Hoppa yfir valmynd
19. október 2018 Forsætisráðuneytið

Barnasáttmálaskýrsla í samráðsgátt stjórnvalda

Á samráðsgátt stjórnvalda hafa verið birt drög að skýrslu um framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og er hægt að senda inn umsagnir um drögin út mánuðinn.

Nú hafa verið birt drög að skýrslu um framkvæmd barnasáttmálans á Íslandi. Drögin voru unnin af vinnuhópi sem skipaður var í apríl 2018 og samanstendur af fulltrúum frá dómsmálaráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra, heilbrigðisráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og utanríkisráðherra. Vinnuhópurinn átti auk þess samráð við stýrihóp Stjórnarráðsins um mannréttindi, þar sem sitja fulltrúar allra ráðuneyta.

Við gerð skýrslunnar var tekið mið af leiðbeiningum nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá árinu 2015, en samkvæmt þeim má skýrslan ekki vera meira en 21.200 orð. Skýrslan tekur til áranna 2009-2018, en leitast er við að gefa sem réttasta mynd af því hvernig barnasáttmálanum hefur verið framfylgt á því tímabili og hvernig tekið hefur verið tillit til lokaathugasemda nefndarinnar til Íslands frá árinu 2011.

Leitast hefur verið við að eiga víðtækt samráð við gerð skýrslunnar. Upplýsingar um fyrirhugaða skýrslugerð voru birtar á samráðsgáttinni í maí og þar gafst öllum kostur á að senda inn umsagnir. Þá var haldinn opinn samráðsfundur í maí 2018 með ýmsum hagsmunaaðilum, þar sem aðilum gafst kostur á að koma með athugasemdir um það sem fram ætti að koma í skýrslunni. Þá er nú kallað eftir frekari umsögnum og ábendingum um efni skýrslunnar, en jafnframt eru hagsmunaaðilar hvattir til þess að senda svokallaðar skuggaskýrslur til nefndarinnar, sjá nánar hér á vef barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna.

Sjónarmið barna skipta miklu máli þegar framkvæmd barnasáttmálans er metin. Var því haldinn sérstakur samráðsfundur í maí 2018 með börnum á aldrinum 10-18 ára með aðstoð sérfræðings í þátttöku barna, þar sem staða sáttmálans á Íslandi og réttindi barna voru rædd. Loks var sendur út spurningarlisti til barna, m.a. til ungmennaráða sveitarfélaga, þar sem óskað var eftir svörum við nokkrum spurningum sem varða framkvæmd barnasáttmálans á Íslandi. Reynt hefur verið að taka tillit til athugasemda í drögunum, en auk þess mun sérstök skýrsla með skilaboðum frá börnum vera send sem viðauki við skýrsluna. Barnaskýrslan er einnig aðgengileg hér á samráðsgáttinni.

Sjá nánar


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum