Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 162/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 30. apríl 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 162/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20010027

 

Kæra [...]

og barna hennar

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 22. janúar 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Albaníu (hér eftir nefnd kærandi), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 17. janúar 2020 um að synja kæranda og börnum hennar, [...]fd. [...] (hér eftir A) og [...] fd. [...] (hér eftir B), um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærendur krefjast þess að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 9. desember 2019. Kærandi og börn hennar komu í viðtöl hjá Útlendingastofnun þann 16. desember 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 17. janúar 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda og börnum hennar um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 22. janúar 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 27. janúar 2020 ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún og börn hennar séu í hættu í heimaríki vegna heimilisofbeldis af hálfu mágkonu sinnar, skort á lögregluvernd, efnahagslegum aðstæðum og að B sé samkynhneigður.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að kærandi og börn hennar séu ekki flóttamenn og þeim skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda og börnum hennar var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í málum barna kæranda kom fram að þau hefðu mætt til viðtals þann 16. desember 2019 ásamt talsmanni sínum. Fram kom að umsóknir barna kærenda væru grundvallaðar á framburði móður þeirra og hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðun móður hefði jafnframt verið tekin afstaða til aðstæðna barna hennar og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í máli móður þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, laga um útlendinga og barnaverndarlaga, að börnum hennar væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja móður sinni til heimaríkis. Börnum kæranda var vísað frá landinu.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra skuli fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð sem lögð var fram til kærunefndar var um málavaxtalýsingu og ástand mannréttindamála í Albaníu vísað í greinargerð sem lögð var fram við málsmeðferð hjá Útlendingastofnun dags. 2. janúar 2020. Þar kemur fram að kærandi sé ekkja og að hún og börn hennar hafi verið búsett á heimili mágkonu kæranda í borginni [...] í heimaríki þeirra. Hafi mágkonan beitt þau andlegu og líkamlegu ofbeldi og væru börn kæranda með líkamlega áverka vegna ofbeldisins. Hafi kærandi og börn hennar ekki átt kost á því að flytja í annað húsnæði vegna efnahagslegra aðstæðna. Kærandi hafi unnið við þrif og umönnun ásamt því að hafa fengið greiddan lágan lífeyri eftir fráfall eiginmanns hennar árið 2013. Kærandi hafi greint frá bágri félagslegri stöðu vegna stöðu sinnar sem ekkju og einstæðrar móður. Þá hafi kærandi greint frá ýmsum heilsufarsvandamálum sem hún glími við. Í greinargerð kæranda kemur einnig fram að sonur hennar, B, sé samkynhneigður. Þegar upp hafi komist um kynhneigð hans hafi hann verið beittur ofbeldi af skólafélögum sínum og m.a. stunginn með hníf í brjóstkassann. Þau hafi ekki treyst sér til þess að leita á sjúkrahús vegna fordóma gegn samkynhneigðum þar í landi. Þá hafi kærandi greint frá því að hún og bæði börn hennar hafi orðið fyrir aðkasti og fordómum frá almenningi vegna þessa.

Kærandi fjallar í greinargerð sinni um ástand mannréttindamála í heimaríki þeirra, m.a. um spillingu stjórnvalda og aðgerðarleysi lögreglu. Þá er fjallað um aðstæður og réttindi barna og hinsegin fólks og vísað til alþjóðlegra skýrslna máli þeirra til stuðnings.

Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við ákvarðanir Útlendingastofnunar, m.a. að ekkert hafi verið fjallað um úrræði fyrir þolendur heimilisofbeldis í [...], nær öll þjónusta við hinsegin fólk og þolendur heimilisofbeldis fari fram í höfuðborginni Tírana og afar erfitt sé fyrir Albani að flytja lögheimili sitt. Kærandi gerir athugasemd við þá takmörkuðu heilsufarsskoðun sem gerð hafi verið hjá Göngudeild sóttvarna en hún hafi aðeins farið í viðtal og fengið lyf. Þegar kærandi hafi reynt að ræða áhyggjur af heilsufari barna sinna hafi hún verið stoppuð af. Þá hafi börn kæranda aðeins undirgengist eina læknisskoðun þar sem þau hafi einungis verið spurð út í líkamlegt heilsufar sitt. Kærandi telji ljóst að nauðsynlegt hefði verið fyrir þau að ræða andlega heilsu sína við heilbrigðisstarfsfólk áður en ákvarðanir yrðu teknar í málum þeirra. Ekkert hafi verið minnst á þá kröfu kæranda, í greinargerð til Útlendingastofnunar, um að hún og börn hennar myndu undirgangast sálfræðimat í ákvörðunum Útlendingastofnunar. Þá gerir kærandi alvarlega athugasemd við það að skautað hafi verið framhjá frásögn sonar hennar um líkamsárásina með því að segja að frásögn hans um umrætt atvik hafi verið óskýr og ónákvæm og yrði því ekki lögð til grundvallar. Þá gerir kærandi athugasemd við framkvæmd viðtalsins við son hennar en af endurriti þess sé ljóst að hann hafi verið spurður afar takmarkaðra spurninga um mjög erfiða lífsreynslu. Fulltrúi Útlendingastofnunar hafi verið í lófa lagið að spyrja B nánar út í atvikið, hafi hann talið að frásögn hans væri óskýr. Þrátt fyrir að B sé barn hafi viðtal við hann ekki verið tekið í Barnahúsi eða af sérþjálfuðum aðila og öllum leiðbeiningarreglum sálfræðinga frá Barnahúsi hafi ekki verið fylgt til þess að skapa öruggt og þægilegt umhverfi í viðtalinu. Ekki hafi verið tekið tillit til þess að B upplifi mögulega skömm vegna kynhneigðar sinnar og glími jafnvel við afleiðingar vegna þessara atburða, s.s. andlega erfiðleika. Eins og áður kom fram hafi B ekki hitt sálfræðing sem hafi getað lagt mat á andlega heilsu hans.

Kærandi krefst þess að henni og börnum hennar verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks leyfis þegar útlendingur er staddur hér á landi og geti sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. vegna heilsufarsvanda, erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti er vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og sérstaklega tekið sem dæmi viðvarandi mannréttindabrot og sú aðstaða að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Þá beri að líta til þess að í umfjöllun um ákvæði 74. gr. sé lagt til að við töku ákvörðunar um þörf fyrir vernd skuli sérstaklega taka tillit til barna og þannig komi til greina að gera minni kröfur til að börn njóti verndar og fái dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laganna.

Með vísan til frásagnar í viðtölum hjá Útlendingastofnun og með tilliti til framangreindra heimilda telji kærandi ljóst að aðstæður fjölskyldunnar geri það að verkum að þau eigi rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í því sambandi megi benda á að þau treysti ekki lögreglu vegna aðstæðna sinna, öðrum yfirvöldum né heilbrigðisstarfsfólki til þess að veita þeim sanngjarna þjónustu og vernd, vegna þeirra fordóma sem fyrirfinnist í samfélaginu. Þá sé andlegt heilsufar þeirra slíkt að heimilt sé að veita þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna heilsufarsvanda þeirra.

Þá beri að líta til hagsmuna barna kæranda og vísar kærandi til 1. mgr. 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og annarra lagaákvæða um að ávallt skuli hafa það sem barni er fyrir bestu að leiðarljósi. Ljóst sé að það sé ekki börnum kæranda fyrir bestu að vera neydd til að flytja aftur á heimili mágkonu kæranda þar sem þau hafi verið beitt líkamlegu og andlegu ofbeldi. Þá sé ljóst að þau eigi á hættu að verða fyrir áreiti og fordómum vegna kynhneigðar B.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað albönskum vegabréfum fyrir sig og börn sín. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi og börn hennar séu albanskir ríkisborgarar.

Réttarstaða barna kæranda

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.

Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að börn þau sem hér um ræðir eru í fylgd móður sinnar og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Albaníu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og er eftirfarandi umfjöllun samantekt á helstu upplýsingum sem þar koma fram og varða mál kæranda og barna hennar:

  • Albania 2019 Report (European Commission, 29. maí 2019);
  • Albania (LGBTI Equal Rights Association for Western Balkans and Turkey, 28. apríl 2016);
  • Albanien – situationen för hbt-personer (Lifos, 14. júlí 2016);
  • Albanien – rätts- och säkerhetssektorn (Lifos, 29. mars 2019);
  • Amnesty International Report 2017/18 – Albania (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Concluding observations on the fourth periodic report of Albania (United Nations Committee on the Elimination of Discrimination against Women, 17. apríl 2019);
  • Country Information and Guidance – Albania: Background information, including actors of protection, and internal relocation (UK Home Office, júlí 2017);
  • Country Policy and Information Note Albania: Domestic abuse and violence against women (United Kingdom: Home Office, desember 2018);
  • Country Policy and Information Note Albania: Sexual orientation and gender identity (United Kingdom: Home Office, desember 2019);
  • Country Reports on Human Rights Practices for 2019 – Albania (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • Freedom in the World 2019 – Albania (Freedom House, 4. febrúar 2019);
  • National Strategy and Action Plan on Gender Equality 2016-2020 (Ministria E Mirёqenies Sociale Dhe Rinisё, 21. október 2016);
  • Nations in Transit 2018 - Albania (Freedom House, 11. apríl 2018);
  • ESPN Thematic Report on National Strategies to Fight Homelessness and Housing Exclusion – Albania (European Commission and European Social Policy Network 12. september 2019);
  • Report of a Home Office Fact-Finding Mission Albania (UK Home Office, 1. febrúar 2018);
  • The World Factbook. Europe: Albania (Central Intelligence Agency, 4. mars 2020);
  • Unicef Albania Country Office Annual Report 2018 (UNICEF, 1. febrúar 2019);
  • Upplýsingar af vefsíðu Human Rights in Democracy Center (https://www.hrdc.al/index.php/en/, sótt 27. mars 2020);
  • Upplýsingar af vefsíðu International Labour Organization(https://www.social-protection.org/gimi/ShowCountryProfile.action?iso=AL, sótt 27. mars 2020) og
  • Wave Country Report 2019 – The situation of Women´s Specialist Support Services in Europe (WAVE – Women against Violence Europe, desember 2019).

Albanía er lýðræðisríki með um þrjár milljónir íbúa. Ríkið gerðist aðili að Evrópuráðinu árið 1995 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu árið 1996. Albanía gerðist aðili að sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2006, flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna 18. ágúst 1992, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi 4. október 1991 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu þann 11. maí 1994. Albanía sótti um aðild að Evrópusambandinu árið 2009 og fékk stöðu sem umsóknarríki í júní 2014. Albanía er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki. Í ljósi þess má ætla að grundvallarmannréttindi séu almennt talin virt af yfirvöldum í landinu.

Í framangreindum gögnum kemur fram að í Albaníu séu ríkjandi íhaldssöm viðhorf gagnvart LGBT+ fólki og það eigi á hættu að verða fyrir fordómum. Hins vegar hafi miklar úrbætur verið gerðar í þessum málefnum á undanförnum árum. Albönsk stjórnvöld hafi samþykkt framsækin lög til verndar LGBT+ fólki og opinberir embættismenn hafa sýnt vilja og getu til að vinna með aðgerðarsinnum að umbótum. Í Albaníu séu í gildi lög sem veiti LGBT+ fólki sérstaka vernd og flokki glæpi gegn þeim sem hatursglæpi. Hins vegar sé lögunum almennt lítið framfylgt. Þrátt fyrir umbætur í málaflokknum herma heimildir jafnframt að einstaklingar mæti fordómum og þekking sé almennt takmörkuð hjá almenningi, sérstaklega í dreifbýli. Dæmi séu um að hatursorðræða og niðrandi umfjöllun sé enn vandamál hjá fjölmiðlum, sérstaklega vefmiðlum. Hafi frjálsu félagasamtökin Aleanca LGBT hvatt einstaklinga til að opinbera ekki samkynhneigð sína vegna þeirra vandkvæða sem geti skapast í kjölfarið í samskiptum við fjölskyldu, vini, atvinnurekendur, leigusala og jafnvel samfélagið í heild. Félagasamtökin LGBT Pro Albania telji að meirihluti samkynhneigðra einstaklinga í Albaníu, um 80%, þori ekki að koma út úr skápnum vegna ótta við hið neikvæða viðhorf sem ríki í albönsku samfélagi gagnvart samkynhneigðum. Þó hafi frjáls félagasamtök lýst ánægju með breytt viðhorf og aukna þekkingu hjá lögreglu á seinustu árum. Þá má ráða af gögnum að LGBT+ fólk eigi auðveldara uppdráttar í höfuðborginni, Tirana, heldur en á landsbyggðinni. Ötullega hafi verið unnið að viðhorfsbreytingu almennings í garð LGBT+ og m.a. hafi samtök hinsegin fólks haldið fyrirlestra fyrir kennara og nemendur með jákvæðum árangri. Í apríl 2015 hafi mennta- og vísindaráðuneytið í Albaníu skrifað undir samstarfssamning varðandi fræðslu menntaskólanema við albönsku félagasamtökin PINK embassy sem berjist fyrir réttindum hinsegin fólks.

Árið 2014 hafi fyrsta athvarfið fyrir heimilislaust hinsegin fólk verið opnað og hafi það verið í notkun síðan. Í mars árið 2019 hafi stjórnvöld sett upp sjóð til þess að styrkja starfsemi athvarfsins. Í ágústlok það ár hafi athvarfið aðstoðað 16 einstaklinga sem höfðu upplifað ofbeldi eða mismunun á grundvelli kynhneigðar þeirra eða kynvitundar. Þá kemur fram í framangreindum gögnum að albanska ráðherranefndin hafi í maí 2015 samþykkt aðgerðaráætlun fyrir hinsegin einstaklinga fyrir árin 2016-2020 og í ágúst sama ár hafi forsætisráðherra Albaníu skipað starfshóp um framkvæmd hennar.

Í framangreindum gögnum kemur fram að yfirvöld í Albaníu hafi undanfarin ár unnið að því að uppræta spillingu í löggæslunni og dómsvaldinu. Jafnframt kemur fram að albönsk stjórnvöld hafi tekið mikilvæg skref til að auka vernd borgara sinna og að Albaníu hafi miðað áfram í málefnum er snerti réttarkerfið og frelsi og öryggi borgara landsins. Þá hafi laun lögreglumanna verið hækkuð og mikil endurnýjun hafi átt sér stað í lögregluliði landsins auk þess sem yfirvöld sæki lögreglumenn til saka vegna brota í starfi. Þá hafi stjórnvöld gripið til tæknilegra aðgerða til þess að stemma stigu við afbrotum í starfi á borð við að láta lögreglumenn bera myndavélar og gera greiðslur umferðasekta rafrænar. Fram kemur að sett hafi verið á fót þjónusta sem heyri undir albanska innanríkisráðuneytið sem geri borgurunum kleift að senda inn kvartanir vegna spillingarmála í eigin persónu eða símleiðis. Einnig sé starfrækt vefgátt á vegum yfirvalda þar sem borgarar geti tilkynnt misferli opinberra starfsmanna. Samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2019 hafi kvörtunarþjónustu innanríkisráðuneytisins borist fjöldi kvartana varðandi spillingu innan lögreglu sem hafi leitt til þess að lögreglumenn hafi sætt agaviðurlögum og í sumum tilvikum hlotið refsingu. Árið 2019 hafi albanski umboðsmaðurinn (a. avokati i popullit) einnig tekið til meðferðar kvartanir vegna brota lögreglumanna í starfi og þá aðallega vegna vandamála tengdum handtökum,varðhaldi og aðgerðum lögreglu vegna mótmæla.

Fram kemur í ofangreindum gögnum að á síðastliðnum árum hafi yfirvöld í Albaníu endurskoðað bæði framkvæmd og lagaumhverfi til verndar þolendum heimilisofbeldis en það sé alvarlegt, útbreitt og rótgróið vandamál í Albaníu og beinist ofbeldið aðallega gegn konum. Árið 2012 hafi albönskum hegningarlögum verið breytt á þá leið að nú sé þar að finna sérstakt ákvæði um heimilisofbeldi. Brot á ákvæðinu varði allt að fimm ára fangelsi. Í kjölfarið hafi átt sér stað ýmsar umbætur hjá yfirvöldum í málum er varði heimilisofbeldi. Ákvæðum um heimilisofbeldi, eltihrella og nauðgun í hjónabandi hafi verið bætt inn í refsilöggjöf landsins. Í kjölfarið hafi nokkur fjöldi sakamála vegna þessara ákvæða farið fyrir dómstóla og nálgunarbönn verið gefin út. Í heimildum kemur fram að ferill heimilisofbeldismála innan albönsku lögreglunnar sé vel skipulagður. Það sé tiltekin miðlæg deild innan lögreglunnar sem sjái um barnaverndar- og heimilisofbeldismál. Albaníu sé skipt í svæði og hvert svæði hafi slíka miðlæga deild sem sjái um þennan málaflokk. Þolendur heimilisofbeldis eigi því að geta treyst þrepaskiptu kerfi lögreglunnar í þessum efnum og geti leitað til æðra stjórnvalds ef aðilar hjá lægra stjórnvaldi sinni ekki sínum störfum með fullnægjandi hætti. Félagslega kerfið í Albaníu hafi einnig gengið í gegnum ýmsar breytingar á undanförnum árum og sé því ætlað að tryggja einstaklingum sem á þurfi að halda fjárhagslega aðstoð frá ríki og/eða sveitarfélögum. Þá hafi verið komið á fót kvennaathvörfum til verndar þolendum heimilisofbeldis. Í skýrslu Women Against Violence Europe frá árinu 2018 kemur fram að starfrækt séu tíu kvennaathvörf í Albaníu og séu þau staðsett í stærstu borgum landsins, þar á meðal í [...]. Þrátt fyrir þessar umbætur í umræddum málaflokki sé ljóst að málarekstur gangi oft hægt, frestir séu ekki alltaf virtir sem skyldi af dómstólum og lögregluyfirvöld skorti á tíðum þá þjálfun sem þurfi til að eiga við mál af þessu tagi. Þá hafi þolendum heimilisofbeldis verið tryggð aukin réttarvernd og réttarúrræði með breytingu á lögum nr. 46/2018 um aðgerðir vegna heimilisofbeldis. Jafnframt hafi með lögum um félagsleg húsnæði nr. 22/2018 verið kveðið sérstaklega á um rétt þolenda heimilisofbeldis til félagslegs húsnæðis. Að öllu þessu virtu er því ljóst að yfirvöld í Albaníu hafa unnið markvisst að því að bæta framkvæmd og lagaumhverfi vegna heimilisofbeldismála. Frjáls félagasamtök bjóði upp á lagalega aðstoð og sálfræðiþjónustu fyrir konur sem séu þolendur ofbeldis og þá séu starfandi átta frjáls félagasamtök á vegum samtaka um eflingu albanskra kvenna (e. Albanian Women´s Empowerment Network) sem starfi með það að markmiði að verja mannréttindi kvenna í albönsku samfélagi og efla stöðu þeirra í samfélaginu.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að atvinnuleysi sé mikið í Albaníu en landið hafi almennt náð að viðhalda jákvæðum hagvexti og fjárhagslegum stöðugleika þrátt fyrir viðvarandi efnahagserfiðleika. Í skýrslu Landinfo kemur fram að hæst hlutfall kvenna á albönskum vinnumarkaði séu fráskildar konur og ekkjur. Þá sé algengt að einstæðar mæður skilji börn sín eftir hjá foreldrum á meðan þær sæki vinnu. Albönsk stjórnvöld hafi, m.a. í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar, unnið að úrbótum í atvinnumálum. Einnig hafi verið unnið að því að bæta félagslega aðstoð fyrir þá sem þess þarfnist. Þeir sem eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum geti því leitað eftir aðstoð frá því sveitarfélagi sem þeir séu búsettir í. Þá banni vinnulöggjöf mismunun starfsmanna á grundvelli kynþáttar, húðlitar, kyns, aldurs, fötlunar, stjórnmálaskoðana, tungumáls, þjóðernis, trúar, fjölskyldu, veikinda og þjóðfélagsstöðu. Jafnframt standi tekjulágum fjölskyldum og einstaklingum til boða fjárhagsleg aðstoð frá ríkinu auk þess sem borgarar ríkisins eigi rétt á félagslegu húsnæði að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Í skýrslu Utrikesdepartementet frá febrúar 2019 kemur fram að skólaskylda sé lögbundin fram að 16 ára aldri og sé menntun gjaldfrjáls samkvæmt lögum. Samkvæmt Unesco sé skráning barna í grunnskóla um 95 % en um 82 % einstaklinga skrái sig í framhaldsnám. Samkvæmt albönskum heilbrigðislögum eigi íbúar landsins rétt á almennri heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt lögunum skuli heilbrigðisyfirvöld m.a. kynna og tryggja jafnan rétt allra að heilbrigðisþjónustu. Undir þá þjónustu sem íbúar eigi rétt á falli m.a. geðheilbrigðisþjónusta.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi hefur borið fyrir sig að hún og börn sín séu í hættu í heimaríki vegna heimilisofbeldis af hálfu mágkonu hennar og vegna þess að B sé samkynhneigður. Hafi B þurft að þola áreiti og ofbeldi vegna kynhneigðar sinnar og hafi systir hans verið áreitt af sömu ástæðu. Þá geti kærandi og börn hennar hvorki skipt um húsnæði né flutt á annan stað í Albaníu vegna efnahagslegra aðstæðna. Þau geti ekki leitað til lögreglu eða annarra yfirvalda vegna fordóma og spillingar.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hún og börn hennar hafi sætt ofsóknum eða að þau óttist ofsóknir af hálfu albanskra yfirvalda sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi og börn hennar eigi þær á hættu.

Kærandi gerir í greinargerð sinni athugasemdir við framkvæmd viðtals Útlendingastofnunar við B. Það er mat kærunefndar að hafi fulltrúa stofnunarinnar fundist frásögn B vera óskýr um ákveðin atriði hafi honum borið að spyrja B nánar út í þau atriði í samræmi við 2. mgr. 28. gr. laga um útlendinga. Verður B því látinn njóta vafans hvað varðar frásögn hans um það ofbeldi sem hann kveðst hafa orðið fyrir vegna kynhneigðar sinnar og verður hún því lögð til grundvallar í málinu. Það er hins vegar mat kærunefndar að þeir atburðir sem kærandi og börn hennar hafi lýst nái ekki því alvarleikastigi að teljast brot á grundvallarmannréttindum. Þá hefur kærunefnd litið til gagna sem benda til þess að miklar úrbætur hafi verið gerðar í málefnum LGBT+ fólks í Albaníu á undanförnum árum sem birtist bæði í aukinni lagavernd og fræðslu. Í því ljósi er það mat kærunefndar að þótt litið sé heildstætt á það áreiti og ofbeldi sem sonur kæranda hefur lýst nái það ekki því stigi að teljist ofsóknir.

Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að sú mismunun sem upplýsingar í framangreindum skýrslum gefa til kynna að kærandi og börn hennar geti orðið fyrir í heimaríki, vegna kynhneigðar B, sé hvorki þess eðlis að hún feli í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum kæranda né að hún hafi eða geti haft sömu eða sambærileg áhrif á kæranda og börn hennar og slík brot, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi hefur borið fyrir sig að börn hennar hafi verið beitt ofbeldi af hálfu mágkonu hennar á heimili þeirra. Samræmi var í frásögnum kæranda og barna hennar af heimilisofbeldinu og telur kærunefnd ekki ástæðu til að draga það í efa. Eins og greint hefur verið frá hér að ofan hafa albönsk stjórnvöld á undanförnum árum beitt sér fyrir umbótum í heimilisofbeldismálum, nálgunarbönnum sé beitt í auknum mæli og þá séu athvörf til staðar í stærstu borgum Albaníu, þ. á m. í [...], fyrir þolendur heimilisofbeldis.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar er það mat kærunefndar að þeir ríkisborgarar Albaníu sem telja á réttindum sínum brotið geti leitað aðstoðar og verndar yfirvalda þar í landi og fengið lausn sinna mála. Þá sé til staðar kerfi í Albaníu sem þeir geti leitað til sem telji sig hafa verið beitta órétti af lögreglu. Hægt sé m.a. að leita til stofnunar sem heyri undir innanríkisráðuneyti landsins sem og embættis umboðsmanns í ríkinu. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar má ráða að þessi úrræði séu almennt raunhæf og árangursrík en þó má ráða af þeim að LGBT+ fólk verði fyrir einhverri mismunun þegar þau leita sér slíkrar þjónustu. Að mati kærunefndar hefur kærandi ekki sýnt fram á að stjórnvöld í heimaríki hennar skorti vilja eða getu til að veita kæranda og börnum hennar viðeigandi vernd gegn athöfnum sem feli í sér hótanir, áreiti eða ofbeldi, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir, sbr. 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal, við mat skv. 1. og 2. mgr. 37. gr. í málum sem varða börn, fylgdarlaus sem önnur, hafa það sem er barninu fyrir bestu að leiðarljósi. Í ákvæðinu kemur fram að við það mat beri að líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis barnsins, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skal tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Útlendingastofnun tók viðtal við börn kæranda þar sem þau lýstu aðstæðum sínum í heimaríki og ástæðum flótta. Að mati kærunefndar var sjónarmiðum A og B nægilega komið á framfæri með framburði þeirra, móður þeirra og hagsmunagæslu talsmanns. Leggur kærunefnd mat á hagsmuni A og B samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga með hliðsjón af upplýsingum úr fyrirliggjandi gögnum mála þeirra, móður þeirra og framangreindum aðstæðum í heimaríki þeirra. Við það mat horfir kærunefnd m.a. til þess að þau börn sem um ræðir eru í fylgd með móður sinni og njóta stuðnings hennar. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til annars en að kærandi, móðir A og B, sé við góða heilsu og vinnufær. Þá hefur kærandi greint frá því að hún hafi unnið við að þrífa hús og fengið lífeyri eftir fráfall eiginmanns síns. Með vísan til framangreinds leggur kærunefnd til grundvallar að kærandi sé fær um að annast og framfleyta börnum sínum í heimaríki. Samkvæmt gögnum málsins og gögnum um aðstæður í Albaníu munu A og B hafa aðgang að mennta- og heilbrigðiskerfi þar í landi. Í málinu liggur ekki fyrir að börnin hafi sérþarfir sem taka þurfi tillit til. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar, að teknu tilliti til sjónarmiða um öryggi, velferð og félagslegan þroska A og B, að það sé þeim fyrir bestu að fylgja móður sinni til heimaríkis.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hún og börn hennar hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 4. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefndin því ljóst að kærandi og börn hennar uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling. Við mat á hvort aðstæður kærenda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærendur séu í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærendur verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kærenda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður kæranda og barna hennar þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi og börn hennar uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi og börn hennar uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Krafa kæranda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða er m.a. byggð á því að börn hennar hafi þurft að þola áreiti og ofbeldi af hálfu mágkonu kæranda sem þau hafi búið hjá. Þá sé sonur kæranda samkynhneigður og hafi orðið fyrir áreiti og ofbeldi vegna þess og dóttir hennar hafi orðið fyrir áreiti af sömu ástæðu. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir einnig í athugasemdunum að með erfiðum félagslegum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með vísan til umfjöllunar að ofan um aðstæður í heimaríki kæranda og barna hennar einkum hvað varðar stöðu hinsegin fólks og aðstoð og vernd yfirvalda vegna heimilisofbeldis telur kærunefnd ekki ástæðu til að veita þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða af framangreindri málsástæðu.

Kærandi kveður að hún og börn hennar búi við bágar félagslegar aðstæður og þau hafi ekki í önnur hús að venda vegna efnahagslegra aðstæðna. Þá eigi kærandi fáa ættingja, aðeins einn bróður sem hafi minnkað samskipti við þau eftir að hann hafi frétt af kynhneigð B því njóti þau ekki stuðnings frá fjölskyldu í heimaríki. Kærandi kvaðst hafa unnið við þrif í heimaríki og hafi fengið greiddan lífeyri vegna andláts maka hennar. Börn kæranda kváðu að þau hafi stundað nám og ekki skort mat né klæði. Samkvæmt gögnum um Albaníu stendur tekjulágum fjölskyldum og öðrum viðkvæmum hópum til boða félagsleg þjónusta og aðstoð frá stjórnvöldum. Þá hafi með lögum frá árinu 2018 verið kveðið sérstaklega á um rétt þolenda heimilisofbeldis til félagslegs húsnæðis. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að ekkert bendi til annars en að kærandi og börn hennar geti leitað viðeiganda úrræða við aðstæðum sínum.

Þá eru kröfur kæranda og barna hennar um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða einnig byggðar á því að þau hafi þörf fyrir vernd vegna heilsufarsástæðna en andlegt ástand þeirra sé bágborið. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans. Í gögnum málsins liggja fyrir samskiptaseðlar frá Göngudeild sóttvarna dags. 8. og 10. janúar 2020. Í nótum frá göngudeild sóttvarna kemur fram að kærandi glími við háan blóðþrýsting og kólesteról í blóði og hafi fengið lyf við því bæði hér á landi sem og í heimaríki. Þá hafi A og B útbrot á húð sem mögulega stafi af ofnæmi fengu þau ávísað kremi og lyfjum við því. Af framangreindu verður ekki séð að kærandi og börn hennar séu í meðferð hér á landi sem sé læknisfræðilega óforsvaranlegt að rjúfa eða glími við alvarleg veikindi. Þá má af skýrslum um heimaríki þeirra ráða að þeim standi til boða heilbrigðisþjónusta þar í landi, þ. á m. geðheilbrigðisþjónusta.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kæranda og barna hennar í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hún og börn hennar hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Við þetta mat hefur kærunefnd litið til hagsmuna barna kæranda í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga og 3. mgr. 25. sömu laga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda og barna hennar í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda og börnum hennar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kæranda og barna hennar. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda og barna hennar þangað.

Athugasemdir við málsmeðferð og ákvörðun Útlendingastofnunar

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Þá verður efni rökstuðnings ákvarðananna að endurspegla þessi sjónarmið enda segir m.a. í 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun byggir á, meginsjónarmiða sem ráðandi voru við mat og málsatvika sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins.

Ekki er að sjá að Útlendingastofnun hafi rannsakað á fullnægjandi hátt hver staða þolenda heimilisofbeldis og LGBT+ fólks er í heimabæ kæranda og barna hennar, [...]. Kærunefnd hefur bætt úr þessum ágalla á kærustigi. Kærunefnd telur ljóst að þessi skortur á rannsókn hafi ekki leitt til rangrar niðurstöðu við afgreiðslu þess þáttar umsóknar kæranda og barna hennar er varðar alþjóðlega vernd og dvalarleyfi og því er ekki ástæða til að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi að þessu leyti.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi og börn hennar komu hingað til lands 9. desember 2019 og sóttu um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsóknum hennar og barna hennar um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hafa þau því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn þeirra um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda og börnum hennar því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda höfðu þau verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsókna þeirra hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi og börn hennar eru við ágæta heilsu og koma frá öruggu upprunaríki. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 7 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hún yfirgefur ekki landið innan frests kann að vera heimilt að brottvísa henni. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og barna hennar.

Athygli er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Kærunefnd bendir á að með reglugerð nr. 305/2020, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, setti ráðherra bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að útlendingur sem dvaldi hér á landi fyrir 20. mars 2020 í samræmi við 8. gr. reglugerðarinnar og 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga, en hefur ekki komist til síns heima vegna ferðatakmarkana, sóttkvíar eða einangrunar er heimilt að dvelja hér á landi án dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar til og með 1. júní 2020. Í 2. mgr. ákvæðisins er þó vísað til þess að framangreint komi ekki í veg fyrir frávísun eða brottvísun þeirra sem voru í ólögmætri dvöl fyrir 20. mars 2020 eða frávísun eða brottvísun á öðrum grundvelli samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga. 

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og barna hennar eru staðfestar. Lagt er fyrir kæranda og börn hennar að hverfa af landi brott. Kæranda og börnum hennar er veittur 7 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug.

The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellant and her children are affirmed. The appellant and her children are requested to leave the country. The appellant and her children have 7 days to leave the country voluntarily.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Bjarnveig Eiríksdóttir                                      Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum