Hoppa yfir valmynd
8. september 2016 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 304/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 8. september 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 304/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16030048

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 22. mars 2016 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. mars 2016, að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um hæli á Íslandi vegna aðstæðna hans í […], synja honum um hæli vegna aðstæðna hans í Búlgaríu og endursenda hann þangað auk þess að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga nr. 96/2002.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn kæranda um hæli til efnismeðferðar með vísan til 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um hæli hér á landi þann 13. desember 2015. Kærandi mætti í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 11. febrúar 2016 ásamt talsmanni sínum. Þann 21. mars 2016 tók Útlendingastofnun ákvörðun um að taka umsókn kæranda um hæli vegna aðstæðna hans í […] ekki til efnismeðferðar hér á landi, auk þess að komast að þeirri niðurstöðu að kærandi væri ekki flóttamaður vegna aðstæðna hans í Búlgaríu og var honum synjað um hæli á Íslandi. Jafnframt var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga. Kærandi kærði þá ákvörðun við birtingu þann 22. mars 2016. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til meðferðar. Með bréfi kærunefndar, dags. 23. mars 2016, var fallist á beiðni um frestun réttaráhrifa. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 26. apríl 2016. Þann 28. júlí sl. kom kærandi fyrir kærunefnd útlendingamála og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga. Viðstaddir voru talsmaður kæranda og túlkur.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að í 1. mgr. 46. gr. útlendingalaga segi að flóttamaður skv. 44. gr. sem er hér á landi eða kemur hér að landi á samkvæmt umsókn rétt á að fá hér hæli. Þá segi í b-lið 1. mgr. 46. gr. a að með fyrirvara um ákvæði 45. gr. geti stjórnvöld synjað því að taka til efnismeðferðar umsókn skv. 1. mgr. 46. gr. ef umsækjandi hefur komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið vernd í öðru ríki eða eftir að hafa dvalist í ríki eða á svæði þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum og hafði ekki ástæðu til að óttast að verða sendur aftur til heimalands síns.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafi alþjóðlega vernd í Búlgaríu og sé með gilt dvalarleyfi þar í landi sem renni úr gildi þann 28. febrúar 2017. Kærandi hafi því hlotið vernd í öðru ríki í samræmi við b-lið 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Því verði að skoða hvort að aðstæður í Búlgaríu séu með þeim hætti að 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga girði fyrir flutning kæranda þangað.

Óumdeilt sé að kærandi hafi fengið vernd í Búlgaríu og þar með leyfi til þess að stunda atvinnu og geti unnið fyrir sér og aflað sér húsnæðis. Útlendingastofnun hafi farið ítarlega yfir aðstæður flóttamanna í Búlgaríu og samkvæmt heimildum stofnunarinnar eigi flóttamenn erfitt með að aðlagast búlgörsku samfélagi. Það sé ekki eingöngu vegna bágrar fjárhagslegrar stöðu heldur einnig vegna kerfisbundinna hindrana og skorts á leiðbeiningum og aðstoð. Einnig fari útlendingahatur og fordómar vaxandi þar í landi. Útlendingastofnun benti á að unnið hafi verið að því að berjast gegn útlendingahatri. Þá verði ekki séð að lögregla og önnur yfirvöld geti ekki veitt kæranda vernd gegn mismunun. Eins benti Útlendingastofnun á að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi slegið því föstu að 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu legði ekki skyldu á aðildarríki til að sjá öllum sem dveldu innan lögsögu þeirra fyrir heimili og ekki almenna skyldu á aðildarríki til að veita viðurkenndum flóttamönnum fjárhagsaðstoð í því skyni að gera þeim kleift að viðhalda tilteknum lífskjörum. Því verði ekki séð að aðstæður kæranda varðandi húsnæði, atvinnu og félagslega þjónustu séu svo slæmar að þær jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 45. gr. laga um útlendinga.

Það var mat Útlendingastofnunar að þótt gagnrýna megi einstaka þætti í málsmeðferð búlgarskra stjórnvalda í máli kæranda, þá sérstaklega upplýsingagjöf og hvernig staðið var að málum þegar umsókn um hæli var lögð fram, sé ekki um það að ræða að brotið hafi verið gegn rétti kæranda samkvæmt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þegar hann dvaldi í Búlgaríu.

Tók Útlendingastofnun fram að stofnunin drægi ekki í efa frásögn kæranda varðandi aðstöðu hans og meðferð […]. Telji kærandi hins vegar að brotið hafi verið gegn rétti hans sé það mat Útlendingastofnunar að honum standi til boða viðeigandi réttarúrræði fyrir búlgörskum landsrétti og eftir atvikum fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að framtíðarhorfur kæranda feli í sér raunverulega og yfirvofandi hættu á að brotið verði gegn rétti hans samkvæmt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, snúi hann aftur til Búlgaríu. Auk þess taldi Útlendingastofnun að kærandi teldist ekki vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu út frá heilsufarssjónarmiðum.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var jafnframt tekið fram að þó að straumur hælisleitenda til Búlgaríu á síðustu misserum hafi síst minnkað sé ekkert sem bendi til að aðstæður séu með þeim hætti að jafnist á við kerfisbundinn galla. Auk þess hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna ekki mælst til þess að aðildarríki Evrópuráðsins stöðvi flutninga hælisleitenda og viðurkenndra flóttamanna til Búlgaríu. Það var mat Útlendingastofnunar að í Búlgaríu séu engin viðvarandi mannréttindabrot og að íbúar landsins geti fengið vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum með aðstoð lögreglu eða annarra yfirvalda. Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að 45. gr. laga um útlendinga komi ekki í veg fyrir að kærandi verði sendur aftur til Búlgaríu. Jafnframt var það mat stofnunarinnar að sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga eigi ekki við um mál kæranda.

Því var það niðurstaða Útlendingastofnunar að taka ekki umsókn kæranda um hæli vegna aðstæðna í heimaríki til efnismeðferðar.

Þá sagði í ákvörðun Útlendingastofnunar að með hugtakinu heimaland í 44. gr. laga um útlendinga sé, samkvæmt lögskýringargögnum með ákvæðinu, átt við það land þar sem viðkomandi eigi ríkisfang. Kærandi, sem ríkisborgari […], geti því ekki átt rétt á hæli sem flóttamaður vegna aðstæðna sinna í Búlgaríu þar sem hann hefur þegar hlotið vernd. Kæranda var því synjað um stöðu flóttamanns hér á landi, sbr. 44. gr. laga um útlendinga.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var jafnframt tekið til skoðunar hvort aðstæður kæranda féllu undir ákvæði 12. gr. f laga um útlendinga, í samræmi við 8. mgr. 46. gr. laga um útlendinga. Það var mat Útlendingastofnunar að í Búlgaríu séu engin viðvarandi mannréttindabrot og að íbúar landsins geti fengið vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum með aðstoð yfirvalda. Þá taki ákvæðið ekki til neyðar af efnahagslegum rótum eða vegna húsnæðisskorts. Því var það niðurstaða Útlendingastofnunar að synja bæri kæranda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 12. gr. f laga um útlendinga. Þá var kæranda jafnframt synjað um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við Ísland skv. 12. gr. f laga um útlendinga.

Kæranda var vísað frá landi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 18. gr. útlendingalaga, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga um útlendinga, og var réttaráhrifum ekki frestað með vísan til c-liðar 1. mgr. 32. gr. sömu laga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð sinni tekur kærandi fram að samkvæmt gögnum málsins hafi honum verið veitt viðbótarvernd í Búlgaríu þann 31. janúar 2014. Ekki liggi hins vegar fyrir í málinu hvenær gildistími dvalarleyfisins renni út. Gerir kærandi athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar í málinu hvað þetta varðar. Þá sé ekki að sjá að kannaðar hafi verið afleiðingar þess að kærandi hafi dvalið utan Búlgaríu í rúma fjóra mánuði, en samkvæmt löggjöf flestra ríkja falli dvalarleyfi úr gildi eftir tiltekna fjarveru frá landinu.

Kærandi sé ekki að óska alþjóðlegrar verndar gagnvart Búlgaríu, enda uppfylli hann ekki skilyrði 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga þar sem Búlgaría sé ekki heimaland hans. Krafa hans um að verða ekki sendur til Búlgaríu byggist á því að þangað megi ekki senda hann vegna þess að sterkar vísbendingar séu um að þær aðstæður sem hann hafi þurft að búa við og hann megi eiga von á þar í landi séu svo slæmar að það jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, auk þess sem það brjóti gegn 45. gr. laga um útlendinga.

Auk þess feli ákvæði 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga í sér heimild en ekki skyldu til þess að synja hælisumsókn um efnismeðferð. Stjórnvöldum sé hins vegar skylt, samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins, að taka umsókn um hæli til efnismeðferðar hér á landi þrátt fyrir ákvæði b-d-liða 1. mgr. ákvæðisins. Sú skylda virkist við það eitt að sérstakar ástæður mæli með því að umsókn verði tekin til efnismeðferðar. Telur kærandi að sérstakar ástæður leiði til þess að stjórnvöldum beri að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar þrátt fyrir ákvæði b-liðar 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga.

Í greinargerð kæranda er vísað til þess að aðstæður flóttafólks og hælisleitenda í Búlgaríu séu lýsandi fyrir þá mismunun sem blasi við minnihlutahópum þar í landi. Mikið innstreymi af fólki á flótta hafi sett húsnæðismál í uppnám og hælisleitendur séu hýstir við mjög slæmar aðstæður. Það hafi einnig leitt af sér mikið útlendingahatur. Einstaklingar sem njóti alþjóðlegrar verndar eigi lögum samkvæmt sama rétt og almennir borgarar á félagslegri aðstoð og þjónustu. Aftur á móti sé raunin ekki sú í framkvæmd þar sem flóttafólk hafi ekki tækifæri til þess að nýta sér þjónustuna og viti jafnvel ekki af því að hún standi þeim til boða. Jafnframt hafi einstaklingar ekki alltaf fullnægjandi aðgang að túlkaþjónustu. Sjúkratryggingar séu dýrar og meirihluti flóttafólks hafi ekki efni á slíkum tryggingum og sé því gjarna ótryggt. Heimilislæknar séu tregir til að taka að sér flóttafólk sem sjúklinga og lítil sem engin sálfræðiaðstoð standi hælisleitendum og flóttafólki til boða. Vísar kærandi í alþjóðlegar skýrslur máli sínu til stuðnings.

Mikið atvinnuleysi sé í Búlgaríu og fátækt. Einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd þurfi að flytjast úr flóttamannabúðum eða öðrum vistarverum þegar leyfi sé veitt. Aftur á móti valdi flóknar reglur því að félagslegur stuðningur eða fjárhagsaðstoð séu þeim sjaldan aðgengileg, og því sé mjög erfitt að fjármagna leigu á húsnæði. Einnig sé algengt að flóttafólki sé mismunað af hálfu leigusala og það jafnvel svikið vegna tungumálaörðugleika og vanþekkingar á réttarstöðu sinni.

Telur kærandi að með því að senda hann til baka væri brotið gegn 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Kærandi tekur fram að jafnvel þó að ekki verði fallist á að endursending brjóti í bága við framangreind ákvæði sé það óumdeilanlegt að vegna aðstæðna flóttamanna í Búlgaríu mæli sérstakar ástæður með því að umsókn kæranda verði tekin til efnismeðferðar hér á landi. Stjórnvöldum sé í ljósi þess beinlínis skylt að taka málið til efnismeðferðar.

Til vara er gerð sú krafa að kæranda verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga. Bendir kærandi á að þar sem þær aðstæður sem hann hafi þurft að búa við og sem hann megi eiga von á séu svo slæmar sem raun beri vitni telji hann a.m.k. rétt að veita honum dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Afmörkun úrlausnarefnis

Kærunefnd telur að kærandi sé fyrst og fremst að sækja um hæli frá heimaríki sínu […]. Málsástæður hans gefa þó einnig til kynna að hann sé að sækja um hæli frá Búlgaríu, því ríki sem þegar hefur veitt honum vernd. Tekur neðangreind umfjöllun mið af því.

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga, með síðari breytingum, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga, með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951 ásamt viðauka við samninginn frá 1967 og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að við komuna til landsins hafi kærandi lagt fram ljósrit af […] vegabréfi sínu, en frumrit vegabréfsins sé í höndum norskra stjórnvalda. Við meðferð málsins hafi einnig fengist staðfesting búlgarskra yfirvalda á auðkenni hans. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi hafi sannað hver hann sé með fullnægjandi hætti.

Mat á því hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu

Við meðferð máls er litið til þess hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem geti haft áhrif á niðurstöðu máls hans. Með því getur verið átt við hvort kærandi hafi mátt þola pyndingar, hvort kærandi sé barn eða hvort umsókn hans varði börn hans, hvort kynhneigð eða kynferði kæranda geti haft áhrif eða hvort kærandi geti verið ríkisfangslaus. Mat á stöðu kæranda fer ávallt fram og eru þau atriði sem koma til skoðunar ekki tæmandi.

Kærunefndin telur að ekkert í máli kæranda gefi til kynna að staða hans sé slík að hann skuli teljast einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu við endursendingu.

Umsókn um hæli frá heimaríki. Ákvæði 45. og 46. gr. a útlendingalaga

Í 1. mgr. 46. gr. útlendingalaga kemur fram að flóttamaður skv. 44. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, á samkvæmt umsókn rétt á að fá hér hæli frá heimalandi sínu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Stjórnvöld geta þó, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 46. gr. a, og með fyrirvara um ákvæði 45. gr., synjað því að taka til efnismeðferðar umsókn á grundvelli 46. gr. laganna ef umsækjanda hefur verið veitt hæli í öðru ríki.

Með sama fyrirvara geta stjórnvöld einnig synjað um efnismeðferð á grundvelli b-liðar 1. mgr. 46. gr. a, ef umsækjandi hefur komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið vernd í öðru ríki eða eftir að hafa dvalist í ríki eða á svæði þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum og hafði ekki ástæðu til að óttast að verða sendur aftur til heimalands síns.

Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga má ekki senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem gætu leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.

Við mat á því hvort að 45. gr. laga um útlendinga eigi við verður m.a. að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þann 2. apríl 2013 lýsti Mannréttindadómstóll Evrópu kæru í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (mál nr. 27725/10) ótæka á þeim grundvelli að sú meðferð sem kærandi hlaut, bæði sem hælisleitandi og einstaklingur sem hlotið hefur vernd, gæti ekki talist brot gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Taldi dómstóllinn að ekki sé hægt að gera þá kröfu til aðildarríkja að veita öllum flóttamönnum húsaskjól eða fjárhagslega aðstoð til þess að viðhalda ákveðnum lífsskilyrðum.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Búlgaríu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

· 2015 Country Reports on Human Rights Practices – Bulgaria (United States Department of State, 13. apríl 2016),

· Asylum Information Database Country Report: Bulgaria (European Council on Refugees and Exiles, október 2015),

· ECRI Report on Bulgaria (Fifth monitoring cycle) (European Commission Against Racism and Intolerance, 16. september 2014),

· Monitoring report on the integration of beneficiaries of international protection in the republic of Bulgaria in 2014 (Bulgarian Council on Refugees and Migrants, desember 2014),

· State of the World's Minorities and Indigenous Peoples 2014 - Case study: Rising hostility against Bulgaria's refugee population (Minority Rights Group International, 3. júlí 2014),

· State of the World's Minorities and Indigenous Peoples 2015 – Bulgaria (Minority Rights Group International, 2. júlí 2015),

· Refugee Situation Bulgaria: External Update (UNHCR, 21. febrúar 2014) og

· UNHCR observations on the current asylum system in Bulgaria (UNHCR, apríl 2014).

Af framangreindum gögnum má sjá að búlgörsk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar hælisleitenda og flóttamanna þar í landi. Samkvæmt ofangreindum skýrslum hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna meðal annars gagnrýnt aðbúnað og málsmeðferð búlgarska hæliskerfisins. Þá hefur stofnunin lýst yfir áhyggjum vegna sjálfbærni búlgarska hæliskerfisins til langs tíma. Jafnframt hefur stofnunin lýst yfir áhyggjum vegna aðgerða búlgarskra stjórnvalda til að koma stjórn á óreglulega för fólks yfir landamærin sem geti haft þau áhrif að einstaklingar í þörf á vernd komist ekki inn fyrir landamærin. Verður af framangreindu ráðið að búlgörsk stjórnvöld hafa átt við margvíslegan vanda að etja. Árið 2014 lagðist Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna tímabundið gegn endursendingum hælisleitenda til Búlgaríu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Vegna úrbóta sem búlgörsk stjórnvöld réðust í á hæliskerfinu leggst stofnunin ekki lengur gegn endursendingum hælisleitenda þangað. Þá hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna ekki lagst gegn flutningi einstaklinga með alþjóðlega vernd til Búlgaríu.

Að virtum gögnum málsins er það mat kærunefndar að ágallar á aðbúnaði og móttökuskilyrðum hælisleitenda og þeirra sem hafa þegar hlotið alþjóðlega vernd í Búlgaríu verði ekki taldir svo alvarlegir að þeir gefi ástæðu til að ætla að kærandi muni standa frammi fyrir raunverulegri hættu á að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í Búlgaríu verði hann sendur þangað. Þá benda gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Búlgaríu, bæði fyrir landsrétti og Mannréttindadómstól Evrópu. Með því er tryggt að kærandi verði ekki sendur áfram til svæðis sem 45. gr. laga um útlendinga tekur til. Endursending kæranda til Búlgaríu felur því ekki í sér brot á 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða 13. gr. hans.

Þegar metið er hvort synja skuli umsóknum um hæli um efnismeðferð á grundvelli b-liðar 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga skulu stjórnvöld kanna hvort skilyrði séu til þess að beita undanþáguheimildinni í 2. mgr. 46. gr. a sömu laga. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 11. febrúar 2016 kom ekkert fram sem gaf til kynna að kærandi hefði nein sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Þá benda gögn ekki til þess að aðstæður hans séu að öðru leyti svo sérstakar að ákvæði 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga eigi við. Verður því ekki talið að ástæða sé til að taka mál kæranda til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland eða annarra sérstakra ástæðna.

Samkvæmt gögnum málsins hlaut kærandi viðbótarvernd í Búlgaríu þann 31. janúar 2014. Í svari frá búlgörskum yfirvöldum til Útlendingastofnunar frá því í febrúar sl. kemur m.a. fram að sú vernd sé í gildi, auk þess sem að ferðaskilríki kæranda gildi til 28. febrúar 2017. Telur kærunefnd því ljóst vera að kærandi njóti enn verndar í landinu.

Kærandi er með viðbótarvernd í Búlgaríu. Kæranda hefur því verið veitt vernd í öðru ríki en heimaríki sínu. Með hliðsjón af 45. gr. laga um útlendinga og í ljósi ofangreindra upplýsinga telur kærunefndin að Útlendingastofnun hafi verið heimilt að synja efnismeðferð á umsókn kæranda um hæli frá heimaríki sínu, […], með vísan til b-liðar 1. mgr. 46. gr. a útlendingalaga.

Umsókn um hæli frá dvalarríki. Ákvæði 44. gr. útlendingalaga

Í ljósi þess að kærandi ber fyrir sig aðstæður í Búlgaríu telur kærunefndin rétt að fjalla einnig um umsókn kæranda eins og hann væri að sækja um hæli þaðan.

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga. Kærandi byggir kröfu sína á að hann þurfi vernd hér á landi á grundvelli þess að þær aðstæður sem bíði hans í Búlgaríu séu ómannúðlegar og vanvirðandi.

Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.

Í lögskýringargögnum með þessari skilgreiningu kemur fram að heimaland sé það land þar sem viðkomandi eigi ríkisfang. Í máli kæranda er ljóst að hann hefur hlotið viðbótarvernd í Búlgaríu. Kærandi, sem er ríkisborgari […], getur ekki átt rétt á hæli sem flóttamaður hér á landi vegna aðstæðna sinna í Búlgaríu, því ríki sem veitt hefur honum vernd. Verður honum synjað um stöðu flóttamanns hér á landi á þeim grundvelli. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar þá telur kærunefndin heldur ekki að endursending kæranda til Búlgaríu brjóti gegn 45. gr. útlendingalaga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Ákvæði 12. gr. f útlendingalaga.

Samkvæmt 8. mgr. 46. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald taka til skoðunar hvort aðstæður kæranda falli undir ákvæði 12. gr. f ef hann er ekki talinn flóttamaður.

Samkvæmt 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Kærunefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga á grundvelli aðstæðna í Búlgaríu. Þegar framburður kæranda er virtur í heild sinni ásamt gögnum málsins er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi heldur ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða eins og kveðið er á um í 12. gr. f laga um útlendinga. Er því fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í Búlgaríu séu ekki með þeim hætti að rík mannúðarsjónarmið standi til þess að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga.

Þá tekur kærunefndin jafnframt undir niðurstöðu Útlendingastofnunar um að kærandi uppfylli ekki skilyrði 12. gr. f laga um útlendinga um sérstök tengsl við landið. Eins og fram kemur í gögnum málsins hefur kærandi aðeins dvalið á landinu í tengslum við umsókn sína um hæli og aðeins í skamman tíma.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Pétur Dam Leifsson Anna Tryggvadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum