Hoppa yfir valmynd
5. janúar 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Fléttan: Einurð innleiðir IPS jafningjaþjálfun á Íslandi

Einurð, í samstarfi við Landspítalann (LSH), Hlutverkasetur, Íslenska ferðaklasann, Lifekeys og IPS International, hlýtur styrk að upphæð 6 m.kr. Verkefnið snýr að innleiðingu IPS jafningjaþjálfunar á Íslandi – stuðningur, þjálfun, nýsköpun, sem eru nýjar áherslur í geðheilbrigðisþjónustu byggðar á valdeflingu og notendamiðaðri þjónustu. Einurð stefnir að innleiðingu IPS (International Peer Support) jafningjastarfs á Íslandi með uppbyggingu á samstarfsvettvangi þar sem boðið verður upp á jafningjaþjálfun, þjálfaraþjálfun og vitundarvakningu um notendamiðaðar lausnir og leiðir til að bæta geðheilbrigðisþjónustu. 

Auk framangreinds hefur IPS samstarfsvettvangur á Íslandi það að markmiði að vinna að fræðslu og forvarnarstarfi á sviði geðræktar innan heilbrigðiskerfisins, atvinnulífsins og samfélagsins, svo sem í grunn- og framhaldsskólum. Þá er áætlað að halda IPS grunnnámskeið víða um land í samstarfi við ferðaþjónustuaðila í Peer Adventure samstarfinu.

IPS þjálfun er í samræmi við nýja stefnu um notendamiðaða nálgun í geðrækt og geðheilbrigðisþjónustu sem byggir á valdeflingu og jafningjastarfi, samanber aðkomu neytenda að geðheilbrigðisteymum og starfi geðsviðs Landspítalans. Jafningjastarf er þekkt úrræði þegar kemur að fíknisjúkdómum og hefur það gefið góða raun. Samstarfsaðilar verkefnisins spá því að mikil spurn verði eftir starfskröftum jafningja er kemur að stuðningi við þá sem glíma við geðrænar áskoranir sem og í vitundarvakningu og forvörnum tengdum geðheilbrigði.

Átta verkefnum hefur verið boðið að ganga til samninga um styrki úr Fléttunni. Fléttan eru styrkir sem veittir eru til nýsköpunarfyrirtækja sem skapað hafa áhugaverðar lausnir til að bæta þjónustu við sjúklinga, stytta biðlista og auka skilvirkni kerfisins almennt. Áhersla var lögð á að úthluta styrkjum sem styðja við innleiðingu nýsköpunar í heilbrigðistækni, -vörum og -þjónustu. Styrkveiting er háð því skilyrði að umsækjendur eigi í nánu samstarfi við stofnanir eða fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu. 

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið kynnir verkefnin átta sem hlotið hafa styrk úr Fléttunni á vef sínum næstu daga.  

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum