Hoppa yfir valmynd
25. október 2017 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Samið um Vínlandssetur í Dalabyggð

Jón, Þórdís Kolbrún og Rakel ánægð við undirritun - mynd

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið undirrituðu í dag viðaukasamning við samning um sóknaráætlun Vesturlands við Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi.

Markmiðið með viðaukasamningi þessum er að styrkja sóknaráætlun Vesturlands með því að efla með sérstöku framlagi ferðaþjónustu í Dalabyggð og treysta þannig byggð í sveitarfélaginu sem hefur átt undir högg að sækja vegna fækkunar íbúa og samdráttar í atvinnulífi. Verkefnið sem um ræðir lýtur að uppbyggingu Vínlandsseturs í Leifsbúð í Búðardal. Megin hlutverk setursins er að verða sterkur segull fyrir ferðamenn og efla ferðaþjónustu í sveitarfélaginu. Um er að ræða samstarfsverkefni Dalabyggðar og Eiríksstaðanefndar auk aðstandenda Landnámsseturs í Borgarnesi. Gert er ráð fyrir að setrið verði byggt upp sem samfélagsverkefni í eigu sveitarfélagsins eða sjálfseignarstofnunar en rekstur verði í höndum einkaaðila.

Fjárveitingin byggir á stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2014-2017, einkum með vísan í sértækar aðgerðir á varnarsvæðum, sem og áherslum löggjafans um að sérstaklega skuli hlúa að svæðum sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Dalir eru fyrst og fremst landbúnaðarhérað og eru breytingar í landbúnaði helsta orsök fólksfækkunar. Ekki hefur verið nægt framboð af atvinnutækifærum á svæðinu til að taka við þeim sem bregða búi eða flytja úr sveitunum af öðrum orsökum. Atvinnutækifærum í Búðardal hefur frekar fækkað með samdrætti í þjónustu, opinberri sem almennri. Sameining sýslumannsembætta, lögregluumdæma og breytingar í bankakerfinu hafa fækkað störfum. Með fækkun starfa fækkar íbúum.

Í samningnum um sóknaráætlanir 2015-2019 fyrir Vesturland, skuldbinda samningsaðilar sig til að vinna að því að auka ráðstöfunarfé til samninga á samningstímanum. Heildarframlag ráðuneytanna til verkefnisins er 40 milljónir króna.

Jón Gunnarsson ráðherra undirritaði samninginn fyrir hönd samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra undirritaði samninginn fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Rakel Óskarsdóttir stjórnarformaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og bæjarfulltrúi á Akranesi, undirritaði samninginn fyrir hönd Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi. 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum