Hoppa yfir valmynd
3. júlí 2021 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Bann við algengum einnota plastvörum tekur gildi

Bann við að setja tilteknar, algengar einnota vörur úr plasti á markað tekur gildi í dag. Meðal vara sem bannað er að setja á markað eru einnota bómullarpinnar úr plasti, plasthnífapör og -diskar, sogrör, hræripinnar og blöðrustangir. Matarílát, drykkjarílát, glös og bollar úr frauðplasti eru einnig óheimil. Undantekningar eru gerðar ef vörur flokkast sem lækningatæki.

Bannið  byggir á breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem Alþingi samþykkti árið 2020 og miðar að því að draga úr notkun óþarfa plasts í samfélaginu. 

Þá er ekki heimilt að afhenda án endurgjalds einnota bolla, glös og matarílát úr plasti t.d. þegar matur og drykkur er seldur til brottnáms (e. take-away) og skal gjaldið vera sýnilegt á kassakvittun.

Fáanlegar eru á markaði staðgönguvörur sem eru margnota eða innihalda ekki plast og nota má í stað þeirra vara sem breytingarnar taka til. Þá hafa verslanir staðið sig vel í að hætta að bjóða upp á einnota plastpoka á afgreiðslusvæðum (kassasvæði) í samræmi við plastpokabannið. Mikilvægt er að dregið verði enn frekar úr notkun á einnota burðarpokum úr öðrum efnum, svo sem pappír, og ráðuneytið mun í haust halda áfram vinnu með versluninni og Umhverfisstofnun við að innleiða margnota lausnir.

Síðastliðið haust gáfu Stjórnvöld út aðgerðaáætlun í plastmálum, Úr viðjum plastsins, þar sem settar eru fram 18 aðgerðir til þess að draga úr plastnotkun, auka endurvinnslu þess og sporna gegn plastmengun í hafinu. Þær breytingar sem nú taka gildi eru hluti af þessari áætlun.

Með frumvarpinu er innleidd að stærstum hluta ný Evróputilskipun sem er fyrst og fremst beint að ýmsum algengum plastvörum sem finnast helst á ströndum. Tilskipuninni er einnig ætlað að styðja við myndun hringrásarhagkerfis og draga úr myndun úrgangs. Gert er ráð fyrir að lögin taki að stærstum hluta gildi í dag, 3. júlí 2021.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum