Hoppa yfir valmynd
23. október 2006 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Fjárfestingar og framtíðarhorfur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Samgönguráðherra heimsótti í gær Flugstöð Leifs Eiríkssonar og kynnti sér helstu breytingar sem þar standa fyrir dyrum.
FLE heimsokn
Sturla Böðvarsson ásamt Gísla Guðmundssyni

Gert er ráð fyrir að fjárfestingar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar (FLE) vegna uppbyggingar sem nú stendur yfir verði nærri 3,7 milljarðar á þessu ári. Alls munu þær nema tæpum 8 milljörðum þegar lokið verður stækkun og breytingum á næsta ári. Eftir þær á flugstöðin að geta annað allt að 3,2 milljónum farþega á ári sem búist er við að verði árið 2015 en í ár er búist við að þeir verði kringum tvær milljónir.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og fylgdarlið hans úr samgönguráðuneytinu heimsóttu FLE í gær. Forráðamenn fyrirtækisins, Höskuldur Ásgeirsson, forstjóri FLE, og Gísli Guðmundsson stjórnarformaður, greindu frá uppbyggingu sem staðið hefur síðustu árin, spá um farþegafjölda sem fer um stöðina allt til ársins 2025 og fjárhagsstöðu. Samgönguráðherra sagði við þetta tækifæri greinilegt að stjórnendur FLE héldu vel á spöðunum varðandi rekstur og uppbyggingu og taldi hlutafélagaformið hafa sannað gildi sitt á því sviði.

Fram kom í máli Höskuldar Ásgeirssonar að í ár er búist við að kringum tvær milljónir farþega fari um stöðina, að árið 2010 verði þeir 2,4 milljónir og 3,2 milljónir árið 2015 en við það er stækkunin sem nú stendur miðuð. Spá fyrir árið 2025 gerir ráð fyrir um 4,5 milljónum farþega. Höskuldur segir spána unna af breska flugvallarfyrirtækinu BAA, sem rekur tugi flugvalla í Evrópu, og sé þar gert ráð fyrir 6-7% fjölgun farþega á ári að meðaltali.

Alls nema fjárfestingar vegna stækkunar FLE kringum 8 milljörðum króna. Um 35% fjármagnsins eru fengnar úr rekstri flugstöðvarinnar en um 65% er lánsfé. Höskuldur segir rekstrartekjur í fyrra hafa numið um 6,2 milljörðum króna og í ár er áætlað að þær verði rúmlega 6,5 milljarðar.

Helstu breytingar á flugstöðinni er að innritunarborðum er fjölgað úr 29 í 44 brottfarar- og komusalir stækkaðir, verslunar- og veitingasvæði stækkað og nýtt kerfi vegna farangursleitar og meðferðar farangurs verður tekið í notkun. Miðað er við að unnt sé að innrita kringum 2.500 farþega á klukkustund og afgreiða um þrjú þúsund töskur gegnum leitarkerfið.

Gísli Guðmundsson og Höskuldur Ásgeirsson telja FLE vel í stakk búið til að mæta kröfum og eftirspurn næstu ára varðandi alla þjónustu og þeir segja áhugaverða tíma framundan þegar vænta megi breytinga á yfirstjórn flugvallasvæðisins í kjölfar brottfarar varnarliðsins. Telja þeir ástæðu til að yfirvöld íhugi hugsanlega sameiningu rekstrar flugvallarins og flugstöðvarinnar í eitt félag, það myndi hafa ýmis hagræðingar- og samlegðaráhrif í för með sér.

Sturla Böðvarsson lýsti ánægju sinni með hversu vel hefði tekist til með þjónustu við flugfarþega. Góður rekstur flugstöðvarinnar væri lykilatriði fyrir ferðaþjónustu landsmanna þar sem stærstur hluti ferðamanna færi um stöðina. Þá upplýsti ráðherrann að ríkisstjórnin ynni að því í framhaldi af brottför varnarliðsins að breyta stjórnsýslu á varnarsvæðinu á þann hátt að hver þáttur þess félli undir viðeigandi ráðuneyti. Sagði hann það skoðun sína að allir flugvellir landsins ættu að falla undir einn og sama rekstraraðila og minnti á að um næstu áraamót mun opinbera hlutafélagið Flugstoðir taka við rekstri flugvalla og flugleiðsöguþjónustu sem Flugmálastjórn Íslands hefur með að gera. Starfsemi flugumsjónar Flugmálastjórnar Íslands sem staðsett er í Flugstjórnarmiðstöðinni á Reykjavíkurflugvelli nær til stjórnunar flugumferðar á Norður Atlandshafi og er stærsta einstaka verkefnið á vettvangi flugsins og flugvallaþjónustu.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira