Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 565/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 28. nóvember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 565/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19080007

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 6. ágúst 2019 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […], vera ríkisborgari Írak (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. júlí 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 5. október 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 21. maí 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 17. júlí 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 6. ágúst 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 26. ágúst 2019 ásamt fylgigögnum. Viðbótargögn bárust með tölvupósti dags. 7. október s.á. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 17. október 2019.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna trúskipta sinna, heiðursdeilu fjölskyldu sinnar og ofsókna vopnahópa.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi kveðst vera fæddur og uppalinn í borginni Bagdad í Írak áður en hann hafi neyðst til að flýja heimaríki sitt. Hann hafi tilheyrt minnihlutahópi í heimaríki þar sem hann hafi verið súnní-múslimi en meirihluti þeirra sem séu við völd í Írak séu sjía-múslimar og vilji þeir losna við alla súnní-múslima. Í því sambandi greinir kærandi m.a. frá því að sjía vopnahópar, sem hafi notið fjárhagslegs stuðnings frá yfirvöldum, hafi hótað kæranda og fjölskyldu hans lífláti og rekið þau úr húsnæði þeirra árið 2008. Þá hafi þeir brotið allar rúður í byggingu sem faðir kæranda og kærandi hafi unnið við byggingu á vegna þess eins að faðir kæranda hafi neitað að greiða mánaðarlegt verndargjald til þeirra. Kærandi kveður að hann hafi miklar áhyggjur af velferð fjölskyldu sinnar og búist hann við símtali á hverjum degi þar sem honum sé tilkynnt um andlát fjölskyldumeðlims. Í greinargerð kæranda kemur fram að stórfjölskylda kæranda hafi ekki viðurkennt hjónaband foreldra hans. Kærandi og systir hans séu því „bastarðar“ í augum stórfjölskyldunnar og hafi svert heiður hennar. Af þeim sökum vilji tveir móðurbræður kæranda losna við hann, systur hans og móður og hafi þeir greitt glæpahópi til þess að drepa þau. Fjölskylda kæranda hafi því skipt um húsnæði í Bagdad á sex mánaða fresti til að finnast ekki.

Kærandi kveðst hafa haft áhuga á kristinni trú frá því hann hafi verið tíu ára gamall. Þá hafi hann átt tvo kristna vini í skólanum sem hafi sagt honum frá Biblíunni og kristni og boðið honum að koma til kirkju með sér. Hann hafi þegið boðið og hafi heimsóknin vakið mikinn áhuga hjá honum þar sem allir hafi verið brosandi og vinalegir. Hann hafi þó verið hræddur um að einhver myndi sjá sig. Kærandi kveði að þegar hann hafi komið til Íslands hafi hann kynnst Hjálpræðishernum og hafið þar störf sem sjálfboðaliði. Meðlimir hjálpræðishersins hafi boðið honum að koma með þeim til kirkju einn sunnudaginn. Þegar hann hafi gert það hafi hann fundið sömu tilfinningu og hann hafi upplifað þegar hann hafi farið í kirkju sem barn. Í kjölfarið hafi kærandi byrjað að mæta til kirkju á hverjum sunnudegi, lesið Biblíuna og upplifað ást og frið. Áður fyrr hafi hann velt trúarbrögðum mikið fyrir sér, m.a. af hverju það væri svo mikill ófriður á milli súnní- og sjía-múslima. Hann hafi fundið sig betur í kristinni trú því þar elski allir alla og virði. Af þeim sökum sé hann kristinnar trúar í dag.

Kærandi kveðst ekki getað iðkað kristna trú í heimaríki. Flestir þeir sem séu kristinnar trúar hafi flúið frá Írak þar sem þeir geti ekki iðkað trú sína í friði. Þá sé litið á þá sem trúvillinga og eigi þeir á hættu að vera drepnir af þeim sökum. Kærandi kveði að hann óttist um líf sitt og að vera beittur ofbeldi í heimaríki því að hann sé kristinnar trúar. Þá myndi fjölskylda hans afneita honum ef hann kæmi til baka sem kristinn maður. Samfélagið líti á íslam sem stjórnmálaflokk sem enginn megi hætta í og ef skipt sé frá íslam yfir í kristni þurfi að myrða viðkomandi. Kærandi kveðst ekki getað leitað aðstoðar lögreglu, sem sé spillt og fari ekki með neitt raunverulegt vald. Þá geti hann ekki fengið aðstoð ættbálksins síns þar sem foreldrar hans séu ekki í löglegu hjónabandi og því sé enga vernd fyrir hann að fá. Enn fremur geti hann ekki búið annarsstaðar í heimaríki og verið öruggur þar sem ástandið sé hið sama alls staðar.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður í Írak, stjórnmálaástand og skiptingu þjóðernisbrota í landinu. Þá er að finna almenna umfjöllun um ástand mannréttindamála og vísar kærandi í alþjóðlegar mannréttindaskýrslur máli sínu til stuðnings. Þar kemur m.a. fram að öryggisástandið í landinu hafi verið ótryggt frá því að bandaríski herinn og bandamenn þeirra hafi ráðist inn í landið í mars 2003. Undanfarin ár hafi óöld ríkt í landinu og hafi hryðjuverkasamtökin ISIS og aðrir hryðjuverkahópar brotið gróflega gegn alþjóðlegum mannréttindalögum. Meðal helstu vandamála tengdum mannréttindum í landinu séu ólögleg morð af hálfu öryggissveita ríkisins, mannshvörf og kúganir af þeirra hálfu. Þá sé tíðni aftaka í Írak með því hæsta sem gerist í heiminum. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hvetji ríki til að snúa ekki Írökum, sem komi frá svæðum sem séu undir áhrifum stríðsátaka, aftur til heimaríkis gegn vilja sínum. Þá er í greinargerð fjallað almennt um ofsóknir á hendur þeim sem hafa snúist til kristinnar trúar í Írak. Alvarleg brot á trúfrelsi einstaklinga viðgangist í landinu og hafi trúarlegir minnihlutahópar, þ.m.t. kristnir, sætt aftökum, þvinguðum trúskiptum, mismunun og þrælkun af hálfu ISIS. Þá hafi yfirvöld innleitt frekari hömlur á trúfrelsi einstaklinga í löggjöf landsins og mistekist að vernda trúarlega minnihlutahópa. Stjórnarskrá Íraks mæli fyrir um að yfirvöld skuli vernda trúfrelsi en í reynd eigi einstaklingar sem snúa frá íslam á hættu dauðarefsingu.

Í greinargerð kæranda eru gerðar ýmsar athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar, þá sérstaklega að stofnunin hafi í hinni kærðu ákvörðun ekki lagt til grundvallar að hann hafi snúist til kristinnar trúar. Kærandi hafi staðið í þeirri trú að hann hafi verið skírður til kristinnar trúar í kirkju Hjálpræðishersins á páskadag og hafi það ekki verið fyrr en eftir viðtölin há Útlendingastofnun að kærasta hans hafi tjáð honum að ekki hafi verið um að ræða skírnarathöfn. Þá hafi kærandi skírst til kristinnar trúar þann [...]. Kærandi gerir auk þess athugasemdir við mat stofnunarinnar að ekki sé ósanngjarnt að gera kröfu um að hann leggi fram gögn sem a.m.k. leiða að því líkum að hann sé í hættu í heimaríki af hálfu frænda sinna. Fjölskylda hans hafi ávallt þurft að vera á flótta undan frændum hans og því sé ekki óeðlilegt að hann hafi ekki getað framvísað gögnum til stuðnings framburðar sínum. Að lokum gerir kærandi athugasemd við þá staðhæfingu Útlendingastofnunar að kærandi eigi fjölskyldu og aðra ættingja í Bagdad og hafi þar af leiðandi aðgang að tengslanetinu sem því fylgir í ljósi frásagnar kæranda sé ljóst að það hafi hann ekki.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 38. gr. laganna. Kærandi byggir á því að hann eigi á hættu ofsóknir í heimaríki vegna trúarbragða, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Hann hafi snúist frá íslam til kristinnar trúar og eigi af þeim sökum hættu á að verða fyrir ofbeldi eða tekinn af lífi. Kærandi hafi tekið upp kristna trú eftir að hann yfirgaf heimaríki og sé hann því flóttamaður sur place hvað varði þann þátt málsins. Með vísan til framangreinds byggir kærandi á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu yfirvalda og almennings í heimaríki á grundvelli trúarskoðana, sbr. ákvæði b-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi, sem kristinn einstaklingur í Írak, skeri sig úr hvað varði lífsviðhorf og framkomu sem sé til þess fallið að skapa honum óvild og útskúfun í íslömsku samfélagi. Þá sé, skv. því sem greinir í leiðbeiningarreglum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, ekki hægt að gera þær kröfur til kæranda að hann feli trú sína til að koma í veg fyrir ofsóknir.

Með vísan til framangreinds sé þannig byggt á því að kærandi eigi jafnframt hættu á ofsóknum vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi, sbr. ákvæði d-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá byggist ótti kæranda við ofsóknir jafnframt á samsafni athafna, skv. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Hann eigi á hættu ólögmæta mismunun í heimaríki vegna trúskipta sinna, stöðu sinnar sem barn foreldra sem hafi ekki gifst með löglegum hætti skv. íslam og vegna þess að hann tilheyri fjölskyldu súnní-múslima sem yfirvöld í Bagdad vilji útrýma. Líklegt sé að kærandi sé í annarri og verri stöðu en aðrir í Írak vegna samtvinnunar á þessum ástæðum. Þá vísar kærandi til ákvæða a- og c-liðar 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga um að ekki sé raunhæft að leita ásjár yfirvalda.

Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda er til vara gerð sú krafa að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið í tengslum við aðalkröfu kæranda sé ljóst að kærandi uppfylli skilyrði fyrri hluta 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands síns. Kærandi óttist stórfjölskyldu sína sem samþykki ekki ólöglegt hjónaband foreldra hans og hafi hótað því að drepa þau. Þá óttast hann vopnaða hópa en heimildir herma að þeir sem hafi snúist til kristni eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum af hálfu liðsmanna ISIS og annarra glæpahópa. Stjórnvöldum í Írak hafi mistekist að vernda trúarlega minnihlutahópa í landinu og hafi ekki sótt þá til saka sem brotið hafi á þeim. Því sé ljóst að kærandi geti ekki leitað verndar þeirra. Þá geti hann ekki leitað aðstoðar eða verndar fjölskyldu sinnar. Þá eigi síðari hluti 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga einnig við í málinu en í heimildum sé ástandinu í landinu lýst sem óstöðugu jafnframt sem það geti versnað snögglega.

Verði hvorki fallist á aðal- né varakröfu kæranda er sú krafa gerð til þrautavara að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Krafan byggist í fyrsta lagi á því að kærandi muni standa frammi fyrir félagslegri einangrun og búa við erfiðar félagslegar aðstæður í heimaríki. Þar sem hann hafi snúist til kristinnar trúar megi telja víst að samfélagið og fjölskylda hans muni snúast gegn honum og líkt og áður segi njóti hann ekki stuðnings ættbálks síns. Krafan byggist auk þess á langvarandi stríðsástandi í heimaríki kæranda, viðvarandi mannréttindabrotum og skorti á vernd yfirvalda gegn ofbeldisbrotum og glæpum.Verði aðal-, vara- eða þrautavarakröfur kæranda ekki samþykktar er gerð sú krafa til þrautaþrautavara að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun gert að taka málið til meðferðar á ný. Byggist krafan á annmarka á meðferð Útlendingastofnunar á máli kæranda, einkum því að stofnunin hafi ekki lagt til grundvallar að hann hafi snúist til kristinnar trúar vegna óhagstæðs trúverðugleikamats.

Kærandi sé flóttamaður og með því að senda kæranda til Íraks sé brotið gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement en reglan sé lögfest í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt neitt fram sem væri til þess fallið að sanna á honum deili og hafi því ekki verið unnt að staðfesta auðkenni hans. Í ljósi frásagnar kæranda hafi, að mati stofnunarinnar, ekki verið ástæða til að draga í efa að hann sé fæddur og uppalinn í Bagdad.

Þann 4. október sl. lagði kærandi fram gögn í tengslum við umsókn sína um alþjóðlega vernd hér á landi, þ. á m. frumrit af írökskum persónuskilríkjum og fæðingarvottorði, þar sem fæðingarstaður kæranda er skráður Bagdad. Við meðferð málsins óskaði kærunefnd útlendingamála eftir því að lögregla framkvæmdi rannsókn á framangreindum frumritum og liggja niðurstöður þeirra rannsóknar fyrir í skýrslu frá lögreglu, dags. 15. október 2019. Kemur þar m.a. fram að enga fölsun sé að sjá í skjölunum og séu þau öllum líkindum ófölsuð og rétt út gefin.

Kærandi framvísaði einnig ljósmynd af íröksku vegabréfi þann 4. október sl. Af myndinni að dæma var vegabréf kæranda útgefið af yfirvöldum í Sulaymaniyah, Kúrdistan. Í ljósi framangreinds var kærandi boðaður í tungumála- og staðháttarpróf þann 23. október sl. Niðurstöður prófsins bárust kærunefnd þann 4. nóvember sl. þar sem staðfest var að kærandi talaði mállýsku sem væri töluð í Bagdad. Þá hafi kærandi réttilega svarað spurningum um staðhætti í Bagdad. Að teknu tilliti til niðurstöðu prófsins og ofangreindra gagna verður lagt til grundvallar að kærandi sé frá Bagdad og sé írakskur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Írak, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Amnesty International Report 2017/2018 – Iraq (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Country Information and Guidance Iraq: Internal relocation, civil documentation and returns (UK Home Office, febrúar 2019);
  • Country Information and Guidance – Iraq: Religious minorities (UK Home Office, október 2019);
  • Country of Origin Information Report. Iraq: Internal Mobility (European Asylum Support Office, febrúar 2019);
  • Country of Origin Information Report. Iraq: Security situation (European Asylum Support Office, mars 2019);
  • Country Reports on Terrorism 2017 – Iraq (U.S. Department of State, 19. september 2018);
  • Country Policy and Information Note Iraq: Security and humanitarian situation (UK Home Office, nóvember 2018);
  • Freedom in the World 2018 - Iraq (Freedom House, 5. apríl 2018);
  • International Protection Considerations with Regard to People Fleeing the Republic of Iraq (UNHCR, maí 2019);
  • Iraq: Apostasi og ateisme (Landinfo, 29. ágúst 2018)
  • Iraq: Country of Origin Information on Access and Residency Requirements in Iraq (Update I). Ability of Persons Originating from Formerly ISIS-held or Conflict-Affected Areas to Legally Access and Remain in Proposed Areas of Relocation (UNHCR, Nóvember 2019);
  • Iraq 2018 International Religious Freedom Report (U.S. Department of State, 21. júní 2019);
  • Iraq 2018 Human Rights Report (U.S. Department of State, 13. mars 2019);
  • Iraq: Turning a Blind Eye: The Arming of the Popular Mobilization Units (Amnesty International, 5. janúar 2017);
  • Report on Human Rights in Iraq: January to June 2017 (UNAMI, 14. desember 2017);
  • Tribal Conflict Resolution in Iraq (UN High Commissioner for Refugees, 15. janúar 2018);
  • UN Casualty Figures for Iraq for the Month of December 2018 (Vefsíða United Nations Iraq, www.uniraq.org, sótt 11. nóvember 2018);
  • UNHCR position on returns to Iraq (UNHCR, 14. nóvember 2016);
  • USCIRF Annual Report 2019 – (United States Commission on International Religious Freedom, apríl, 2019)
  • World Report 2019. Events of 2018 – Iraq (Human Rights Watch, 17. febrúar 2019);
  • Upplýsingar af heimasíðu sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna heldur úti: www.unhcr.org (The United Nations High Commissioner for Refugees, The UN Refugee Agency)

Samkvæmt framangreindum gögnum er Írak lýðræðisríki með rúmlega 40 milljónir íbúa. Írak varð til eftir fyrri heimsstyrjöldina þegar Þjóðabandalagið ákvarðaði núverandi landamæri Íraks. Ríkið var breskt yfirráðasvæði fram til ársins 1932, þá tók við tímabil sem einkenndist af pólitískum óstöðugleika sem lauk árið 1958 þegar komið var á fót lýðveldi. Árið 1945 gerðist Írak aðili að Sameinuðu þjóðunum og fullgilti ríkið bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1971. Ríkið fullgilti samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1986, samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1994 og valfrjálsar viðbótarbókanir við þann samning árið 2008. Ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2011 og alþjóðasamning um vernd allra gegn mannshvörfum árið 2010. Þá fullgilti ríkið jafnframt samning um réttindi einstaklinga með fötlun árið 2013.

Í framangreindum gögnum kemur fram að frá árinu 1968 til 2003 hafi Írak verið alræðisríki sem hafi lotið stjórn Ba‘ath-flokksins. Stjórn flokksins hafi verið steypt af stóli í kjölfar innrásar bandaríska hersins og bandamanna þeirra í Írak árið 2003. Frá innrásinni hafi ástandið á mörgum svæðum í Írak verið óstöðugt. Hafi samtök sem kenna sig við íslamskt ríki (ISIS) hafið uppreisn árið 2014 og náð undir sig stórum landsvæðum. Frá þeim tíma hafi íröksk stjórnvöld, með aðstoð alþjóðasamfélagsins, náð miklum árangri í að ná aftur fullri stjórn yfir ríkinu þótt enn séu lítil svæði í vesturhluta landsins sem uppreisnarmenn hafi á valdi sínu. Þá hafi íröksk yfirvöld ekki fulla stjórn yfir hersveitum sínum og dæmi séu um að hersveitir á vegum yfirvalda fremji mannréttindabrot gegn almennum borgurum, þ. á m. ólögmætar aftökur og pyndingar í varðhaldi. Alvarleg mannréttindabrot og brot á mannúðarlögum hafi haft mikil áhrif á almenna borgara á þeim svæðum í Írak sem átökin hafi náð til. Af þeim sökum hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum Íraka frá þeim svæðum þar sem átök geisi og þar sem ástandið sé óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn ISIS. Þá sé það mat stofnunarinnar að vegna almenns ástands í Írak, þ.m.t. vegna fjölda þeirra sem hafi þurft að flýja innanlands, sé í miklum meirihluta mála ekki grundvöllur til að líta svo á að Írakar frá þessum svæðum geti notið verndar í öðrum hlutum landsins.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að aðstæður í Írak séu víða ótryggar og að töluvert sé um hryðjuverkaárásir og stjórnmálatengdar árásir í landinu. Skýrslur EASO og UNHCR frá árinu 2019 bera þó með sér að öryggisástandið í Bagdad hafi tekið framförum. ISIS hafi að mestu leyti hörfað frá borginni og öryggissveitir Íraks (e. Iraqi Security Forces, ISF) hafi að mestu leyti náð stjórn yfir borginni að nýju. Hafi það leitt til þess að átökum og hryðjuverka- og sprengjuárásum í borginni hafi fækkað. Samkvæmt skýrslu sérstakrar nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna í Írak (e. United Nations Assistance Mission for Iraq) hafi 398 almennir borgarar látið lífið í átökum í Bagdad árið 2018, samanborið við 728 árið áður og 2895 árið 2016.

Ráða má að spilling sé mikið vandamál í Írak, þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Á tímabilinu 2005 til 2014 hafi íröksk stjórnvöld unnið í samstarfi við Evrópusambandið að umbótum á stofnunum ríkisins svo sem lögreglu, dómstólum og fangelsum landsins. Áætlunin nefnist EUJUST-LEX og hafi m.a. 1800 lögreglumenn og 900 dómarar undirgengist þjálfun í því skyni að koma á skilvirkri laga- og mannréttindavernd.

Af framangreindum gögnum má ráða að íslam sé hin opinbera trú í Írak. Um 97% íbúa Íraks séu múslimar og flestir þeirra séu sjía-múslimar eða um 55-60% íbúa landsins. Þá séu um 40% íbúa landsins súnní-múslimar en um 15% íbúa séu súnní-múslimskir Kúrdar og 24% súnní-múslimskir arabar. Sjía-múslimar séu ráðandi í suður- og austurhlutum landsins auk þess sem flestir íbúar höfuðborgarinnar Bagdad séu sjía-múslimar. Íbúar norður- og vesturhluta landsins séu flestir súnní-múslimar sem og íbúar miðsvæðisins, þó að undanskilinni Bagdad. Á milli þessara tveggja fylkinga, súnní- og sjía-múslima, hafi löngum verið rígur og í ljósi ríkjandi stöðu sjía-múslima í samfélaginu eigi súnní-múslimar í mörgum tilvikum erfitt uppdráttar í landinu. Framangreind gögn bendi til þess að súnní-múslimar eigi á hættu að verða fyrir áreiti af hálfu yfirvalda, hersveita á vegum yfirvalda og sjálfstæðra hersveita og öfgahópa sem starfi í landinu.

Þá má af framangreindum gögnum ráða að þeir sem aðhyllist kristna trú myndi stærsta trúarlega minnihlutahópinn í Írak. Þeir kjósi gjarnan að dvelja í Kúrdistan þar sem þeir líti svo á að þar sé meira öryggi, umburðarlyndi og réttindavernd. Einstaklingar sem tilheyra trúarlegum minnihlutahópum í Írak, þ.m.t. kristnir, hafi orðið fyrir ofbeldi á grundvelli trúarskoðana og hafi bænastaðir þeirra verið skotmörk fyrir hryðjuverk. Þá hafi fulltrúar trúarlegra minnihlutahópa greint frá því að þeir hafi orðið fyrir áreiti og takmörkunum frá yfirvöldum í Írak. Trúfrelsi er tryggt í stjórnarskrá Íraks og hafa flestir pólitískir leiðtogar lýst yfir stuðningi við fjölbreytileika í trúarbrögðum. Þó er guðlast refsivert skv. 327. gr. írakskra hegningarlaga, en ákvæðið kveður á um að einstaklingur sem gerist sekur um guðlast geti verið gert að greiða sektargreiðslu eða afplána allt að þriggja ára fangelsisrefsingu.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd í fyrsta lagi á því að honum stafi ógn af stórfjölskyldu sinni í heimaríki, n.t.t. tveimur móðurbræðrum, vegna heiðursdeilu. Í öðru lagi sé kærandi í hættu í heimaríki vegna þess að hann tilheyri fjölskyldu súnní-múslima, sem séu í minnihluta í landinu, en sjía-múslimar, sem fari með yfirráð í Írak, vilji útrýma öllum súnní-múslimum í landinu. Í þriðja lagi eigi kærandi á hættu ofsóknir í heimaríki þar sem hann hafi snúist frá íslam til kristinnar trúar hér á landi.

Í endurriti viðtals við kæranda sem tekið var hjá Útlendingastofnun þann 11. október 2018 kemur fram að kærandi hafi sagt, aðspurður um ástæður flótta, að hann sé annars vegar í hættu í heimaríki vegna þess að hann sé súnní-múslimi og hins vegar vegna þess að afar hans vilji drepa foreldra hans þar sem þeir séu ekki samþykkir hjónabandi þeirra. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 21. maí 2019 sagði kærandi hins vegar að honum og fjölskyldu hans stafi ógn af móðurbræðrum hans. Aðspurður í viðtali hjá kærunefnd þann 17. október 2019 um ætlað ósamræmi kvaðst kærandi ekki hafa greint frá því í fyrsta viðtali hjá Útlendingastofnun að hann hafi flúið heimaríki vegna afa sinna þar sem afar hans séu látnir, honum og fjölskyldu hans stafi einungis ógn af áðurnefndum móðurbræðrum sínum. Ítök þeirra í heimaríki séu mikil en þeir starfi hjá [...] í Bagdad og heiti […] og […]. Kærunefnd óskaði eftir upptöku af viðtalinu frá 11. október 2018 og eftir skoðun þess viðtals verður ekki annað ráðið en að Útlendingastofnun hafi haft rangt eftir kæranda.

Kærandi hefur hvorki lagt fram gögn sem styðja við frásögn af hótunum móðurbræðra í hans garð né gögn um að þeir gegni slíkri stöðu að kæranda gæti stafað hætta af þeim. Í ljósi frásagnar kæranda sjálfs um að ætlaðar ofsóknir hafi staðið yfir í langan tíma er að mati kærunefndar ekki ósanngjarnt að gera kröfu um að kærandi leggi fram einhver gögn sem leiði að því líkur að hann sé í hættu í heimaríki af hálfu móðurbræðra sinna.

Samkvæmt framburði kæranda hefur hann og fjölskylda hans búið í Bagdad alla tíð. Faðir hans hafi rekið byggingarfyrirtæki þar í borg og hafi kærandi unnið hjá honum. Móðurbræður hans hafi einnig búið í Bagdad. Af framburði kæranda í viðtali hjá kærunefnd verður ráðið að móðurbræður hans hafi einu sinni brotist inn á heimili fjölskyldu hans. Aðspurður hvenær það gerðist kvað kærandi fyrst að það hafi verið þegar hann var í gagnfræðaskóla. Síðar í viðtalinu sagði hann hins vegar að ætlað húsbrot hafi átt sér stað ári áður en hann kom hingað til lands. Aðspurður um misræmið kvað kærandi að árásirnar hefðu átt sér stað reglulega. Aðspurður hvort móðurbræður hans hafi einhverntímann hótað honum eða áreitt hann kvað kærandi að þeir hafi nokkrum sinnum hringt í hann, en hann hafi þá látið foreldra sína fá símann. Hann hafi því ekki talað við þá. Þá hafi hann einu sinni séð þá fyrir utan skólann sinn, en þeir hafi ekki komið auga á hann. Samkvæmt framansögðu hefur kærandi ekki nefnt neitt atvik þar sem móðurbræður hans hafi hótað honum, áreitt eða beitt hann ofbeldi.

Frásögn kæranda var að ýmsu leyti á reiki. Hann sagðist t.d. í viðtali hjá Útlendingastofnun tala kúrdísku en þrætti ranglega fyrir að hafa sagt það þegar hann var í viðtali hjá kærunefnd. Skýringar sem kærandi veitti síðar í gegnum talsmann sinn vörpuðu ekki ljósi á það ósamræmi. Þá var innra ósamræmi hjá kæranda í viðtali hjá kærunefnd vegna spurninga um Facebook færslur hans og ósamræmi á milli viðtala hjá kærunefnd og Útlendingastofnun um hvenær hann kynntist kristinni trú. Þá gætti misræmis í frásögn kæranda um hvenær móðurbræður hans brutust inn á heimili hans og foreldra hans. Kærunefnd telur þetta misræmi draga nokkuð úr trúverðugleika frásagnar hans og þýðingu hennar sem sönnunargagns í málinu. Er það því mat kærunefndar, á grundvelli allra gagna málsins og að teknu tilliti til trúverðugleikamats, að hann hafi ekki leitt líkur að því að hann sé í þeirri hættu í heimaríki af hálfu móðurbræðra sinna sem 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga vísar til, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Með vísan til framangreinds og á grundvelli heildarmats á aðstæðum kæranda telur kærunefnd að kærandi hafi ekki rennt nægum stoðum undir þá málsástæðu að honum stafi ógn af móðurbræðrum sínum eða að þeir hafi völd eða tengsl af þeim toga að kæranda kunni að stafa hætta af þeim að því marki að hann teljist hafa ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. sömu laga.

Kærandi byggir aðalkröfu sína jafnframt á því að hann eigi á hættu ofsóknir í heimaríki vegna þess að hann tilheyri fjölskyldu súnní-múslima. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um heimaríki kæranda verður, sem fyrr segir, ráðið að súnní-múslimar eigi í mörgum tilvikum erfitt uppdráttar í landinu í ljósi ríkjandi stöðu sjía-múslima í samfélaginu. Súnní-múslimar eigi á hættu að verða fyrir áreiti af hálfu yfirvalda, hersveita á vegum yfirvalda og sjálfstæðra hersveita og öfgahópa sem starfi í landinu. Á hinn bóginn verður ekki séð að framangreint áreiti nái því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um og telst kærandi því ekki hafa ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga af þeim sökum.

Kærandi byggir aðalkröfu sína enn fremur á því að hann hafi snúist til kristinnar trúar og eigi því á hættu ofsóknir á grundvelli trúarskoðana. Í viðtali hjá kærunefnd átti kærandi, eins og áður sagði, í erfiðleikum með að lýsa því hvar og hvenær hann hafi kynnst kristinni trú en misræmi var á milli svara hans hjá Útlendingastofnun og framburðar hans hjá kærunefnd að þessu leyti. Þá átti hann í erfiðleikum með að útskýra hvað hafi fengið hann til að snúast til kristinnar trúar. Í viðtali hjá kærunefnd var kærandi spurður að því hvort hann myndi iðka kristna trú í heimaríki yrði hann að snúa þangað aftur. Kærandi svaraði því neitandi. Að mati kærunefndar verður ekki ráðið af framburði kæranda að hann hafi í raun snúist til kristinnar trúar á þann hátt að endursending hans til heimaríkis setji hann í slíka hættu að hann teljist hafa ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þá er að mati kærunefndar ekki ástæða til að ætla að vitneskja um ætluð trúskipti muni berast eða hafi borist til heimaríkis og að það kunni að setja hann í hættu sem falli undir 1. mgr. 37. gr. laganna.

Með vísan til alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 3. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Þrátt fyrir átök í Írak undanfarin ár er það mat kærunefndar að aðstæður í ríkinu séu ekki slíkar að kærandi eigi á hættu meðferð sem brjóti í bága við 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Það er mat kærunefndar að kærandi eigi ekki á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu í Írak eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Þá telur kærunefnd að ekki sé ástæða til að ætla að sá órói sem einkennt hefur Bagdad undanfarnar vikur sé af þeim toga að hann raski þessu mati.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður kæranda þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfyllir heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi ber fyrir sig að verði hann sendur aftur til heimaríkis muni bíða hans erfiðar félagslegar aðstæður þar. Telja megi víst að samfélagið og fjölskylda hans muni snúast gegn honum þar sem hann hafi snúist frá íslam til kristinnar trúar. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Með vísan til umfjöllunar um aðstæður í heimaríki og um ætluð trúskipti kæranda telur kærunefnd að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að unnt sé að veita kæranda dvalarleyfi á þeim grundvelli.

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi almennt heilsuhraustur. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 5. október 2018 og sótti um alþjóðlega vernd þann sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                                     Árni Helgason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum