Hoppa yfir valmynd
20. október 2006 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Rætt um árangur af einkavæðingu skipaskoðunar

Á málþingi sem samgönguráðuneytið efndi til um árangur af einkavæðingu skipaskoðunar lýstu talsmenn skoðunarstofa, útvegsmanna og sjómanna viðhorfum sínum um hvernig til hefði tekist með framkvæmd hennar. Töldu þeir að þrátt fyrir að margt hefði áunnist væri enn margt sem þarfnaðist lagfæringar.

Skipaskodun
Um 40 manns sátu málþing samgönguráðuneytis um árangur af einkavæðingu skipaskoðunar.

Tilgangur málþingsins var að fá fram athugasemdir hagsmunaaðila í tengslum við endurskoðun á framkvæmd skipaskoðunar sem breytt var 1. mars 2004 þegar hún var falin einkareknum skoðunarstofum. Fundarstjóri var Unnur Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu, og í lok fundar sagði hún að starfshópur um mat á einkavæðingu skipaskoðunar hefði fengið fjölmargar ábendingar til umfjöllunar í vinnu sinni framundan.

Ávörp á málþinginu fluttu talsmenn hinna þriggja einkareknu skoðunarstofa sem nú starfa, Stefán Stephensen, tæknistjóri skipaskoðunar Frumherja, Stefán Guðsteinsson, skipatæknifræðingur hjá Skipaskoðun ehf. og Hálfdán Henrysson, framkvæmdastjóri Skipaskoðunar Íslands. Einnig lýsti Páll Kristinsson, skoðunarmaður hjá Lloyds Register EMEA, skoðun sinni. Þá töluðu Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri Guðmundar Runólfssonar hf., Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssamband smábátaeigenda, og Árni Bjarnason, forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, og lýstu sjónarmiðum sínum. Í síðasta hluta málþingsins ræddu afstöðu stjórnvalda þeir Guðmundur Ólafsson, forstöðumaður tæknideildar Póst- og fjarskiptastofnunar, og Helgi Jóhannesson, forstöðumaður stjórnsýslusviðs Siglingastofnunar Íslands.

Meðal þess sem frummælendur gagnrýndu í erindum sínum var að ekki hefðu náðst markmið um einföldun við skipaskoðun, kostnaður hefði aukist og enn sinnti Siglingastofnun skoðun á ákveðnum skipum sem skoðunarstofurnar gætu sinnt enda væri afkastageta þeirra ekki að fullu nýtt. Þá kom fram það álit að skoðunarstofur fái að gefa út haffærisskírteini eða framlengja þau og töldu fundarmenn einnig æskilegt að draga sem mest úr umfangi opinbers eftirlits.

Fulltrúar Siglingstofnunar og Póst- og fjarskiptastofnunar svöruðu gagnrýni að nokkru og sögðu athugasemdir verða teknar til athugunar. Þannig yrði kannað hvort unnt verði að færa skoðunarstofum fleiri verkefni. Sem dæmi má nefna að engin skoðunarstofa hefur sóst eftir að bjóða uppá skoðun á fjarskiptabúnaði í skipum með GMDSS búnaði. Bent var á að kostnaður við skoðanir væri nú kominn upp á yfirborðið en áður hefði hann að nokkru leyti verið niðurgreiddur.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira