Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2022 Forsætisráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Landsáætlun um innleiðingu á samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks

Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra og Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra að unnið verði að gerð landsáætlunar um innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þetta er liður í lögfestingu samningsins sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Lögfesting samningsins er á ábyrgð forsætisráðuneytis en málefni fatlaðs fólks eru á verksviði félags- og vinnumarkaðsráðuneytis sem mun því fá það hlutverk að hafa yfirumsjón með verkefninu. Unnið verður í víðtæku samráði og með þátttöku fatlaðs fólks, ráðuneyta, sveitarfélaga, hagsmunasamtaka, einstaklinga og almennings með skipun verkefnastjórnar sem í sitja fulltrúar forsætisráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, mennta- og barnamálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis, innviðaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Öryrkjabandalags Íslands, Geðhjálpar og Þroskahjálpar. Undirbúningur lagafrumvarps um lögfestingu samningsins verði jafnframt á ábyrgð verkefnastjórnar og unnin samhliða gerð landsáætlunar.

Landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður megin verkfæri stjórnvalda í heildstæðri stefnumótun í málaflokki fatlaðs fólks og mun ná til allra þeirra málasviða sem falla undir samninginn. Landsáætlun er ætlað að fela í sér skýra framtíðarsýn, val og skilgreiningu meginmarkmiða sem stefnt skuli að og framsetningu aðgerða til að innleiða samninginn. Byggt verður meðal annars á kortlagningu á fjárhagslegri og faglegri stöðu málaflokksins og skoðun kosta í framþróun þjónustunnar, en undanfarin misseri hefur átt sér stað vinna við fyrsta áfanga endurskoðunar á þjónustu við fatlað fólk, þ.m.t. lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Skýrsla starfshóps um heildarendurskoðun laganna var kynnt í ríkisstjórn 6. maí síðastliðinn.

Markmiðin sem skilgreind verða í landsáætlun munu byggja á greinum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og þeim fylgja síðan áætlun um aðgerðir. Stefnumótunin verður samþætt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og myndar þannig eina heild með markmiðum samningsins. Við setningu markmiðanna verða settir fram mælikvarðar og viðmið þannig að hægt verði að meta hvort markmiðum áætlunarinnar verði náð. Framvindan verður metin á árlegu samráðsþingi.

Gert er ráð fyrir því að stefnumótun og gerð landsáætlunar um innleiðingu samningsins verði skipt upp í tvo áfanga, þ.e. fyrsti áfangi taki til tímabilsins 2022 – 2025 og sá síðari frá 2026 til ársins 2030. Stefnt er að því að leggja fram þingsályktunartillögu um landsáætlunina á Alþingi haustið 2023.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum