkomandi þjónustusvæði. Tveir fulltrúar, hjúkrunarfræðingur og læknir, eru tilnefndir af héraðslækni. Einn fulltrúa tilnefna samtök aldraðra og tveir fulltrúar eru skipaðir af sveitarfélögunum án tilnefningar. Í gildandi lögum er ekki skilgreind krafa um menntun þeirra fulltrúa sem sveitarfélögin skipa án tilnefningar, en samkvæmt breytingunni skal annar þeirra vera félagsráðgjafi eða hafa hliðstæða menntun. Þá verður sú breyting á að fulltrúar aldraðra í þjónustuhópum munu ekki taka þátt í því að meta vistunarþörf aldraðra en taka að öllu öðru leyti fullan þátt í verkefnum þjónustuhóps aldraðra eins og þau eru skilgreind í lögunum.
SJÁ FRUMVARP OG GREINARGERÐ...

WHO-þingið: Íslendingur kjörinn formaður aðalnefndar
Davíð Á. Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytinu, var kosinn formaður annarrar aðalnefndar þings Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem nú er haldið í 54. sinn og hófst í Genf s.l. mánudag. Kjör hans er talin viðurkenning fyrir störf og framlag Íslands á vettvangi Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar og fyrir heilbrigðisþjónustuna á Íslandi. Um þúsund fulltrúar 124 þjóða sitja þetta 54. þing Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar.

Breyting á lögum um ávana- og fíkniefni
Frumvarp til breytinga á lögum um ávana- og fíkniefni var samþykkt á Alþingi í vikunni. Frumvarpið var unnið eftir tillögum starfshóps sem dómsmálaráðherra skipaði, að tillögu ríkissaksóknara, til að fara yfir löggjöf og reglur um vörslu og meðferð ávana- og fíkniefna. Með breytingunni er rýmkuð heimild ráðherra til að takmarka innflutning, vörslu og meðferð efna sem teljast til ávana- og fíkniefna.
SJÁ FRUMVARP OG GREINARGERÐ...

Ávarp ráðherra á málþingi Félags kvenna í læknastétt
Skref til framtíðar - hvert stefnum við í jafnréttismálum? - Þetta var spurning dagsins sem rædd var á málþingi Félags kvenna í læknastétt sem haldið var í gær, 17. maí, en félagið er tveggja ára um þessar mundir. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, ávarpaði gesti málþingsins. Í ávarpi hans kom fram að á síðustu tíu árum hefur Háskóli Íslands þrisvar sinnum útskrifað fleiri konur en karla úr læknadeild og s.l. fjögur ár hafa fleiri konur innritast í deildina en karlar. Þótt konur séu enn í miklum minni hluta í stéttinni fjölgar þeim ört. Ráðherra sagði víst að fjölgun kvenna í læknastétt muni hafa töluverð áhrif, bæði inn á við í starfi læknastéttarinnar og einnig á þjónustuna. ,,Ég tel að svo sé vel, það er æskilegt að reynsla, áherslur og forgangsröðun beggja kynja endurspeglist í þjónustunni og fræðigreininni sjálfri, í rannsóknum og kennslu."
ÁVARP RÁÐHERRA...

Auglýsendur áfengis haldi sig innan marka velsæmis og laga
Styrkjum úr Forvarnarsjóði var úthlutað í gær, 17. maí, og við sama tækifæri veitti Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra Árna Helgasyni frá Stykkishólmi viðurkenningu Áfengis- og vímuvarnarráðs. Í ávarpi sem ráðherra flutti gerði hann áfengisauglýsingar að umtalsefni og skoraði á þá sem bera ábyrgð á áfengisauglýsingum að halda sig inna marka velsæmis og laga.
ÁVARP RÁÐHERRA...

Stofnun Vísindasjóðs Landspítala - háskólasjúkrahúss
Stofnaður hefur verið Vísindasjóður Landspítala - háskólasjúkrahúss. Stofnfé hans er 36 milljónir króna. Í sjóðinn geta sótt allir háskólamenntaðir starfsmenn sjúkrahússins og stefnt er að því að veita úr honum allt að 30 milljónir króna árlega.
NÁNAR...

Ráðstefna um lækningatæki
Dagana 15. - 16. júní nk. verður haldin 14. norræna ráðstefnan um lækningatæki. Ráðstefnan fer fram í Norræna húsinu í Reykjavík. Dagskrá og aðrar upplýsingar um ráðstefnuna, ásamt skráningareyðublaði, eru aðgengilegar á heimasíðu landlæknisembættisins.
NÁNAR...

Rannsóknadagur hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands
Lokaverkefni til BS gráðu í hjúkrunarfræði voru kynnt á Rannsóknardegi hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands, sem haldinn var í dag, 18. maí. Alls voru kynnt 35 lokaverkefni hjúkrunarfræðinga og voru viðfangsefni margvísleg. Má þar nefna viðhorfskannanir af ýmsu tagi, greiningar á þörfum ýmissa sjúklingahópa eða aðstandenda sjúklinga, skoðun á reynslu og upplifun sjúklinga á tilteknum sjúkdómum o.m.fl.



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
18. maí 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum