Hoppa yfir valmynd
4. desember 2017 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Til umsagnar: Frumvarp til breytinga á lögum um einkaleyfi

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið óskar eftir umsögnum um frumvarp til breytinga á lögum nr. 17/1991 um einkaleyfi. Hægt er að senda inn umsagnir um frumvarpið til og með 19. desember nk. á netfangið [email protected] eða í bréfpósti á atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Skúlagötu 4, 101 Reykjavík.

Með frumvarpinu er innleidd í íslensk lög reglugerð Evrópusambandsins nr. 469/2009 um vottorð um viðbótarvernd fyrir lyf ásamt reglugerðum nr. 1901/2006 sbr. reglugerð nr. 1902/2006 þar sem heimilað er að veita mest 6 mánaða framlengingu á viðbótarvottorðum, sé um að ræða lyf fyrir börn. Þá er að finna í frumvarpinu ákvæði til bráðabirgða sem eru þýðing á aðlögunarákvæðum úr ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2017 en þau koma til þar sem nefndar gerðir taka gildi nokkru síðar í EFTA ríkjunum en í ESB ríkjunum.

Þá eru einnig lagðar til frekari breytingar á einkaleyfalögunum sem eiga að auka skýrleika ásamt því að samræma betur íslensku lögin við einkaleyfalöggjöf á Norðurlöndunum sem og Evrópska einkaleyfasamninginn (EPC). Þar á meðal er flutningur ákvæða úr reglugerð um einkaleyfi, nr. 477/2012,  í lögin svo sem varðandi hlutun og sundurgreiningu umsókna, beiðni um takmörkun einkaleyfis og varðandi ferli við endurveitingu réttinda. Einnig er að finna í frumvarpinu breytingar til skýringa á málsmeðferð við veitingu einkaleyfa og það nýmæli að veita einkaleyfi á ensku, þó þannig að kröfur séu ávallt þýddar yfir á íslensku. Þá eru lagðar til breytingar á andmælaferli vegna einkaleyfa og tekið upp sérstakt gjald vegna málsmeðferðar við andmæli ásamt því að takmörkun einkaleyfis taki gildi frá upphafi verndartíma í stað þess að taka gildi við birtingu tilkynningar um takmörkun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum