Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2013 Heilbrigðisráðuneytið

Hringskonur færa Barnaspítala Hringsins stórgjöf

Frá afmælishátíð Barnaspítala Hringsins
Frá afmælishátíð Barnaspítala Hringsins

Kvenfélagið Hringurinn gaf Barnaspítala Hringsins 70 milljónir króna að gjöf í dag í tilefni 10 ára afmælis spítalans.  „Hringurinn á sér samastað í hjörtum landsmanna“ sagði Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra í ávarpi við þetta tækifæri og að elja og rausnarskapur Hringskvenna í garð spítalans yrðu aldrei fullþökkuð.

Núverandi Barnaspítali Hringsins var formlega tekinn í notkun á 99 ára afmæli kvenfélags Hringsins, 26. janúar 2003. Fyrir 70 árum stofnaði félagið sérstakan sjóð fyrir fjársafnanir og nemur gjöfin sem afhent var í dag því einni milljón króna fyrir hvert starfsár hans. Þessu til viðbótar námu gjafir Hringskvenna til barnaspítalans á liðnu ári 48 milljónum króna.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra fór nokkrum orðum um sögu kvenfélagsins Hringsins í ávarpi sem hann flutti á afmælishátíðinni í dag og hvernig starfsemi þessa merkilega félags hefur verið órjúfanlegur þáttur í uppbyggingu og eflingu heilbrigðisþjónustu frá upphafi:

„Ég veit ekki með hvaða orðum er unnt að þakka fyrir þá ótrúlegu elju sem kvenfélagið Hringurinn hefur sýnt í gegnum árin og ómetanlegar gjafir og stuðning í þágu samfélagsins. Störf ykkar verða aldrei fullþökkuð en þau eru svo sannarlega virt og mikils metin og það er með ólíkindum hverju hægt er að áorka með sterkum vilja, dugnaði og samtakamætti – eins og þið hafið sýnt.

Hringurinn á sér samastað í hjörtum landsmanna. Þúsundir fjölskyldna hafa notið góðs af starfi ykkar og þeirrar góðu aðstöðu sem hér hefur verið byggð upp með tilheyrandi tækjum og búnaði. Þetta skiptir allt svo miklu máli þegar veita skal börnum bestu heilbrigðisþjónustu og aðbúnað sem mögulegt er og hjálpa þeim til heilsu á ný. Fyrir þetta erum við öll afar þakklát.“

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum