Hoppa yfir valmynd
18. september 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 370/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 18. september 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 370/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18060039

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 25. júní 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar frá 11. júní 2018, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar/sambúðar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að veita sér dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar/sambúðar. Þá óskar kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. júní sl., á grundvelli 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. og laga um útlendinga. Ennfremur fer kærandi fram á að fá heimild til að dvelja með löglegum hætti hér á landi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir kærunefndinni, sbr. a. lið. 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi til Útlendingastofnunar vegna fjölskyldusameiningar þann 26. mars 2018. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. júní 2018, var umsókn kæranda synjað. Fyrirsvarsmaður kæranda tók við ákvörðuninni þann 13. júní sl. Hin kærða ákvörðun var kærð til kærunefndar útlendingamála þann 25. júní sl. Greinargerð ásamt gögnum barst kærunefnd þann 9. júlí sl. Með bréfi, dags. 9. júlí sl., féllst kærunefnd á beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til skilyrða fyrir dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar, sbr. 69. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. gæti nánasti aðstandandi útlendings, sem dvelst hér á landi á grundvelli nánar tilgreindra ákvæða laga um útlendinga, fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Maki kæranda hefði hins vegar ekki dvalarleyfi hér á landi á grundvelli þeirra ákvæða sem tiltekin væru í 1. mgr. 69. gr. og ætti því ekki rétt á fjölskyldusameiningu skv. 69. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Krafa kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. júní sl., er byggð á því að stofnunin hafi ekki fylgt ákvæðum laga um útlendinga og 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga. Útlendingastofnun hafi hafnað umsókn kæranda á þeim grundvelli að dvalarleyfi maka hans sé grundvallað á b. lið 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga, þar sem hún og móðir hennar hafi fengið dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga, þar sem móðir hennar hafi […].

Þann 7. september 2018 hafi maki hans dvalið löglega hér á landi í fjögur ár en í 3. mgr. 70. gr. laga um útlendinga sé kveðið á um að heimilt sé fyrir aðstandenda að sækja um fjölskyldusameiningu er einstaklingur sem hafi dvalarleyfi á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga, hafi dvalið með löglegum hætti í landinu í fjögur ár. Þá segi í 5. mgr. 70. gr. að heimilt sé að veita frekari undanþágur frá skilyrðum 3. gr. ef sérstakar aðstæður mæli með því. Kærandi og maki hans hafi verið saman í 5 ár og hafi fengið útgefið leyfi hjá sýslumanni um að giftast og muni þau verða gefin saman þann […].

Þær sérstöku aðstæður sem kærandi og maki hans byggi rétt sinn á séu að samband þeirra hafi staðið yfir í fimm ár og þau muni ganga í hjúskap þann […]. Maki hans hafi dvalið með löglegum hætti á Íslandi í nær 4 ár og það vanti aðeins 2 mánuði upp á að náð sé þeim 4 árum sem kveðið sé á um sem skilyrði í 3. mgr. 70. gr. laga um útlendinga, frá deginum í dag að telja. Verði að telja að reglan lúti meðalhófsreglu stjórnsýslulaga við mat á aðstæðum kæranda og sé fullt tilefni til að veita frekari undanþágur frá skilyrðum 3. mgr. 70. gr. laga um útlendinga.

Maki kæranda hafi flust til Íslands með móður sinni er hún hafi gifst íslenskum manni. Hann hafi […] og í kjölfarið hafi þær mæðgur fengið dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla, sbr. heimild í b. lið 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Maki kæranda hafi verið […]. Hún hafi aldrei gerst brotleg við lög, stundað nám, lært íslensku og greitt skatta og gjöld til samfélagsins. Þá hafi hún saknað kærasta síns mikið en hún hafi þurft að lifa fjarri honum í 5 ár. Kærandi hafi komið hingað til lands sem ferðamaður eftir að […]. Í kjölfarið hafi þau ákveðið að sækja um dvalarleyfi fyrir kæranda á grundvelli sambúðar.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar sé tekið fram að þar sem fyrir liggi að synja verði kæranda um dvalarleyfi vegna 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga verði ekki kannað hvort kærandi fullnægi öðrum skilyrðum VIII. kafla. Kærandi telji það ámælisvert að stofnunin skuli í ákvörðun sinni ekki taka sjálfstætt til skoðunar hvort kærandi uppfylli skilyrði 5. mgr. 70. gr. laga um útlendinga, þ.e. um að hægt sé að veita frekari undanþágu frá 3. mgr. ef sérstakar ástæður mæli með því. Vísar kærandi til aðstæðna maka hans og þeirrar staðreyndar að stutt sé í að hún nái því skilyrði laganna að hafa dvalist löglega á Íslandi síðustu 4 árin, sbr. 3. mgr. Því skorti verulega á að málið hafi verið rannsakað til hlítar eða gætt meðalhófs við ákvarðanatökuna.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við útlending sem dvelst hér á landi, sbr. 69. og 70. gr. laga um útlendinga.

Í 69. gr. laga um útlendinga er kveðið á um skilyrði dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laganna getur nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla.

Af greinargerð kæranda má ráða að hann telji að sambúðarmaki kæranda hafi dvalarleyfi hér á landi á grundvelli b-liðar 7. mgr. 70. gr. laga um útlendinga og/eða 78. gr. laganna. Af gögnum málsins, þ.m.t. ljósriti af dvalarleyfisskírteini sambúðarmaka kæranda, er ljóst að dvalarleyfi sambúðarmaka kæranda er grundvallað á því að hún sé barn einstaklings með dvalarleyfi hér á landi, sbr. 71. gr. laga um útlendinga. Henni hafi fyrst verið veitt dvalarleyfi hér á landi þegar hún var barn að aldri og fengið dvalarleyfið endurnýjað á sama grundvelli eftir að hún náði 18 ára aldri eins og heimilt er samkvæmt ákvæðinu og samsvarandi ákvæði í eldri lögum um útlendinga. Því er ljóst að grundvöllur dvalarleyfis sambúðarmaka kæranda er hvorki 70. gr. né 78. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt framansögðu hefur sambúðarmaki kæranda dvalarleyfi á grundvelli 71. gr. laga um útlendinga. Af upptalningu í 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga er ljóst að dvalarleyfi á grundvelli 71. gr. myndar ekki rétt til fjölskyldusameiningar. Kemur því ekki til skoðunar hvernig hin sérstöku skilyrði fyrir dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar sem fram koma í 70. gr. laga um útlendinga falla að atvikum í máli kæranda.

Samkvæmt framansögðu uppfyllir kærandi ekki skilyrði 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga og verður umsókn hans um dvalarleyfi því synjað. Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                              Anna Valbjörg Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum