Hoppa yfir valmynd
9. mars 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 24/2008. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 28. febrúar 2009

í máli nr. 24/2008:

Fjölhönnun ehf.

gegn

Vegagerðinni

          

Hinn 19. desember 2008 kærði Fjölhönnun ehf. ákvörðun Vegagerðarinnar um að ganga til samninga við Línuhönnun hf. í útboðinu „Reykjanesbraut (41-14) Kaldárselsvegur - Krýsuvíkurvegur“. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

„Þess er krafist að kærunefnd útboðsmála úrskurði að stöðva skuli samningsgerð kærða við Línuhönnun hf. þar til endanlega hefur verið leyst úr kæru þessari. Þá er þess krafist að kærunefnd útboðsmála ógildi ákvörðun kærða um að ganga til samninga við Línuhönnun hf.

 

Verði ekki fallist á ofangreindar kröfur er þess krafist að kærunefndin tjái sig um bótaskyldu kærða og grundvöll skaðabóta.

 

Í öllum tilvikum er þess krafist að kærða verði gert að greiða kostnað kæranda við að hafa kæruna uppi að skaðlausu samkvæmt mati nefndarinnar eða framlögðu málskostnaðaryfirliti.“

 

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir vali á tilboði. Með bréfum, dags. 8. og 19. janúar 2009, krafðist kærði þess að kærunni yrði vísað frá en annars að hafnað yrði öllum kröfum kæranda. Kærandi tilkynnti hinn 30. janúar 2009 að hann hygðist ekki tjá sig um athugasemdir kærða. Með bréfi, dags. 28. janúar 2009, bárust athugasemdir Eflu hf. en það félag hefur tekið við réttindum og skyldum af Línuhönnun hf.

 

Með ákvörðun, dags. 12. janúar 2009, hafnaði kærunefnd útboðsmála að stöðva samningsgerð í kjölfar útboðsins „Reykjanesbraut (41-14) Kaldárselsvegur - Krýsuvíkurvegur“.

 

                                                        I.

Í júlí 2008 auglýsti kærði eftir tilboðum í forhönnun og verkhönnun á breikkun Reykjanesbrautar (41-14) úr tveimur akreinum í fjórar frá Kaldárselsvegi vestur fyrir mislæg gatnamót Krýsuvíkurvegar að Bikhellu. Í verkinu felst einnig for- og verkhönnun rampa og vegtenginga við mislæg gatnamót við annars vegar Strandveg (áður Ásbraut) og hins vegar Krýsuvíkurveg sem og hringtorga við Krýsuvíkurveg, for- og verkhönnun hljóðvarna við Reykjanesbraut, hraðatakmarkandi aðgerða í Byggðabraut / Suðurbraut ásamt göngu og hjólreiðastíg.

Í útboðslýsingu sagði að „vegin einkunn fyrir hæfnismat og tilboðsupphæð [myndi] ráða því hvaða ráðgjafa [yrði] boðið til samningaviðræðna um verkið“. Þá sagði einnig að „í hæfnisvali [yrði] matsatriðum gefið eftirfarandi vægi:

            Verktilhögun 10%

            Starfslið 40%

            Tímaáætlun 10%

            Gæðakerfi 10%

            Tilboðsupphæð 30%“.

Í kafla útboðsins með heitinu „Meðferð og mat á tilboðum“ sagði m.a. að „í hæfnisvali [yrði] farið eftir þeim gögnum sem ráðgjafi [sendi] inn“. Í kaflanum var að finna eftirfarandi upptalningu á þeim upplýsingum sem skila átti um tíma og verkáætlun:

„-  Tímaáætlun ráðgjafa, sundurliðuð á verkhluta og starfsfólk í tímaröð

-  Verkáætlun, þar sem einnig kemur fram hverjir vinna verkþættina

- Greinargerð fyrir verkþætti og verkhluta, þ.e. stutt greinargerð með hverjum verkþætti, þar sem fram kemur hvernig ráðgjafi hyggst standa að verki.“

 

Kærandi var meðal bjóðenda í útboðinu og með bréfi, dags. 26. september 2008, tilkynnti kærði að ákveðið hefði verið að ganga til samninga við kæranda. Línuhönnun hf. kærði þá ákvörðun til kærunefndar útboðsmála og með úrskurði í máli nr. 16/2008, dags. 9. desember 2008, ógilti kærunefndin ákvörðun kærða um að ganga til samninga við kæranda í kjölfar útboðsins „Reykjanesbraut (41-14) Kaldárselsvegur – Krýsuvíkurvegur“. Í kjölfarið tilkynnti kærði, með bréfi dags. 17. desember 2008, að niðurstaða útboðsins hefði verið leiðrétt og að hafnar yrðu samningaviðræður við Línuhönnun hf. 

  

II.

Kærandi telur að kærði hafi ranglega metið tilboð hans með því að gefa því einungis 6 stig af 10 mögulegum fyrir þáttinn „tímaáætlun“. Kærandi segir að í hæfnis­­skrá kæranda hafi tímaáætlun kæranda verið útlistuð með fullnægjandi hætti miðað við áskilnað útboðsgagna. Kærandi telur nægjanlegt, m.a. með vísan til úrskurðar kærunefndar útboðsmála í máli nr. 16/2008, að upplýsingarnar hafi komið fram í hæfnisskránni og því vísað til hennar í tilboðinu.

 

III.

Kærði segir að í úrskurði kærunefndar útboðsmála nr. 16/2008 hafi nefndin úrskurðað að ákvörðun kærða um að semja við kæranda væri ólögmæt. Kærði segir að í því máli hafi nefndin litið til og rannsakað öll atriði sem þýðingu hefðu við efnisúrlausn málsins. Kærði telur að með því hafi farið fram heildarskoðun á valforsendum útboðsins.

            Kærði telur að vísa beri kærunni frá þar sem nefndin hafi þegar leyst úr því álitaefni sem kröfugerð kæranda snúi að. Kærði segir ekki unnt að verða við kröfu kæranda enda muni þá nefndin ganga þvert gegn fyrri niðurstöðu sinni í máli nr. 16/2008. Þá eigi 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ekki við og því sé ekki hægt að endurupptaka mál nr. 16/2008. Þá telur kærði að kærufrestur vegna útboðsins sé löngu liðinn enda hafi kæranda verið kunnugt um mat á liðnum tíma- og verkáætlun þegar upphaflega var tilkynnt um niðurstöðu útboðsins, með bréfi dags. 26. september 2008.

            Kærði telur að kærandi hafi ekki gert grein fyrir því hvernig hann hygðist standa að einstökum verkþáttum og verkhlutum með framlagningu sjálfstæðrar greinargerðar eins og krafist var í útboðslýsingu. Kærði telur ekki leiða af úrskurði kærunefndar útboðsmála nr. 16/2008  að endurskoða hafi átt stigagjöf kæranda vegna tíma- og verkáætlunar.

            Kærði bendir á að samningsgerð hafi nú þegar verið stöðvuð einu sinni í útboðinu og margra vikna töf sé orðin á framkvæmd útboðsins. Segir kærandi mjög viðurhlutamikið fyrir alla aðila að stöðva útboðið að nýju.

 

IV.

Það er almennt skilyrði fyrir ógildingu ákvörðunar að hún sé ólögmæt. Þá er það einnig skilyrði skaðabótaábyrgðar samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar og 1. mgr. 101. gr. laga nr. 84/2007 að til staðar sé ólögmæt háttsemi. Til að fallast megi á annaðhvort aðal- eða varakröfu kæranda er þannig skilyrði að ákvörðun Vegagerðarinnar um að ganga til samninga við Línuhönnun hf. í útboðinu „Reykjanesbraut (41-14) Kaldárselsvegur - Krýsuvíkurvegur“ hafi verið ólögmæt. 

Kærandi byggir á því að kærði hafi ranglega metið tilboð kæranda lægra að því er varðar matsforsenduna „tímaáætlun“. Eins og áður segir gerðu útboðsgögn ráð fyrir því að eftirfarandi upplýsingum yrði skilað um tíma- og verkáætlun:

„-  Tímaáætlun ráðgjafa, sundurliðuð á verkhluta og starfsfólk í tímaröð

-  Verkáætlun, þar sem einnig kemur fram hverjir vinna verkþættina

- Greinargerð fyrir verkþætti og verkhluta, þ.e. stutt greinargerð með hverjum verkþætti, þar sem fram kemur hvernig ráðgjafi hyggst standa að verki.“

Kærunefnd útboðsmála hefur kynnt sér tilboð kæranda og af því verður ekki séð að kærandi hafi skilað framangreindum upplýsingum með fullnægjandi hætti. Þannig er tímaröð verkhluta óljós en fyrst og fremst skortir á að kærandi hafi gert grein fyrir því, með greinargerð, hvernig staðið yrði að einstökum verkþáttum og verkhlutum. Þessara upplýsinga var skýrlega krafist í útboðslýsingu og telur nefndin að kæranda hafi mátt vera ljóst hvaða kröfur voru gerðar til hans um afhendingu gagna og upplýsinga að þessu leyti. Kærunefnd útboðsmála telur þannig að mat kærða á liðnum „tímaáætlun“ hafi ekki falið í sér brot á lögum nr. 84/2007, um opinber innkaup. Af þeirri ástæðu eru þannig hvorki fyrir hendi skilyrði til að ógilda ákvörðun kærða né skilyrði til þess að kærði sé skaðabótaskyldur gagnvart kæranda.

Kærandi hefur krafist þess að kærða verði gert að greiða honum kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. fyrri málslið 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007. Með hliðsjón af úrslitum málsins að öðru leyti verður að hafna kröfunni.

  

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda, Fjölhönnunar ehf., um að kærunefnd útboðsmála ógildi ákvörðun kærða, Vegagerðarinnar, um að ganga til samninga við Línuhönnun hf. í kjölfar útboðsins „Reykjanesbraut (41-14) Kaldárselsvegur - Krýsuvíkurvegur“, er hafnað.

 

Það er álit kærunefndar útboðsmála að kærði, Vegagerðin, sé ekki skaðabótaskyldur gagnvart kæranda, Fjölhönnun ehf.

Kröfu kæranda, Fjölhönnunar ehf., um að kærði Vegagerðin, greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi, er hafnað.

                                                     

 

 

                                                                            Reykjavík, 28. febrúar 2009

                                                                            Páll Sigurðsson

                                                                            Sigfús Jónsson

                                                                            Stanley Pálsson

                                                              

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík,          . febrúar 2009.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum