Hoppa yfir valmynd
14. júní 2001 Heilbrigðisráðuneytið

9. - 15. júní 2001

Fréttapistill vikunnar
9. - 15. júní 2001


Skýrsla Ríkisendurskoðunar um ferliverk á sjúkrahúsum

Ríkisendurskoðun hefur skilað heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra annarri tveggja skýrslna, sem er liður í að skýra heildarfyrirkomulag launagreiðslna lækna. Heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra fór fram á við Ríkisendurskoðun í nóvember s.l., að stofnunin gerði grein fyrir þessu fyrirkomulagi. Ríkisendurskoðun kaus að skipta í tvennt athugun sinni. Í fyrsta lagi skyldi unnin stjórnsýsluúttekt á heildarfyrirkomulagi launagreiðslna til lækna og í öðru lagi skyldi gerð sérstök úttekt á fyrirkomulagi ferliverka á sjúkrahúsum. Það er sú skýrsla sem nú liggur fyrir. Ríkisendurskoðun spyr og svarar í henni þessum þremur veigamiklu spurningum: 1) Hvers vegna hefur umfang ferliverka farið vaxandi, 2) hvaða áhrif hefur vöxturinn haft á rekstur sjúkrahúsanna og aðra þjónustu sem þau veita, og 3) hvernig er hugsanlegt að bregðast við þróuninni? Skýrslan er aðgengileg á heimasíðu Ríkisendurskoðunar.
SKOÐA SKÝRSLU...

Slysa- og bráðaþjónusta Landspítalans verður sameinuð á einum stað
Framkvæmdastjórn Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur samþykkt áætlun um skipan slysa- og bráðaþjónustu sjúkrahússins á næstu árum. Með samþykkt framkvæmdastjórnar er mörkuð sú stefna að slysa- og bráðaþjónusta verði sameinuð á einum stað og mun það gerast í áföngum. Í samþykkt framkvæmdastjórnar kemur fram að sameining þjónustunnar á einum stað krefst annað hvort nýbyggingar eða endurbyggingar húsnæðis. Ekki er tekin afstaða til þess hvort slysa- og bráðaþjónustan verði byggð upp í Fossvogi eða Hringbraut heldur mun það ráðast af þeirri stefnu sem mörkuð verður í náinni framtíð um uppbyggingu spítalans í heild. Meðal annarra ákvarðana sem tengjast samþykkt um skipulag slysa- og bráðaþjónustunnar er að slysa- og bráðamóttaka verður sameinuð um næstu áramót  í Fossvogi undir stjórn slysa- og bráðasviðs og leggst tvískipting bráðavakta milli Hringbrautar og Fossvogs niður frá sama tíma. Þá verður starfsemi hjartadeilda sett undir eina stjórn frá 1. júlí nk. og einn yfirlæknir settur frá þeim tíma. Stöður hjúkrunardeildarstjóra verða óbreyttar fyrst um sinn og endurskoðaðar í samhengi við flutninga á þjónustunni milli húsa. Allt starf hjartadeildar verður skipulagt sem ein heild og mannahald yfirfarið fyrir 1. september. Samþykkt framvæmdastjórnar LSH er að finna á heimasíðu sjúkrahússins.
NÁNAR...

Landspítalinn kaupir fullkomið hjartaþræðingartæki fyrir rúmar 90 milljónir króna
Landspítali - háskólasjúkrahús hefur gengið frá samningi um kaup á nýju hjartaþræðingartæki frá Philips Medical Systems í Hollandi og er tækið eitt hið fullkomnasta sem völ er á. Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur, sem stofnaður var sl. sumar, gerði kleift að ráðast í kaup á hjartaþræðingartækinu. Kaupverð þess er 93 milljónir króna og leggur sjóðurinn fram 40 milljónir króna. Tækið er á margan hátt byltingarkennt og gefur t.d. ýmsa nýja möguleika til hjartaþræðinga og rannsókna á æðum í útlimum. Það er afar hraðvirkt og öruggt og mun auka skilvirkni aðgerða og bæta þjónustu við almenning. Tækinu verður komið fyrir á Landspítala Hringbraut og er stefnt að því að taka það í notkun í ágúst.
NÁNAR...

Fjórtándi samningurinn um árangurstjórnun heilbrigðisstofnunar undirritaður
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra undirritaði í vikunni samning um árangursstjórnun við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og er þetta fjórtándi samningur heilbrigðisráðuneytisins um árangursstjórnun heilbrigðisstofnana. Samhliða samningnum var undirritað samkomulag um lausn á fjárhagsvanda Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Samkvæmt því fær stofnunin viðbótarframlag vegna reksturs þessa árs og vegna rekstrarhalla síðasta árs, samtals 81,3 m.kr. Kveðið er á um ráðstafanir til að styrkja fjármálastjórnun stofnunarinnar sem eiga að tryggja rekstur innan fjárheimilda árið 2001 og þjónustu í samræmi við markmið samnings um árangursstjórnun. Í fyrrnefndum samningi um árangursstjórnun er áætlun um ferliverk á árinu 2001 sem felur í sér að litið er á ferliverk sem hluta af eðlilegri þjónustu stofnunarinnar. Stofnunin mun samkvæmt því ákveða hvort þjónustan er veitt sem hluti af vinnuskyldu starfsmanna samkvæmt ráðningarsamningi eða sem aðkeypt þjónusta.
NÁNAR...

Breytingar á lögum um almannatryggingar sem snerta elli- og örorkulífeyrisþega
Þann 1. júlí nk. taka gildi breytingar á lögum um almannatryggingar sem snerta elli- og örorkulífeyrisþega. Ýmsar breytingar verða á greiðsluflokkum. Má þar nefna niðurfellingu hjónalífeyris, hækkun á tekjumarki tekjutryggingar og niðurfellingu á sérstöku tekjumarki vegna lífeyrissjóðstekna. Einnig fellur niður sem greiðsluflokkur s.k. sérstök heimilisuppbót og þess í stað kemur nýr flokkur sem kallast tekjutryggingarauki.Við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar munu atvinnutekjur öryrkja nema 60% í stað 100% áður. Tryggingastofnun ríkisins hefur tekið saman upplýsingar um áhrif breytinganna á einstaka greiðsluflokka. Þá má einnig benda á fylgiskjal II með frumvarpi til breytinga á lögum um almannatryggingar þar sem fram koma dæmi um áhrif um breytingu tekjutryggingar ellilífeyrisþega í hjúskap.
SKOÐA FRUMVARP OG FYLGISKJÖL...

Um 140 manns sátu norrænt þing æðaskurðlækna í Reykjavík um síðustu helgi
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, ávarpaði norrænt þing æðaskurðlækna sem fram fór í Reykjavík um síðustu helgi. Um 140 manns sóttu þingið og nokkrir af færustu sérfræðingum æðaskurðlækninga fluttu þar erindi. Þetta er í fyrsta skipti sem Íslendingar stendur að skipulagi þingsins. Í tengslum við ráðstefnuna var haldið námskeið fyrir verðandi æðaskurðlækna. Var það liður í því að reyna að glæða áhuga lækna á þessari sérgrein, en mikill skortur er á sérfræðingum í greininni á Norðurlöndunum.



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
15. júní 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum