Hoppa yfir valmynd
21. mars 2023 Utanríkisráðuneytið

Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna heita auknum stuðningi við fátækustu ríkin næsta áratuginn

Frá ráðstefnunni í Doha. - mynd

Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa skuldbundið sig til að efla stuðning við fátækustu ríki heims næstu tíu árin. Þetta var niðurstaða fimmtu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um fátækustu ríkin, 46 talsins, sem var haldin í Doha í Katar fyrr í mánuðinum. Að ráðstefnunni komu fulltrúar fjölmargra ríkja, þar á meðal Íslands, alþjóðastofnana, einkageirans, borgarasamfélags og ungmenna.

Undir þemanu „Frá möguleikum til velmegunar“ var á ráðstefnunni kappkostað að knýja fram breytingar í þágu þeirra 1,2 milljarðs manna sem búa í fátækustu ríkjunum. Alþjóðasamfélagið lýsti yfir vilja til að endurnýja og styrkja skuldbindingar sínar og byggja upp samstarf til framtíðar.

Að sögn Þórdísar Sigurðardóttur forstöðumanns sendiráðs Íslands í Kampala, sem sótti ráðstefnuna, hafa margar áskoranir hindrað umbætur í fátækustu löndunum á undanförnum árum, þar á meðal heimsfaraldur, loftslagsbreytingar og vaxandi ójöfnuður.

Í aðgerðaáætluninni er gerð grein fyrir yfirgripsmiklum ráðstöfunum til að sigrast á kerfislægum áskorunum, draga úr fátækt, efla stuðning við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og byggja upp viðnámsþrótt í þeim löndum sem höllustum fæti standa.

Áætlunin skiptist í sex forgangssvið:

  • Fjárfesta í fólki, uppræta fátækt og byggja upp getu til að skilja engan eftir;
  • Nýta kraft vísinda, tækni og nýsköpunar til að berjast gegn margbreytilegu varnarleysi og til að ná heimsmarkmiðunum;
  • Styðja við skipulagsbreytingar sem stuðla að velsæld;
  • Efla alþjóðaviðskipti fátækustu landanna og styðja svæðisbundið samstarf;
  • Takast á við loftslagsbreytingar og hnignun umhverfis, eftirköst heimsfaraldurs og byggja upp viðnám gegn framtíðaráföllum í þágu áhættuupplýstrar sjálfbærrar þróunar;
  • Virkja alþjóðlega samstöðu, endurnýja alþjóðlegt samstarf og skapandi stjórntæki og stefna að sjálfbærri útskrift úr ríkjahópnum.

Sameinuðu þjóðunum var falið að tryggja samhæfingu til að auðvelda samræmda framkvæmd og samræmi í eftirfylgni og eftirliti með áætluninni á landsvísu, svæðisbundið og á heimsvísu.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum