Hoppa yfir valmynd
30. júní 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Móttaka flóttafólks á árinu 2005

Undirritun
Móttaka flóttafólks á árinu 2005

Félagsmálaráðherra, Árni Magnússon og Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands undirrituðu í dag samning um móttöku flóttafólks á árinu 2005.

Flóttamannaráð hefur lagt til við félagsmálaráðherra að tekið verði á móti u.þ.b. 30 flóttamönnum hingað til lands á árinu 2005 og hefur verið ákveðið að taka á móti flóttafólki frá bæði fyrrum Júgóslavíu og Suður Ameríku.

Í samningnum felst að Rauði krossinn skuldbindur sig til að veita félagsmálaráðuneytinu aðstoð og ráðgjöf vegna móttöku og aðlögunar flóttafólks sem koma til landsins í hópum á árinu 2005 í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnar Íslands þann 31. maí 2005 að fenginni tillögu Flóttamannaráðs.

Í þjónustu Rauða krossins felst meðal annars aðstoð við val á flóttafólki og umsjón með heimferð þeirra til Íslands, kaup á innbúi fyrir fjölskyldurnar og umsjón með stuðningsfjölskyldum. Enn fremur er gert ráð fyrir ríku samstarfi milli Rauða kross Íslands og móttökusveitarfélags.

Undirbúningur flóttamannaráðs miðast við að fólkið komi hingað til lands í ágúst nk., en á næstu vikum fara fulltrúar íslenskra stjórnvalda og Rauða krossins til fyrrum Júgóslavíu annars vegar og hins vegar til Ekvador og Kosta Ríka og taka viðtöl við væntanlega hópa sem hingað munu flytjast.

Fyrstu flóttamannahóparnir komu til Íslands árið 1956 frá Ungverjalandi. Síðan komu hópar árin 1959, 1979, 1982, 1990 og 1991.  Tekið  hefur verið á móti flóttamönnum á ári hverju frá árinu 1996, en ekki var tekið á móti flóttafólki árin 2002 og 2004.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum