Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2013 Heilbrigðisráðuneytið

Stórfelldar endurbætur á Sjúkrahúsi Suðurlands

Frá fundi ríkisstjórnarinnar á Selfossi
Frá fundi ríkisstjórnarinnar á Selfossi

Miklar endurbætur verða gerðar á Sjúkrahúsi Suðurlands á Selfossi sem munu gjörbreyta og bæta aðstöðu þar. Fyrsti áfangi hefst á þessu ári og verður framkvæmt fyrir um 350 milljónir króna en í heild er áætlaður kostnaður framkvæmda 1.360 milljónir króna. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra kynnti framkvæmdirnar á fundi ríkisstjórnar í dag sem haldinn var á Selfossi.

Sjúkrahúsið var byggt á áttunda áratug síðustu aldar og hafa aðstæður, húsnæðisþörf og kröfur til húsnæðisins breyst mikið síðan vegna breytinga á starfsemi og starfsháttum sjúkrahúsa. Á árunum 2004–2008 var byggt við húsnæðið og er viðbyggingin um þriðjungi stærri en upphaflega byggingin. Þar er meðal annars heilsugæslustöð sem áður var í gamla húsnæðinu og allstórt hjúkrunarheimili.

Framkvæmdir sem nú verður ráðist í fela í sér endurbyggingu á gamla hluta sjúkrahússins og er meginforsenda verkefnisins að auka notagildi og gæði húsnæðisins sem mest. Áætlað er að ljúka fyrsta áfanga verksins sem hefst á þessu ári á öðrum ársfjórðungi 2014. Í því felst að byggja þrjú ný stigahús, byggja nýtt þak yfir þriðju hæð hússins með aukinni lofthæð og ljúka öllum framkvæmdum utanhúss.

Helstu breytingar sem framkvæmdirnar fela í sér:

  • Bætt aðstaða fyrir móttöku sjúklinga úr sjúkrabílum, með bílskýli með gegnumakstri.
  • Bráðamóttaka og aðstaða fyrir aðfengna sérfræðinga til tímabundinna starfa.
  • Skrifstofur Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, sem verið hafa til bráðabirgða í tveimur sumarhúsum á lóð sjúkrahússins verða fluttar á rishæð núverandi húss, eftir að þak þess hefur verið hækkað og því breytt.
  • Innréttuð verður skurðstofa fyrir léttari / einfaldari aðgerðir og aðstaða fyrir speglanir.
  • Fæðingarstofa fær stað í endurgerðu húsnæði.
  • Endurbætur á legudeild sem nýtist allri framantalinni starfsemi.
  • Vegna nýrra krafna í byggingareglugerðum þarf að fjölga og bæta flóttaleiðir úr húsinu. Byggð verða ný stigahús við alla þrjá enda á álmum gamla hússins. Þar verður einnig aðstaða fyrir vélbúnað loftræstikerfa og nauðsynlegar geymslur.
  • Eldhús og matsalur verða færð á rishæð og núverandi rými í kjarna sjúkrahússins nýtt fyrir heilbrigðisstarsemi sjúkrahússins.

Aðalteikningar að breytingum á húsinu eru fullunnar og hafa verið samþykktar hjá byggingarfulltrúa á Selfossi.

Reiknað er með að verkið verði unnið í fjórum verkáföngum. Áætlað er að ljúka verkinu í lok ársins 2017.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum