Hoppa yfir valmynd
22. janúar 2018 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Sex drög að reglugerðum um flugmál til umsagnar

Drög að sex reglugerðum er varða flugrekstur og flugmál eru nú til umsagnar hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um drögin til og með 5. febrúar næstkomandi og skulu þær sendar á netfangið [email protected].

Reglugerðardrögin eru þessi:

Hér á eftir verður getið um helstu atriði reglugerðardraganna.

Reglugerð um aðgang að flugafgreiðslu á flugvöllum

Reglugerð nr. 1186/2008 um aðgang að flugafgreiðslu á flugvöllum innleiddi tilskipun ráðsins (EB) nr. 96/67/EB frá 15. október 1996 um aðgang að flugafgreiðslumarkaðinum á flugvöllum bandalagsins. Reglugerðinni hefur verið breytt nokkrum sinnum og hefur ráðuneytið ákveðið að rétt sé að leggja fram drög að nýrri reglugerð í stað þess að breyta núverandi reglugerð.

Meginmarkmið tilskipunarinnar var að veita flugafgreiðsluaðilum aðgang að flugafgreiðslumarkaðinum í því skyni að ýta undir samkeppni á þessum markaði, þó með nánar skilgreindum undantekningum. Einungis Keflavíkurflugvöllur fellur undir gildissvið reglugerðarinnar.

Meðal breytinga er að Samgöngustofa mun framvegis ekki þurfa að samþykkja flugafgreiðsluaðila og eru þeir því undir eftirliti rekstraraðila flugvalla og flugrekstraraðila. Eftir sem áður falla flugafgreiðsluaðilar þó undir heildareftirlit Samgöngustofu. Reglur sem lúta að öruggri starfrækslu flugafgreiðsluaðila er að finna í flugafgreiðslureglum sem flugvöllurinn sjálfur setur, sem og í viðeigandi löggjöf á borð við reglur um vottun og eftirlit með flugvöllum og um starfrækslu loftfara. Að auki er á ábyrgð flugrekenda að tryggja að flugafgreiðsluaðilar sem þeir eru í viðskiptum við uppfylli þær öryggiskröfur sem settar eru fram í rekstrarhandbókum flugrekenda um slíka starfsemi. Gera flugrekstraraðilar úttektir á flugafgreiðsluaðilum í því skyni að ganga úr skugga um rétta framkvæmd á öryggiskröfum.

Drög að breytingu á reglum um þjóðernis- og skrásetningarmerki íslenskra loftfara

Í reglum um þjóðernis og skrásetningarmerki íslenskra loftfara er kveðið á um hvernig þau skuli úr garði gerð, þ.á m. stærð þeirra og hvar þau skuli vera á loftari þannig að þau séu nægjanlega sýnileg. Engin heimild er fyrir undanþágum í gildandi reglum. Vandkvæði hafa skapast í þeim tilvikum þar sem um er að ræða  hervélar sem merktar eru á grundvelli þeirra reglna sem um loftförin giltu á þeim tíma sem þær voru í þjónustu hers. Þurfi slíkar vélar að vera merktar á grundvelli reglna nr. 176/1983 mun hið sögulega gildi vélanna minnka að mun.

Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað sér eru sambærilegar undanþágur veittar í nágrannaríkjum. Í Noregi eru heimilar almennar undanþágur frá reglunum og í Bretlandi er heimilt að víkja frá reglunum þegar um er að ræða fyrrverandi herfugvélar sem merktar eru samkvæmt þeim reglum sem um vélarnar giltu.

Þær breytingar sem gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi drögum fela í sér að Samgöngustofu væri heimilt í undantekningartilvikum að veita undanþágur frá reglunum vegna flugvéla eða annarra loftfara sem merkt eru á annan hátt en kveðið er á um í reglunum þar sem merkingar samkvæmt reglunum myndu eyðileggja það útlit og það sögulega gildi sem loftförin hafa.

Drög að breytingu á reglugerð um flokkun loftfara

Hér er lögð til til breyting á ákvæðum reglugerðarinnar sem felur í sér endurskoðun á skilgreiningum til samræmis við breytingar á vettvangi EASA. Einnig er bætt við nýjum flokki loftfara sem ekki teljast EASA loftför þar sem núgildandi flokkar hafa talist of takmarkandi að mati Samgöngustofu. Í 1. og 2. gr. er um að ræða uppfærslur í samræmi við gildandi Evrópureglur og hafa breytingarnar áhrif á verkefni  Samgöngustofu í tengslum við skráningu loftfara. Sú breyting sem lögð er til í 3. gr. er til komin þar sem fram að þessu hefur vantað flokk fyrir þau loftför sem ekki eru EASA loftför en hafa samt sem áður lofthæfivottorð útgefin á grundvelli ICAO reglna.

Drög að breytingum á reglugerðum um almannaflug flugvéla og almannaflug þyrlna

Gildissviði ofangreindra reglugerða er breytt á þann veg að skýrt sé að einungis loftför sem ekki þurfa að uppfylla kröfur reglugerða EASA falli undir þessar reglugerðir. Einnig er gerð sú megin breyting að kveðið er á um viðhaldsáætlanir fyrir almannaloftför og gert ráð fyrir að þær áætlanir séu í samræmi við  kröfur viðhaldsáætlana fyrir loftför sem falla undir kröfur reglugerðar (EB) nr. 216/2008. Gert er ráð fyrir að heimilt sé  að víkja frá skilyrðinu um samþykki flugmálayfirvalda á viðhaldsáætlunum fyrir  minni loftför.

Drög að breytingu á reglugerð um tæknikröfur og stjórnsýslureglur í tengslum við starfrækslu loftfara

Með þessari breytingu er lagt til að reglugerðin gildi einnig fyrir svokölluð Annex II loftför, þ.e. að hún taki til verkflugs í atvinnuskyni en sérstök reglugerð þess efnis var felld niður á síðasta ári.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira