Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2023 Utanríkisráðuneytið

UNICEF kallar eftir tafarlausu vopnahléi í Súdan

Ljósmynd frá Súdan: UNICEF - mynd

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, kallar eftir tafarlausu vopnahléi í Súdan þar sem hörð átök síðustu daga hafa kostað fjölda barna og óbreytta borgara lífið. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Catherine Russell, framkvæmdastjóra UNICEF.

„Að minnsta kosti 9 börn hafa látið lífið og rúmlega 50 særst í árásum og átökum í Khartoum, Darfur og Norður-Kordofan. Hættulegt ástand í landinu gerir það að verkum að afar erfitt reynist að safna og staðfesta upplýsingar yfir tölu látinna og særðra og á meðan átök halda áfram munu börn halda áfram að gjalda fyrir það,“ segir Russell.

Fjölmargar óttaslegnar fjölskyldur eru fastar í skotlínunni með lítið sem ekkert aðgengi að rafmagni auk þess sem hætta er á matar-, vatns- og lyfjaskorti. Þúsundir fjölskyldna hafa neyðst til að flýja heimili sín.

Russell segir að átökin hafi haft skelfilegar afleiðingar á mannúðarstarf í Súdan og meðal annars raskað umönnun 50 þúsund alvarlega vannærðra barna sem þurfa aðhlynningu allan sólarhringinn. Þá ógni átökin svokallaðri kaldri keðju UNICEF sem tryggir örugga dreifingu bóluefna og annarra lyfja sem þarfnast kælingar, þar sem raforkuöryggi er lítið og víða er ómögulegt að fylla á eldsneytisbirgðir fyrir vararafstöðvar.

„Fyrir þessi átök var þörfin fyrir mannúðaraðstoð í Súdan í hæstu hæðum. Ljóst er að vegna ástandsins geta UNICEF og samstarfsaðilar ekki veitt mikilvægu aðstoð ef öryggi starfsfólks er ógnað líkt og raunin er. Hugur okkar er hjá aðstandendum samstarfsfólks okkar hjá Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, WFP, sem létu lífið eða hafa særst í þessum árásum. Starfsfólk UNICEF, sem og annarra mannúðarstofnana, hafa verið rænd af vopnuðum einstaklingum en árásir sem þessar á starfsfólk og stofnanir eru árás á börnin og fjölskyldurnar sem við vinnum fyrir.“

Catherine Russell segir UNICEF taka undir ákall António Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um tafarlaust vopnahlé og að stríðandi fylkingar virði alþjóðalög um vernd barna í stríði og rétt þeirra til mannúðaraðstoðar í þessu skelfilega stríðsástandi.

„UNICEF krefst þess einnig að stríðandi fylkingar hætti tafarlaust árásum á mikilvæga samfélagslega innviði sem börn þurfa á að halda, svo sem vatns- og hreinlætisþjónustu, heilbrigðisstofnanir og skóla,“ segir Russell að lokum. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum