Hoppa yfir valmynd
16. maí 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 255/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 16. maí 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 255/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19040066

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 4. apríl 2019 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. mars 2019, um að hafna umsókn hans um dvalarleyfi.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og lagt verði fyrir stofnunina að taka umsókn hans til efnislegrar meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 14. september 2016 og var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar þann 18. október 2017 ásamt því að vera synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og sérstakra tengsla við landið. Ákvörðun Útlendingastofnunar var staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 8. febrúar 2018, en felldur úr gildi sá þáttur ákvörðunar stofnunarinnar er varðaði brottvísun og endurkomubann. Kærandi sótti um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki þann 6. júní 2018. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. janúar 2019, var umsókn kæranda synjað. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 25. mars 2019 var síðastnefnd ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar.

Þann 6. febrúar sl. sótti kærandi á ný um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. mars 2019, var umsókn kæranda hafnað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 3. apríl sl. og þann 4. apríl sl. kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála en kæru fylgdi greinargerð og fylgigögn.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til skilyrða 51. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar hefði kærandi komið til landsins 1. júlí 2018 og hefði hann því dvalið umfram þá 90 daga sem honum væri heimilt, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 49. gr. laganna. Þá taldi stofnunin ekki vera ríkar sanngirnisástæður í málinu skv. 3. mgr. 51. gr. Með vísan til 4. mgr. 51. gr. var umsókn kæranda því hafnað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess að hann sé með dvalarleyfi á [...] og sé því undanþeginn áritunarskyldu til landsins. Þá hafi hann sótt um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki þann 6. júní 2018, sem kærunefnd útlendingamála hafi með úrskurði sínum þann 25. mars sl., vísað til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun. Vísar kærandi til þess að ákvörðun Útlendingastofnunar frá 11. mars. sl. byggist einkum á því að hann hafi lagt fram nýja umsókn um dvalarleyfi þann 6. febrúar sl. og verið staddur á landinu á meðan umsóknin var til umfjöllunar. Þessu hafnar kærandi sem kveðst hafa verið erlendis frá 5. febrúar 2019 til 2. apríl sl. Gögn og umsóknir sem hafi verið lagðar fram hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála samhliða stjórnsýslukæru þann 24. janúar hafi öll verið hluti af umsókn hans frá 6. júní 2018. Þannig hafi hann ekki verið að sækja um í fyrsta sinn eins og lesa megi af ákvörðun Útlendingastofnunar þann 11. mars sl. Tekur kærandi fram að fyrir liggi umsókn hans um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki og með þeirri umsókn liggi fyrir öll nauðsynleg gögn.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga kemur fram sú meginregla að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og er honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Frá því skilyrði er heimilt að víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi er undanþeginn áritunarskyldu eða hann er staddur hér á landi og aðstæður hans falla undir a-c lið 1. mgr. 51. gr. Varða stafliðirnir m.a. þær aðstæður þar sem umsækjandi er maki eða sambúðarmaki íslensks ríkisborgara, sbr. a-lið, barn íslensks ríkisborgara, sbr. b-lið, eða er umsækjandi um dvalarleyfi á grundvelli 61., 63. eða 64. gr. laga um útlendinga, sbr. c-lið. Í 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga segir að undantekning c-liðar gildi á meðan útlendingur hefur heimild til dvalar skv. vegabréfsáritun eða á meðan hann hafi heimild til dvalar án áritunar. Í 4. mgr. 51. gr. segir að ef umsækjandi um dvalarleyfi sem dvelur hér á landi sækir um dvalarleyfi án þess að vera undanþeginn því að sækja um leyfi áður en hann kemur til landsins skv. 1. mgr. og 2. mgr. skuli hafna umsókninni á þeim grundvelli. Það sama eigi við ef umsækjandi kemur til landsins áður en umsókn er samþykkt.

Við meðferð málsins hjá kærunefnd hefur kærandi lagt fram gögn sem ekki lágu fyrir hjá Útlendingastofnun, m.a. afrit af flugseðlum og ljósrit af síðum úr vegabréfi. Af þeim gögnum má ráða að kærandi yfirgaf Ísland þann 5. febrúar sl. og Schengen-svæðið daginn eftir og kom aftur inn á Schengen-svæðið 1. apríl og síðan til landsins 2. apríl sl. Eins og að framan greinir var dvalarleyfisumsókn kæranda móttekin af Útlendingastofnun þann 6. febrúar sl. og tók stofnunin ákvörðun í máli hans þann 11. mars sl. Samkvæmt framansögðu var kærandi ekki á landinu þegar hann lagði fram fyrrgreinda dvalarleyfisumsókn í skilningi 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga og hafði ekki komið til landsins þegar Útlendingastofnun tók ákvörðun í málinu. Voru því ekki skilyrði til þess að hafna umsókn kæranda skv. 4. mgr. 51. gr. laganna þegar ákvörðun Útlendingastofnunar var tekin.

Þótt gögn málsins bendi til þess að kærandi sé hér á landi núna telur kærunefnd rétt, í ljósi þessa annmarka sem var á meðferð málsins hjá Útlendingastofnun, að ákvörðun stofnunarinnar verði felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s application.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                            Anna Valbjörg Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum