Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 16/2018

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 16/2018

Miðvikudaginn 11. apríl 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. janúar 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. nóvember 2017 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri var synjað en henni metinn örorkustyrkur tímabundið.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 9. október 2017. Með örorkumati, dags. 15. nóvember 2017, var umsókn kæranda synjað en hún var talin uppfylla skilyrði örorkustyrks frá 1. september 2017 til 31. ágúst 2020. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála tók Tryggingastofnun ríkisins nýja ákvörðun í málinu, dags. 27. febrúar 2018, þar sem kæranda var metinn örorkulífeyrir frá 1. september 2017 til 31. ágúst 2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. janúar 2018. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 26. febrúar 2018. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. mars 2018, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda og óskað eftir afstöðu hennar til greinargerðarinnar. Með bréfi, dags. 16. mars 2018, ítrekaði úrskurðarnefndin beiðni um afstöðu kæranda til greinargerðar Tryggingastofnunar. Engar athugasemdir bárust.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að kærandi óski eftir að umsókn hennar um greiðslu örorkulífeyris verði samþykkt.

Í kæru er greint frá því að kærandi sé ósátt við niðurstöðu Tryggingastofnunar. Kærandi sé í endurhæfingu á göngudeild geðdeildar vegna andlegra meina og telji hún sig því alls ekki tilbúna til vinnu strax.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kært sé örorkumat stofnunarinnar, dags. 15. nóvember 2017. Þá kemur fram að ákveðið hafi verið að taka til greina kröfur kæranda og breyta kærðu örorkumati í 75% örorku frá 1. september 2017. Þar sem krafa um 75% örorkumat hafi verið tekin til greina sé farið fram á að mál þetta verði fellt niður hjá úrskurðarnefndinni.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. nóvember 2017 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað en henni metinn örorkustyrkur.

Í kjölfar kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála tók Tryggingastofnun ríkisins nýja ákvörðun í máli kæranda, dags. 27. febrúar 2018, og féllst stofnunin á umsókn hennar um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Gildistími örorkumats var ákveðinn frá 1. september 2017 til 31. ágúst 2020. Úrskurðarnefndin óskaði ítrekað eftir afstöðu kæranda til ákvörðunar Tryggingastofnunar um að fallast á umsókn kæranda um örorkulífeyri en engin svör bárust frá henni.

Úrskurðarnefnd velferðarmála kveður upp úrskurði um tiltekin ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 13. gr. laganna. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að ágreiningur sé til staðar á milli kæranda og Tryggingastofnunar ríkisins. Stofnunin hefur samþykkt umsókn kæranda um örorkulífeyri. Þar sem enginn ágreiningur er til staðar í máli þessu er kæru vísað frá úrskurðarnefndinni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum