Hoppa yfir valmynd
1. júní 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Áhrif gjósku á heilsufar rannsökuð

Meta á hugsanleg bráð heilsufarsleg áhrif gjósku á þá sem undanfarnar vikur hafa orðið fyrir hvað mestu öskufalli í námunda við eldstöðina í Eyjafjallajökli. Þetta verður gert með rannsókn á vegum sóttvarnalæknis á heilsufarslegum afleiðingum ösku og annarra efna frá eldgosinu, en rannsóknin hófst í gær.

Rannsóknin er unnin í samvinnu við sóttvarnalækna og heilbrigðisstarfsmenn á Suðurlandi, lækna og hjúkrunarfræðinga lungnadeildar Landspítala og fleiri aðila.

Markmiðið er að meta hugsanleg bráð heilsufarsleg áhrif gjóskunnar, gildi sóttvarnaráðstafana sem beitt hefur verið og hvort grípa þurfi til frekari ráðstafana. Einnig er áætlað að meta langtíma áhrif öskufalls á heilsufar.

„Við viljum vita hvort þær aðgerðir sem við höfum beitt skila árangri,” segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir, en hann á von á að rannsóknin standi yfir í nokkrar vikur. M.a. eigi að skoða hvort ráðleggingar til fólks um að halda sig inni við og hvatning um að nota öndunargrímur hafi komið að gagni.  


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum