Hoppa yfir valmynd
8. september 2016 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 305/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 8. september 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 305/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16050036

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 17. maí 2016 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. maí 2016, að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um hæli á Íslandi vegna aðstæðna hans í […], synja honum um hæli vegna aðstæðna hans í Ungverjalandi og endursenda hann þangað auk þess að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga nr. 96/2002.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn kæranda um hæli til efnismeðferðar. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um hæli hér á landi þann 17. janúar 2016. Kærandi var boðaður í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 4. febrúar 2016 ásamt talsmanni sínum. Þann 13. maí 2016 tók Útlendingastofnun ákvörðun um að taka umsókn kæranda um hæli vegna aðstæðna hans í […] ekki til efnismeðferðar hér á landi, auk þess að komast að þeirri niðurstöðu að kærandi væri ekki flóttamaður vegna aðstæðna hans í Ungverjalandi og var honum synjað um hæli á Íslandi. Jafnframt var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga. Kærandi kærði þá ákvörðun við birtingu þann 17. maí 2016. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til meðferðar. Með bréfi kærunefndar, dags. 18. maí 2016, var fallist á beiðni um frestun réttaráhrifa. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 2. júní 2016. Þann 28. júlí sl. kom kærandi fyrir kærunefnd útlendingamála og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga. Viðstaddir voru talsmaður kæranda og túlkur.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var tekið fram að í viðtali og í greinargerð frá kæranda hafi komið fram að kærandi hafi ekki vitað af svokölluðum aðlögunarsamningi sem allir þeir sem hafi fengið vernd í Ungverjalandi eigi rétt á að gera. Samkvæmt upplýsingum sem Útlendingastofnun hafi aflað frá ungverskum yfirvöldum sé umsækjendum kynntur möguleiki á þessum samningi í ákvörðun sem þeim sé birt í máli sínu. Í ljósi þessara upplýsinga taldi Útlendingastofnun ólíklegt að kæranda hafi ekki verið kunnugt um rétt sinn til að gera slíkan samning.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að í b-lið 1. mgr. 46. gr. a segi að með fyrirvara um ákvæði 45. gr. geti stjórnvöld synjað því að taka umsókn til efnismeðferðar ef umsækjandi hefur komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið vernd í öðru ríki eða eftir að hafa dvalist í ríki eða á svæði þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum og hafði ekki ástæðu til að óttast að verða sendur aftur til heimalands síns. Óumdeilt sé að kæranda hafi verið veitt viðbótarvernd í Ungverjalandi. Þurfi þá að líta til þess hvort ákvæði 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga komi í veg fyrir að kærandi verði sendur aftur til Ungverjalands.

Kærandi hafi viðbótarvernd í Ungverjalandi og þar með leyfi til að stunda atvinnu og geti því unnið þar fyrir sér og aflað sér húsnæðis. Ungverjaland sé aðildarríki Evrópusambandsins og skuldbundið bæði af flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasáttmála Evrópu. Það sé þó ljóst að mikil aukning hafi orðið á hælisumsóknum í Austur-Evrópu og ungversk yfirvöld hafi verið gagnrýnd fyrir aðbúnað, bæði hælisleitenda og flóttamanna. Eftir ábendingar frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi ungversk yfirvöld hins vegar bætt fyrirkomulagið við aðlögun þeirra sem hafa hlotið hæli eða viðbótarvernd í landinu.

Mannréttindadómstóll Evrópu hafi slegið því föstu að 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu leggi ekki skyldu á aðildarríki að sjá öllum sem dvelja innan lögsögu þeirra fyrir heimili og ekki almenna skyldu á aðildarríki til að veita viðurkenndum flóttamönnum fjárhagsaðstoð í því skyni að gera þeim kleift að viðhalda tilteknum lífskjörum. Að mati Útlendingastofnunar verði því ekki séð að aðstæður kæranda varðandi húsnæði, atvinnu og félagslega þjónustu séu svo slæmar að þær jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 45. gr. laga um útlendinga. Eins verði að telja að kærandi geti leitað til yfirvalda verði hann fyrir einhvers konar áreiti vegna uppruna síns.

Í greinargerð kæranda hafi verið byggt á því að skilyrði fjölskyldusameiningar fyrir einstaklinga með viðbótarvernd í Ungverjalandi brjóti mögulega í bága við 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Benti Útlendingastofnun á að það sé meginregla í þjóðarétti að þjóðir hafi sjálfsákvörðunarrétt um það hverjum þau heimili komur og dvöl á yfirráðasvæði sínu. Jafnframt veiti mannréttindasáttmáli Evrópu ekki sjálfstæðan rétt fyrir útlendinga til að koma til eða dvelja í aðildarríkjunum, sbr. úrlausn Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 55597/2009, Nunez gegn Noregi frá 28. júní 2011. Þá tók Útlendingastofnun fram að kærandi væri […].

Í 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga komi fram að taka skuli umsókn um hæli til efnismeðferðar ef svo standi á sem segi í b-d-liðum 1. mgr., ef útlendingur hafi slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd. Í viðtali við kæranda hafi komið fram að hann hafi ekki nein tengsl við Ísland og ekki verði séð að sérstakar ástæður mæli með því að hann fái vernd hér á landi.

Því var það niðurstaða Útlendingastofnunar að taka ekki umsókn kæranda um hæli vegna aðstæðna í heimaríki til efnismeðferðar.

Þá sagði í ákvörðun Útlendingastofnunar að með hugtakinu heimaland í 44. gr. laga um útlendinga sé, samkvæmt lögskýringargögnum með ákvæðinu, átt við það land þar sem viðkomandi eigi ríkisfang. Kærandi, sem ríkisborgari […], geti því ekki átt rétt á hæli sem flóttamaður vegna aðstæðna sinna í Ungverjalandi þar sem hann hefur þegar hlotið vernd. Kæranda var því synjað um stöðu flóttamanns hér á landi, sbr. 44. gr. laga um útlendinga.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var jafnframt tekið til skoðunar hvort aðstæður kæranda féllu undir ákvæði 12. gr. f laga um útlendinga, í samræmi við 8. mgr. 46. gr. laga um útlendinga. Í lögskýringargögnum með ákvæði 12. gr. f laga um útlendinga komi fram að útlendingur geti átt rétt á vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna en það sé að jafnaði ekki talið að ákvæðið taki til neyðar af efnahagslegum rótum.

Aðalástæða flótta kæranda hafi virst vera af efnahagslegum toga og að hann óttist um öryggi sitt. Það var mat Útlendingastofnunar að í Ungverjalandi séu engin viðvarandi mannréttindabrot og að íbúar landsins geti fengið vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum með aðstoð lögreglu eða annarra yfirvalda. Þá taki ákvæði 12. gr. f ekki til neyðar af efnahagslegum rótum eða vegna húsnæðisskorts.

Því var það niðurstaða Útlendingastofnunar að synja bæri kæranda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 12. gr. f laga um útlendinga. Þá var kæranda jafnframt synjað um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við Ísland skv. 12. gr. f laga um útlendinga.

Kæranda var vísað frá landi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 18. gr. útlendingalaga, og var réttaráhrifum ekki frestað með vísan til c-liðar 1. mgr. 32. gr. sömu laga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í upphafi greinargerðar sinnar tekur kærandi fram að það sé ljóst af gögnum málsins að hann njóti viðbótarverndar í Ungverjalandi. Hins vegar byggist krafa kæranda um að verða ekki sendur til Ungverjalands á því að þangað megi ekki senda hann vegna þess að sterkar vísbendingar séu um að þær aðstæður sem hann megi eiga von á þar í landi séu svo slæmar að það jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærandi bendir jafnframt á að samkvæmt 45. gr. laga um útlendinga megi ekki senda útlending til svæðis þar sem hann sé í yfirvofandi hættu á að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Kærandi tekur fram að hann sé ekki að óska alþjóðlegrar verndar gagnvart Ungverjalandi, enda uppfylli hann ekki skilyrði 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga þar sem Ungverjaland sé ekki heimaland hans.

Í greinargerð kæranda er vísað til þess að aðstæður, aðbúnaður og réttarstaða þeirra sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Ungverjalandi leiði til þess að íslenskum stjórnvöldum sé ekki stætt á því að senda kæranda aftur til Ungverjalands. Í hælisviðtali kæranda hjá Útlendingastofnun hafi komið fram að kærandi hafi ekki gert aðlögunarsamning við ungversk stjórnvöld, enda hafi honum ekki verið kynntur sá möguleiki. Í viðtalinu hafi hann einnig greint frá því að áður en kæranda hafi verið veitt vernd hafi hann margsinnis verið […] vegna þess að hann hafi ekki haft áhuga á því að dvelja í Ungverjalandi og hafi hvað eftir annað reynt að komast þaðan. Lögreglumenn hafi verið ógnandi og barið flóttafólk með spýtum ef það hlýddi ekki fyrirmælum þeirra. Hann hafi verið neyddur til að gefa fingraför, en þau hafi verið tekin í því yfirskyni að athuga hvort kærandi hefði sakarferil. Honum hafi verið hótað fangelsisvist og pyndingum ef hann yrði ekki við skipunum lögreglumanna um skrásetningu fingrafaranna. Þá hafi hann greint frá því í viðtalinu að þegar honum hafi verið veitt vernd hafi hann fengið 200 evrur í peningum og skírteini sem sýni fram á réttarstöðu hans í Ungverjalandi. Hann hafi þá þurft að yfirgefa flóttamannabúðirnar sem hann hafi dvalið í. Afar erfitt hafi verið að draga fram lífið eftir að vernd hafi verið veitt, t.d. hafi verið ómögulegt að verða sér úti um vinnu, þrátt fyrir að atvinnuleyfi hafi falist í dvalarleyfinu.

Í sambandi við umfjöllun um aðlögunarsamning við ungversk stjórnvöld bendir kærandi á að þrátt fyrir að slíkur samningur hefði verið gerður þá hafi þarlend stjórnvöld heimild til að ógilda slíkan samning ef litið sé svo á að viðkomandi einstaklingur hafi afsalað sér þeirri vernd sem hann hafi hlotið. Því sé alls ekki hægt að útiloka að ungversk stjórnvöld muni líta svo á að kærandi hafi afsalað sér viðbótarverndinni með því að sækja um hæli á Íslandi. Auk þess sé það eitt af skilyrðum aðlögunarsamnings að viðkomandi dvelji í Ungverjalandi út samningstímann. Telur kærandi að gegn því skilyrði væri augljóslega brotið með því að sækja um hæli í öðru landi eins og kærandi hafi gert. Á heimasíðu ungversku útlendingastofnunarinnar komi jafnframt fram að yfirvöld segi samningnum upp ef viðkomandi flóttamaður flytur burt frá því sveitarfélagi, sem mælt er fyrir um í samningnum, á meðan að samningstímanum stendur.

Vísar kærandi í skýrslu mannréttindastjóra Evrópuráðsins. Þar sé að finna upplýsingar um fyrirkomulag varðandi aðlögunarsamninga milli yfirvalda og flóttamanna og lýst áhyggjum varðandi aðstæður og réttindi flóttamanna í Ungverjalandi, m.a. varðandi hættu á að þeir verði heimilislausir. Í skýrslunni komi fram að þýsk stjórnvöld hafi stöðvað fjölda endursendinga einstaklinga með viðbótarvernd í Ungverjalandi sem höfðu, vegna slæmra aðstæðna sinna þar í landi, sótt um hæli í Þýskalandi. Endursendingar hafi verið stöðvaðar tímabundið með hliðsjón af úrskurðum þýskra dómstóla. Þar hafi verið vísað til kerfisbundinna galla í ungverska kerfinu gagnvart þeim sem njóta viðbótarverndar. Ekki hafi fallið dómur á æðra dómstigi sem hafi breytt þessari framkvæmd.

Verulegir annmarkar séu í tengslum við aðlögun flóttamanna og annarra með alþjóðlega vernd að ungversku samfélagi, aðallega vegna þess að nægilegu fjármagni sé ekki veitt inn í kerfið. Auk þess sé erfitt að fá atvinnu í Ungverjalandi. Nýlega hafi síðan innanríkisráðuneyti Ungverjalands lagt fram lagabreytingartillögur um að skerða réttindi viðurkenndra flóttamanna. Þar sé meðal annars lagt til að aðgangur að grunnheilbrigðisþjónustu verði styttur og að flóttamenn fái ekki lengur vasapeninga eða fjármuni fyrir húsnæði eða menntun. Ennfremur sé algengt að flóttafólk í Ungverjalandi verði fyrir mismunun, kynþáttahatri og áreiti, bæði líkamlegu og munnlegu. Þá sé það refsivert að sofa utandyra að nóttu til á opnum svæðum. Vísar kærandi m.a. til alþjóðlegra skýrslna máli sínu til stuðnings.

Til vara gerir kærandi þá kröfu að honum verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga. Kærandi bendir á að í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 115/2010, um breytingu á útlendingalögum, komi m.a. fram í sérstökum athugasemdum að ekki sé um tæmandi talningu að ræða í 12. gr. f laganna, þar sem veita verði stjórnvöldum svigrúm við mat á því hvenær rétt sé að veita dvalarleyfi samkvæmt greininni.

Kærandi vísar í umfjöllun Útlendingastofnunar um úrlausnir Mannréttindadómstóls Evrópu í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (máli nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011, og í máli Samsam Mohammed Hussein og fl. gegn Hollandi og Ítalíu (máli nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013. Auk þess vísar kærandi í úrlausn Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Naima Mohammed Hassan o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (máli nr. 40524/10) frá 27. ágúst 2013. Í framhaldi af því bendir kærandi á að það séu ekki einungis hælisleitendur sem séu sérstaklega viðkvæmur þjóðfélagshópur vegna stöðu sinnar. Einstaklingar með alþjóðlega vernd séu það mjög oft einnig og engin ástæða sé til að greina þar sérstaklega á milli við mat á því hvort skilyrðum 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sé fullnægt eða ekki. Bæði hælisleitendur og einstaklingar með alþjóðlega vernd njóti réttinda og beri skyldur samkvæmt löggjöf Evrópusambandsins.

Mannréttindadómstóll Evrópu hafi í úrlausnum sínum komist að þeirri niðurstöðu að ítalskt dvalarleyfi veiti viðurkenndum flóttamönnum sömu réttarstöðu og ítölskum borgurum. Bendir kærandi á að sé það heimfært yfir á stöðuna í Ungverjalandi virðist sem einstaklingar með alþjóðlega vernd í Ungverjalandi njóti að mestu sömu réttinda og ungverskir borgarar, sé litið til ungversku útlendingalaganna. Kærandi bendir hins vegar á að hafa verði hugfast það grundvallaratriði að þrátt fyrir að flóttamaður með viðurkennda stöðu njóti í orði kveðnu sömu réttinda og almennir borgarar viðkomandi lands þá séu flóttamenn í allt annarri og mun viðkvæmari stöðu. Flóttamenn með alþjóðlega vernd séu eðli máls samkvæmt búnir að vera á flótta frá heimaríki sínu og stundum búnir að vera í hælismeðferð svo árum skiptir. Þeir hafi búið við bágbornar aðstæður, haft takmörkuð réttindi og upplifað tilheyrandi óvissu um framtíð sína. Þeir tali sjaldnast tungumálið og hafi ekki sama fjölskyldu- og tengslanet og almennir borgarar og eigi gjarnan mun erfiðara en almennir borgarar með að verða sér úti um vinnu. Þar fyrir utan sé almenn heilsa þeirra oft slæm, sem geti tekið langan tíma að vinna úr með aðstoð sérfræðinga.

Einstaklingur geti því einn daginn verið heimilis- og bjargarlaus sem hælisleitandi og næsta dag verið áfram heimilis- og bjargarlaus, en með alþjóðlega vernd. Þó svo að einstaklingar með alþjóðlega vernd njóti sömu eða sambærilegra réttinda og almenningur þá sé staða þeirra sjaldnast á pari við hinn almenna borgara, öfugt við það sem Mannréttindadómstóll Evrópu virðist telja. Að gera greinarmun á því hvort um hælisleitanda eða einstakling með alþjóðlega vernd sé að ræða sé því ekki það sem mestu skipti, heldur skuli einblína á hvort viðkomandi einstaklingur sé í hættu á illri meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sáttmálinn mæli einungis fyrir um lágmarksvernd og hverju ríki sé heimilt að mæla fyrir um ríkari vernd en leiði af mannréttindasáttmálanum og dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu.

Kærandi hafi verið neyddur með líkamlegu ofbeldi lögreglunnar til að gefa fingraför og með því sækja um hæli í Ungverjalandi. Þar vilji hann alls ekki búa en sé neyddur til þess, vilji hann búa í Evrópu. Það andrúmsloft sem nú ríki í Ungverjalandi sé sérstaklega fjandsamlegt hælisleitendum og flóttamönnum. Forsætisráðherra landsins hafi ítrekað lýst andúð sinni á slíku fólki, ekki síst […], og samkvæmt nýlegri rannsókn sem gerð hafi verið meðal almennings telji 66% Ungverja að flóttafólk valdi hættu í landinu. Ekki sé ástæða til að ætla að ástand mála hafi batnað í Ungverjalandi undanfarið heldur þvert á móti, sérstaklega í ljósi þess gríðarlega fjölda hælisleitenda sem komið hafa til landsins á síðustu misserum og þess álags sem nú sé á flestum innviðum landsins því tengdu.

Kærandi bendir á að með hliðsjón af lögskýringargögnum varðandi 12. gr. f laga um útlendinga sé á engan hátt útilokað að ákvæðið geti átt við neyð af efnahagslegum rótum, s.s. vegna fátæktar eða húsnæðisskorts. Með vísan til ofangreinds hafi kærandi því sýnt fram á ríka þörf á vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna erfiðra almennra aðstæðna í Ungverjalandi og að veita beri honum vernd á grundvelli 1. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Afmörkun úrlausnarefnis

Kærunefnd telur að kærandi sé fyrst og fremst að sækja um hæli frá heimaríki sínu […]. Málsástæður hans gefa þó einnig til kynna að hann sé að sækja um hæli frá Ungverjalandi, því ríki sem þegar hefur veitt honum vernd. Tekur neðangreind umfjöllun mið af því.

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga, með síðari breytingum, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga, með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951 ásamt viðauka við samninginn frá 1967 og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að við komuna til landsins hafi kærandi framvísað vegabréfi útlendings, útgefnu af ungverskum yfirvöldum, auk ungversks og […] persónuskilríkis. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi hafi sannað hver hann sé með fullnægjandi hætti.

Mat á því hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu

Við meðferð máls er litið til þess hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem geti haft áhrif á niðurstöðu máls hans. Með því getur verið átt við hvort kærandi hafi mátt þola pyndingar, hvort kærandi sé barn eða hvort umsókn hans varði börn hans, hvort kynhneigð eða kynferði kæranda geti haft áhrif eða hvort kærandi geti verið ríkisfangslaus. Mat á stöðu kæranda fer ávallt fram og eru þau atriði sem koma til skoðunar ekki tæmandi.

Kærunefndin telur að ekkert í máli kæranda gefi til kynna að staða hans sé slík að hann skuli teljast einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu við endursendingu.

Umsókn um hæli frá heimaríki. Ákvæði 45. og 46. gr. a útlendingalaga

Í 1. mgr. 46. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 44. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, á samkvæmt umsókn rétt á að fá hér hæli frá heimalandi sínu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Stjórnvöld geta þó, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 46. gr. a, og með fyrirvara um ákvæði 45. gr., synjað því að taka til efnismeðferðar umsókn á grundvelli 46. gr. laganna ef umsækjanda hefur verið veitt hæli í öðru ríki.

Með sama fyrirvara geta stjórnvöld einnig synjað um efnismeðferð á grundvelli b-liðar 1. mgr. 46. gr. a, ef umsækjandi hefur komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið vernd í öðru ríki eða eftir að hafa dvalist í ríki eða á svæði þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum og hafði ekki ástæðu til að óttast að verða sendur aftur til heimalands síns.

Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga má ekki senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem gætu leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.

Við mat á því hvort að 45. gr. laga um útlendinga eigi við verður m.a. að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þann 2. apríl 2013 lýsti Mannréttindadómstóll Evrópu kæru í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (máli nr. 27725/10) ótæka á þeim grundvelli að sú meðferð sem kærandi hlaut, bæði sem hælisleitandi og einstaklingur sem hlotið hefur vernd, gæti ekki talist brot gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Taldi dómstóllinn að ekki sé hægt að gera þá kröfu til aðildarríkja að veita öllum flóttamönnum húsaskjól eða fjárhagslega aðstoð til þess að viðhalda ákveðnum lífsskilyrðum.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Ungverjalandi m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

· Hungary as a country of asylum: Observations on restrictive measures and subsequent practice implemented between July 2015 and March 2016 (UNHCR, maí 2016),

· Hungary as a country of asylum: Observations on the situation of asylum-seekers and refugees in Hungary (UNHCR, 24. apríl 2012),

· 2015 – Country Reports on Human Rights Practices –Hungary (United States Department of State, 13. apríl 2016),

· Asylum Information Database National Country Report: Hungary (European Council on Refugees and Exiles, nóvember 2015),

· Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council of Europe Following his Visit to Hungary from 1 to 4 July 2014 (Council of Europe, 16. desember 2014),

· Description of the Hungarian Asylum System (European Asylum Support Office, 18. maí 2015) og

· ECRI Report on Hungary (European Commission against Racism and Intolerance, 9. júní 2015).

Ljóst er að mikil aukning hefur orðið á hælisumsóknum í Austur-Evrópu. Verður af framangreindu ráðið að ungversk yfirvöld hafa átt við margvíslegan vanda að etja. Hins vegar hefur athugun kærunefndar á aðstæðum þeirra sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Ungverjalandi ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður þeirra í Ungverjalandi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda brjóti í bága við 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, verði kærandi sendur þangað. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Ungverjalandi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Með því er tryggt að kærandi verði ekki sendur áfram til svæðis sem 45. gr. laga um útlendinga tekur til. Ennfremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu þeirra sem hlotið hafa alþjóðlega vernd til Ungverjalands.

Þegar metið er hvort synja skuli umsóknum um hæli um efnismeðferð á grundvelli b-liðar 1. mgr. 46. gr. a útlendingalaga skulu stjórnvöld kanna hvort skilyrði séu til þess að beita undanþáguheimildinni í 2. mgr. 46. gr. a sömu laga. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 4. febrúar 2016 kom ekkert fram sem gaf til kynna að kærandi hefði nein sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Þá benda gögn ekki til þess að aðstæður hans séu að öðru leyti svo sérstakar að ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga eigi við. Verður því ekki talið að ástæða sé til að taka mál kæranda til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland eða annarra sérstakra ástæðna.

Kærandi er með viðbótarvernd í Ungverjalandi. Kæranda hefur því verið veitt vernd í öðru ríki en heimaríki sínu. Með hliðsjón af 45. gr. laga um útlendinga og í ljósi ofangreindra upplýsinga telur kærunefndin að Útlendingastofnun hafi verið heimilt að synja efnismeðferð á umsókn kæranda um hæli frá heimaríki sínu, […], með vísan til b-liðar 1. mgr. 46. gr. a útlendingalaga.

Umsókn um hæli frá dvalarríki. Ákvæði 44. gr. útlendingalaga

Í ljósi þess að kærandi ber fyrir sig aðstæður í Ungverjalandi telur kærunefndin rétt að fjalla einnig um umsókn kæranda eins og hann væri að sækja um hæli þaðan.

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga. Kærandi byggir kröfu sína á að hann þurfi vernd hér á landi á grundvelli þess að þær aðstæður sem bíði hans í Ungverjalandi séu ómannúðlegar og vanvirðandi.

Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.

Í lögskýringargögnum með þessari skilgreiningu kemur fram að heimaland sé það land þar sem viðkomandi eigi ríkisfang. Í máli kæranda er ljóst að hann hefur hlotið viðbótarvernd í Ungverjalandi. Kærandi, sem er ríkisborgari […], getur ekki átt rétt á hæli sem flóttamaður hér á landi vegna aðstæðna sinna í Ungverjalandi, því ríki sem veitt hefur honum vernd. Verður honum synjað um stöðu flóttamanns hér á landi á þeim grundvelli. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar þá telur kærunefndin heldur ekki að endursending kæranda til Ungverjalands brjóti gegn 45. gr. útlendingalaga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Ákvæði 12. gr. f útlendingalaga.

Samkvæmt 8. mgr. 46. gr. útlendingalaga skal stjórnvald taka til skoðunar hvort aðstæður kæranda falli undir ákvæði 12. gr. f ef hann er ekki talinn flóttamaður.

Samkvæmt 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Kærunefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga á grundvelli aðstæðna í Ungverjalandi. Þegar framburður kæranda er virtur í heild sinni ásamt gögnum málsins er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi heldur ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða eins og kveðið er á um í 12. gr. f útlendingalaga. Er því fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í Ungverjalandi séu ekki með þeim hætti að rík mannúðarsjónarmið standi til þess að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga.

Þá tekur kærunefndin jafnframt undir niðurstöðu Útlendingastofnunar um að kærandi uppfylli ekki skilyrði 12. gr. f útlendingalaga um sérstök tengsl við landið. Eins og fram kemur í gögnum málsins hefur kærandi aðeins dvalið á landinu í tengslum við umsókn sína um hæli og aðeins í skamman tíma.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Pétur Dam Leifsson Anna Tryggvadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum