Hoppa yfir valmynd
5. mars 2018 Matvælaráðuneytið

Ræða Kristjáns Þórs Júlíussonar á Búnaðarþingi, 5. mars 2018

Ágætu búnaðarþingsfulltrúar og ágætu gestir.

Það er ánægjulegt að koma til Búnaðarþings og fá tækifæri til að ræða stöðu og horfur í íslenskum landbúnaði. Ræða hvernig við mætum þeim áskorunum sem fyrir hendi eru og um leið hvernig við nýtum þau tækifæri sem blasa við í framtíðinni.

Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er skýr hvað þetta varðar. Ísland á að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum. Við ætlum að leggja áherslu á nýsköpun og vöruþróun til að stuðla að byggðafestu og auka verðmætasköpun með sjálfbærni og gæði að leiðarljósi. Meginmarkmiðið er að landbúnaður á Íslandi sé sjálfbær og vernd búfjárstofna sé tryggð. Þetta eru í senn metnaðarfull en raunhæf markmið. Þessum markmiðum verður þó aldrei náð nema að þeir sem stunda þennan rekstur – íslenskir bændur og matvældaframleiðendur – taki ekki aðeins þátt í að móta stefnuna heldur taki frumkvæðið og verði leiðandi.

Ég stend hér og segi við ykkur:

Ég ætla að leggjast á árarnar með ykkur en við verðum að tryggja að allir rói í sömu átt. Á þessari vegferð gegnir samráðshópur um endurskoðun búvörusamninga lykilhlutverki. Ég bind vonir við að hópurinn nái víðtæku samkomulagi um tillögur sem geta skapað meiri sátt um uppbyggingu íslensks landbúnaðar.

Í aðdraganda þessa búnaðarþings sendi forysta Bændasamtakanna mér bréf þar sem óskað var eftir að tilteknar aðgerðir yrðu teknar til skoðunar. Annars vegar vegna nýlegs dóms EFTA-dómstólsins um innflutning á hráu kjöti, eggjum og mjólk og hins vegar vegna aukinna tollfrjálsra kvóta á búvörum frá Evrópusambandinu. Mér er það ljúft og skylt að svara þeim óskum á þessum vettvangi.

Varðandi EFTA-dóminn er rétt að hafa aðdraganda málsins í huga. Í stuttu máli liggur fyrir að Ísland leiddi matvælalöggjöf Evrópusambandsins í lög árið 2009 í kjölfar samninga íslenskra stjórnvalda við Evrópusambandið á árunum 2005-2007. Þrátt fyrir þetta tók Ísland einhliða upp á því að banna innflutning á m.a. hráu kjöti. Dómur EFTA dómstólsins kveður á um að Ísland hafi ekki haft heimild til að viðhafa þessar viðbótarkröfur.

Eftir allt sem á undan er gengið er staðan því þessi:

Í ljósi dóms EFTA-dómstólsins er nauðsynlegt að gera breytingar  á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim en samhliða því þarf að grípa til aðgerða til mótvægis við væntanlegar lagabreytingar. Frá því mál þetta hófst árið 2011 hefur íslenska ríkið talið sig vera í rétti og unnið að því að halda uppi vörnum, fyrst gagnvart Eftirlitsstofnun EFTA og síðan fyrir EFTA-dómstólnum síðastliðið haust. Í ljósi þessa er undirbúningur mótvægisaðgerða á byrjunarstigi og ljóst að það mun taka tíma að koma þeim í framkvæmd. Því er augljóst í mínum huga að við getum ekki ráðist í þessar breytingar í dag eða á morgun – við þurfum einhvers konar aðlögun að þeim breytingum og er sú vinna farin af stað.

Þannig er í gangi vinna við að sækja til ESA svokallaðar viðbótartryggingar vegna salmonellu í kjöti af alifuglum og eggjum en þess má geta að Norðurlöndin hafa fengið slíkar tryggingar. Einnig munum við leggja ríka áherslu á öryggi matvæla og að vernd búfjárstofna sé tryggð. Þá hefur verið komið á samstarfi við þýsku áhættumatsstofnunina BfR, Bundesinstitut für Risikobewertung, sem mun veita ráðgjöf um sýnatöku á markaði og aðgerðir til að koma í veg fyrir útbreiðslu á kampýlóbakter og salmonellu. Allt þetta og fleira til verður gert til að koma til móts við þau áhrif sem þessar breytingar fela í sér. Þá hef ég á fundum mínum með forystu Bændasamtakanna hvatt þau til að koma að þessari vinnu og til að leggja fram raunhæfar hugmyndir að mótvægisaðgerðum. Þannig væri hægt að takast á við þessar breytingar í sameiningu. En ég hef á sama tíma sagt að við eigum ekki að hræðast þessar breytingar, heldur takast á við þær og sækja fram.

Varðandi tollasamningana við Evrópusambandið liggur fyrir að þeir taka gildi 1. maí næstkomandi og verða að fullu komnir til framkvæmda árið 2021. Bændasamtökin hafa lagt áherslu á tilteknar aðgerðir til að mæta þeim samningum og er sjálfsagt að taka þær til skoðunar. Ég segi hins vegar við ykkur hér í dag að þessir samningar fela í sér mikil tækifæri fyrir bæði neytendur en ekki síður íslenskan landbúnað. Ég hef skilning á því að hluti þeirra sem hér sitja upplifi óvissu og óöryggi um sína framleiðslu –  en við megum ekki vanmeta þau verulegu sóknarfæri sem íslenskur landbúnaður fær til að koma vörum sínum á erlendan markað. Þetta er lykilatriði í mínum huga.

Eflaust þykir einhverjum viðhorf mitt til þessara tveggja atriða óraunhæft, jafnvel kærulaust. Því er ég ósammála. Þetta viðhorf mitt endurspeglar trú mína á íslenskan landbúnað. Við getum hagnýtt okkur tækifæri framtíðarinnar þannig að allir hafi hag af – bæði þeir sem starfa í greininni en ekki síður neytendur. 

Í kvæði Steingríms Thorsteinssonar frá Arnarstapa á Snæfellsnesi segir:

“Tækifærið gríptu greitt,

giftu mun það skapa,

járnið skaltu hamra heitt

að hika er sama og tapa”

Í mínum huga blasa tækifærin bókstaflega við. Við sjáum að árlega bætast um 160 milljónir í hóp millistéttarinnar í heiminum og mun eftirspurn eftir heilnæmum matvælum aukast samhliða þeirri fjölgun. Þannig er talið að auka þurfi matvælaframleiðslu í heiminum um 50% á næstu tveimur áratugum. Þá má ekki gleyma sívaxandi markaði hér heima fyrir erlenda ferðamenn. Allt er þetta íslenskum landbúnaði afar hagfellt. Staða okkar Íslendinga til að grípa þessi tækifæri er öllum kunn – vatnið okkar, landrýmið, hreinleiki og heilbrigðir bústofnar. Við sitjum á mikilvægri auðlind og mikilvægi hennar mun vaxa jafnt og þétt á næstu árum og áratugum. Við erum á margan hátt í öfundsverðri stöðu enda mun eftirspurn eftir íslenskum matvælum stóraukast á næstu misserum. Við eigum að taka með bjartsýni og sóknarhug á móti þessum verkefnum, en fara ekki í varnarstöðu. Þetta snýst einfaldlega um að trúa á framtíðina.

Varðandi einstaka greinar nefni ég sem dæmi nautakjötsframleiðslu. Þar eigum við að sækja fram á þeirri sérstöðu sem við höfum í okkar hágæða nautakjöti – grasfóðrun, engin vaxtarhvetjandi hormón og lágmarks sýklalyfjanotkun. Sóknarfæri svínabænda liggja m.a. í að nýta innlent fóður og tryggja hreinleika. Sérstaða íslenskra sauðfjárafurða með áherslu á uppruna, hreinleika og hágæða lambakjöt felur í sér mikil tækifæri. Þá má minnast á sóknarfæri íslenskrar garðyrkju enda má fastlega búast við því að mikilvægi kolefnissparnaðar muni aukast á komandi árum. Við eigum að nýta okkur sérstöðuna og grípa tækifæri til frekari verðmætasköpunar. En á sama tíma og við ætlum að grípa þessi tækifæri og flytja matvæli í auknum mæli til annarra landa þá verðum við að leyfa öðrum að flytja inn – annað gengur ekki upp. En allt verður þetta að vera á jafnræðisgrunni og án þess að við fórnum því markmiði að tryggja Íslendingum heilnæm matvæli á hagstæðu verði. Við getum ekki og megum ekki vanmeta mikilvægi þess fyrir heilbrigði þjóðar að matvæli uppfylli strangar kröfur um heilnæmi og hollustu.

Það vill gleymast í umræðu um íslenskan landbúnað að það hefur náðst heilmikill árangur í greininni, m.a. í að auka verðmætasköpun. Mér finnst stundum bændur vera feimnir eða kannski hræddir við að halda þessum mikla árangri til haga. Á sama tíma og stuðningur við landbúnað hefur dregist verulega saman á síðustu árum hefur verðmætasköpun í greininni aukist mikið. Þannig jókst framleiðni í landbúnaði um 39% frá 2008 til 2015. Á sama tímabili tvöfaldaðist útflutningsverðmæti landbúnaðarafurða. Heildarverðmæti framleiðslunnar í dag er um 60 til 70 milljarðar á ári. Þessi árangur kallar um leið á skýra stefnu. Því hef ég sett af stað vinnu við að móta heildstæða matvælastefnu fyrir Ísland sem verður grunnur þeirrar sóknar sem við ætlum okkur á þessum vettvangi. Þá er einnig ánægjulegt að greina frá því hér í dag að í síðasta mánuði var samþykkt í ríkisstjórn sú tillaga mín að setja á fót starfshóp sem fær það verkefni að móta tillögur að innkaupastefnu opinberra stofnana á sviði matvæla. Markmiðið er að lágmarka kolefnisspor matvæla og styrkja með þeim hætti innlenda framleiðslu. Með þessu eru íslensk stjórnvöld að sýna gott fordæmi og sýna í verki vilja til að stuðla að sjálfbærri matvælaframleiðslu.

Öflug menntun er mikilvægur hlekkur í framþróun og framtíð íslensks landbúnaðar. Því lagði ég í tíð minni sem menntamálaráðherra ríka áherslu á að það væri eitt stærsta hagsmunamál íslensks landbúnaðar að efla Landbúnaðarháskóla Íslands. Mikilvægt er að styrkja grunnnám og tengja skólann við aðrar menntastofnanir og fyrirtæki innanlands og erlendis. Auka þarf fjármagn til hagnýtra verkefna í rannsóknum tengdum virðisaukningu landbúnaðarafurða. Þá er í mínum huga eitt mikilvægasta verkefni næstu ára á þessum vettvangi að styrkja samstarf skólans við bændur og aðra matvælaframleiðendur. Tryggja að bændur miðli sinni dýrmætu þekkingu og reynslu og um leið að skólinn sýni í verki að hann er að vinna fyrir bændur og byggðir landsins. Meðal annars með því að færa rannsóknir að hluta í sveitirnar. Ég veit að hér skortir ekki vilja til samstarfs, en það þarf hugsanlega að koma þessu samstarfi í markvissari farveg.

Ágætu gestir.

Í lok síðasta árs samþykkti Alþingi tillögu mína um að í fjáraukalögum 2017 verði varið 665 milljónum króna til að koma til móts við vanda sauðfjárbænda. Sú aðgerð var í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að bregðast verði við vanda sauðfjárbænda til skemmri og lengri tíma. Fyrir liggur að forysta sauðfjárbænda hefur lagt fram tillögur til að bregðast við vandanum til lengri tíma, m.a. að Alþingi setji á útflutningsskyldu í einu formi eða öðru.

Ég tel ljóst að lausn á þeim vanda sem við blasir mun ekki og á ekki eingöngu koma frá stjórnvöldum. Bændur verða að taka frumkvæði að því að greiða úr þessari stöðu og spyrja:

Hvernig náum við að styrkja tekjugrundvöll greinarinnar, ná jafnvægi í framleiðslu og styrkja með því sauðfjárrækt sem stöðugan atvinnurekstur til frambúðar? Hvernig tryggjum við sjálfbærni í framleiðslu þessara afurða og aukum virði þeirra?

Þessar lykilspurningar þurfa bændur að ræða, leita svara við og marka sér stefnu. Lausnin felst ekki í frekari fjárframlögum úr ríkissjóði en breytingar á útfærslum í gildandi búvörusamningum hljóta að koma til skoðunar. Þá hef ég efasemdir um að útflutningsskylda leysi þetta vandamál til frambúðar, auk þess sem ég óttast þau áhrif sem slík skylda myndi hafa á neytendur. Að því sögðu lýsi ég yfir fullum vilja stjórnvalda til að taka af heilum hug þátt í aðgerðum sem stuðla að því að sauðfjárrækt verði sjálfstæð og samkeppnishæf atvinnugrein til frambúðar. Meðal aðgerða til að sýna þessa viðleitni stjórnvalda í verki er úttekt á afurðastöðvum í sauðfjárslátrun. Nýverið var í kjölfar útboðs samið við KPMG um að ráðast í þá vinnu og verður henni lokið eigi síðar en 1. maí næstkomandi. Þær niðurstöður munu vafalaust verða mikilvægt innlegg í vinnu samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga.

Á þessari vegferð eru mikilvæg tækifæri fólgin í innleiðingu sérstakra aðlögunarsamninga um nýja starfsemi til sveita, líkt og kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Með þeim yrði rudd braut fyrir bændur til að byggja upp nýjar búgreinar eða hasla sér völl á öðrum sviðum. Slíkir aðlögunarsamningar gætu verið tímabundnir og háðir skilyrðum um byggðafestu, verðmætasköpun og búsetu viðkomandi jarðar,stuðlað að nýsköpun, náttúruvernd og nýjum áherslum í rannsóknum og menntun. Ég vonast eftir uppbyggilegu samstarfi við bændur um útfærslu slíkra samninga.

Eitt stærsta verkefni íslensks landbúnaðar á næstu árum og áratugum eru loftslagsmálin. Landbúnaður losar árlega rúmlega 700 þúsund tonn af koldíoxíð sem eru um 16% af heildarlosun Íslands. Ég hef skynjað mikinn metnað og vilja þeirra sem starfa í greininni til að íslenskur landbúnaður verði kolefnisjafnaður að fullu. Til þess eru margar leiðir færar, m.a. með endurheimt votlendis, minni áburðanotkun, uppgræðslu og skógrækt. Að mínu viti eiga bændur að vera í forystu hvað þessi mál varðar. Þá tel ég einnig mikil sóknarfæri felast í því að innleiða nýja búgreinasamninga við bændur um kolefnisjöfnun. Þeir samningar yrðu persónubundnir við ábúendur jarða í búrekstri og myndu ná jafnt til bindingar kolefnis sem og samdráttar í losun. Bændur myndu með slíkum samningum fá greitt samkvæmt viðurkenndu loftslagsbókhaldi fyrir hvert tonn af koldíoxíð sem þeir væru að binda og draga saman í losun.. Ábyrgð okkar allra stendur til þess að sameinast um þetta verkefni enda hagsmunir framtíðarkynslóðanna í húfi.

Hér að lokum vil ég gera að umtalsefni að undanfarin ár hafa komið fram vísbendingar um að eftirlit með búskap hafi orðið stöðugt umfangsmeiri og kostnaðarsamara. Því mun ég beita mér fyrir því að við endurskoðum þetta eftirlitskerfi með það að markmiði að það sé einfalt og skilvirkt. Það er löngu tímabært að ráðast í þá vinnu – eða eins og maðurinn sagði: “Okkur er ekkert að landbúnaði.”

Ágætu gestir.

Eins og þið heyrið er ég bjartsýnn sem aldrei fyrr á framtíð og tækifæri íslensks landbúnaðar. Það er mín von að bændur taki höndum saman við stjórnvöld og neytendur svo unnt sé að sækja fram og byggja á þeim árangri sem náðst hefur. Bændur þurfa að taka virkan þátt í að skapa meiri sátt um uppbyggingu íslensks landbúnaðar þannig að okkur beri gæfa til að grípa þau tækifæri sem gefast til sóknar og nýrra sigra í þágu lands og þjóðar.

Ég óska ykkur góðra þingstarfa.

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum