Hoppa yfir valmynd
26. október 2011 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Frumvarp um breytingu á siglingalögum til umsagnar

Lagafrumvarp um breytingu á siglingalögum nr. 34/1985 er nú til umsagnar hjá ráðuneytinu. Hægt er að senda inn umsagnir á netfangið [email protected] til 9. nóvember næstkomandi.

Með frumvarpinu er innleidd í íslenska rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/20/EB frá 23. apríl 2009 um tryggingar útgerðarmanna vegna sjókrafna. Markmiðið með henni er að knýja útgerðarmenn til að tryggja sig gegn tjóni sem þeir valda þriðja aðila með skipum sínum. Tilskipunin er til fyllingar alþjóðlegri siglingalöggjöf þar sem að þjóðarrétti hvílir engin almenn skylda á útgerðarmönnum að tryggja sig gegn tjóni sem þeir valda þriðja aðila.

Tilskipunin er hluti af Erika III, þriðja siglingaöryggispakka ESB, þar sem helstu markmiðin eru að fyrirbyggja sjóslys, gera ákveðnar ráðstafanir þegar slys verða og styrkja eftirlit með gæðum skipa.

Tilskipunin tekur til allra skipa sem eru 300 brúttótonn og stærri, með þeirri undantekningu að hún nær ekki til herskipa, aðstoðarskipa sjóherja eða annarra skipa í eigu eða útgerð ríkis sem eru eingöngu starfrækt í þjónustu hins opinbera og ekki í atvinnuskyni. Kveðið er á um það í tilskipuninni að öll skip sem sigla undir fána aðildarríkis í Evrópusambandinu auk allra skipa sem koma í þær hafnir þurfi að hafa ábyrgðartryggingu sem samsvarar efri mörkum þeirrar upphæðar sem mælt er fyrir um í bókun frá 1996 um breytingu á samningnum um takmörkun ábyrgðar á sjóréttarkröfum frá 19. nóvember 1976 (LLMC 1996) (e. Protocol of 1996 to amend the convention on limitation of liability for maritime claims, 1976). Tilskipunin á við þegar skip kemur til hafnar innan lögsögu aðildarríkis. Hinsvegar heimilar hún aðildarríkjum að gera sömu kröfur til skipa sem starfa í landhelgi þeirra í samræmi við reglur þjóðaréttar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira