Hoppa yfir valmynd
3. október 2018 Utanríkisráðuneytið

Brexit í brennidepli á fundi utanríkisráðherra Íslands og Bretlands

Jeremy Hunt og Guðlaugur Þór Þórðarson á fundi þeirra í Birmingham í morgun - myndUtanríkisráðuneytið
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, ræddu útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, fríverslunarmál og tvíhliða samskipti á fundi sínum í Birmingham í dag. Þetta er fyrsti tvíhliða fundur ráðherranna síðan Hunt tók við embætti sínu í sumar. 

Guðlaugur Þór hefur undanfarna daga verið í Frakklandi þar sem hann átti fundi með yfirmönnum alþjóðastofnana og frönskum ráðamönnum, þar á meðal Jean-Yves Le Drian utanríkisráðherra. Í dag hitti hann hins vegar Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, í Birmingham á Englandi þar sem landsþing breska Íhaldsflokksins stendur yfir. Þetta er fyrsti tvíhliða fundur ráðherranna síðan Hunt tók við embætti af Boris Johnson í júlí síðastliðnum. 

„Þetta var góður og gagnlegur fundur. Við Hunt bárum saman bækur okkar varðandi útgönguferli Breta úr Evrópusambandinu. Það var afar áhugavert að heyra hans sýn á stöðu og horfur hvað Brexit snertir. Bretland er eitt mikilvægasta samstarfsríki okkar, bæði með tilliti til viðskipta og stjórnmála, og því skiptir miklu að eiga gott og milliliðalaust samband við ráðamenn þar. Fundurinn í dag er liður í því,“ sagði Guðlaugur Þór eftir fund þeirra Hunt. 

Í tengslum við Brexit ræddu ráðherrarnir samstarf EFTA-ríkjanna og samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og undirstrikaði Guðlaugur Þór mikilvægi hvors tveggja fyrir Ísland. Um leið áréttaði hann þýðingu Bretlands fyrir íslenska útflytjendur, ekki síst á sviði sjávarafurða, og nauðsyn þess að tryggja áfram óhindruð viðskipti til framtíðar eftir viðskilnað ESB og Bretlands. Auk þess ræddu ráðherrarnir tvíhliða samskipti Íslands og Bretlands frá ýmsum hliðum. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira