Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Uppsafnaður heildarkostnaður 26,7 milljarðar á næstu árum

Siv Friðleifsdóttir mælti í dag fyrir umtalsverðum breytingum á lögum um almannatryggingar og málefni aldraðra sem koma til framkvæmda á næstu misserum. Frumvarpið er samið og lagt fram í framhaldi af tillögum nefndar sem skipuð var af forsætisráðherra á sínum tíma til þess að fjalla meðal annars um búsetu- og þjónustumál aldraðra og til að skoða m.a. fyrirkomulag tekjutengingar bóta. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram mat á því hve mikið aðgerðir ríkisstjórnarinnar kosta umtalsverða fjármuni á næstu árum: “Heildarkostnaður ríkissjóðs, uppsafnað, vegna lífeyristrygginga til ársins 2010 vegna samkomulags ríkisstjórnarinnar og fulltrúa aldraðra er áætlaður 26,7 milljarðar króna. Tekur sá kostnaður bæði til elli- og örorkulífeyrisþega og einnig sérstakra hækkana lífeyris á árinu 2006. Stærsti hluti kostnaðarins fellur þó til ellilífeyrisþega eða samtals 18 milljarðar króna til ársins 2010.”

Í framsöguræðu sinni gerði ráðherra grein fyrir helstu þáttum frumvarpsins og greindi frá því að hún hefði í dag undirritað reglugerð sem ætlað er að koma til móts við kröfur samtaka aldraðra og öryrkja um að milda framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins að því er varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum og innheimtu á ofgreiddum bótum. Í umræðunum í dag gerði ráðherra grein fyrir reglugerðinni með þessum orðum: “Ég tel rétt að lokum að greina frá því að ég hef undirritað reglugerð sem breytir reglugerð nr. 939/2003 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Reglugerðin er nátengd frumvarpinu og er henni ætlað að milda framkvæmdina hjá Tryggingastofnun ríkisins að því er varðar ofgreiddar tekjutengdar bætur.  Leitað var eftir áliti starfshóps sem í sátu fulltrúar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, Tryggingastofnunar ríkisins, ríkisskattstjóra, Landssambands eldri borgara og Öryrkjabandalags Íslands á því hvernig hægt væri að bæta og milda framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins. Einnig var leitað eftir áliti nefndar forsætisráðherra sem Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari stýrði.  Í framhaldi af því voru lagðar fram tillögur sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið bar undir samtök aldraðra og öryrkja.  Þær tillögur voru síðan samþykktar á fundi ríkisstjórnarinnar 25. apríl síðast liðinn. Tryggingastofnun ríkisins er skylt samkvæmt lögum að greiða réttar bætur til réttra aðila og á réttum tíma.  Til þess að stofnunin geti framkvæmt þessa skyldu sína þarf hún á hverjum tíma að hafa réttar upplýsingar um þau atriði sem skipta máli við ákvörðun bótaréttar og útreikning bóta.  Ef um er að ræða tekjutengdar bætur þá greiðir stofnunin bætur á grundvelli áætlunar og samtímaeftirlits með tekjum lífeyrisþega sem síðan er gerð upp árlega við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.  Við það uppgjör koma í ljós van- eða ofgreiðslur.   Stofnunin greiðir þær bætur sem upp á vantar og innheimtir ofgreiðslur. 

Við þessa framkvæmd ber Tryggingastofnun að fara samkvæmt framangreindri reglugerð en ýmis nýmæli eru í henni. Sem dæmi um þau nýmæli er meðal annars kveðið á um að falla skuli frá innheimtu á ofgreiddum bótum sem nema lægri fjárhæð en 20 þúsund krónum á ári.  Einnig segir í reglugerðinni að þrátt fyrir ofgreiðslu bóta skuli alltaf greiða út elli-, örorku- og endurhæfingarlífeyri sem lífeyrisþegi eigi rétt á nema lífeyrisþeginn semji um annað.  

Þá er í reglugerðinni kveðið á um að ef sýnt sé fram á að innheimta ofgreiðslna verði til þess að einstaklingur hafi heildartekjur sem nema lægri fjárhæð en félagsmálaráðuneytið telur vera lágmarksframfærsluþörf (nú 88.873 kr. á mánuði) skuli Tryggingastofnun að ósk bótaþegans lækka fjárhæð mánaðarlegrar innheimtu þannig að heildartekjur bótaþegans nái þeirri fjárhæð.”

Í athugasemdum með frumvarpinu og í greinargerð eru samandregnar miklar tölulegar upplýsingar um kjör og aðstæður aldraðra.

 

Sjá nánar frumvarp heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra: http://www.althingi.is/altext/133/s/0353.html

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum