Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2019 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 4/2019 - Úrskurður

Mál nr. 4/2019

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

A

gegn

B

 

Jöfn meðferð á vinnumarkaði. Kröfur um íslenskukunnáttu í starfi.

Kærði starfrækir sendibílaþjónustu. Ágreiningslaust er að þar sem kærandi er hluthafi í kærða getur hann sem verktaki ekið bifreiðum undir merkjum kærða en kærandi greiðir þá gjald til kærða vegna hverrar bifreiðar. Þannig ræður kærandi til sín starfsfólk sem sinnir starfi bílstjóra undir merkjum kærða en verkefnum er úthlutað frá kærða. Samkvæmt 22. gr. afgreiðslureglna kærða skulu allir bílstjórar tala, skilja og skrifa íslensku. Með vísan til þessarar reglu taldi kærði að starfsmaður af erlendu bergi brotinn, sem kærandi réði til þess að sinna starfi bílstjóra undir merkjum kærða, væri ekki hæfur til að gegna starfinu vegna skorts á íslenskukunnáttu. Í niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála var rakið að samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði teldist mismunandi meðferð á grundvelli tungumálakunnáttu ekki brjóta gegn lögunum ef hún byggðist á eðli viðkomandi starfsemi eða því samhengi sem til staðar væri þar sem starfsemin færi fram, enda hefðu kröfur um slíka starfstengda eiginleika lögmætan tilgang og gengju ekki lengra en nauðsyn krefði. Að mati kærunefndarinnar mátti fallast á það með kærða að í starfsemi á borð við þá sem sendibílstjórar sinna gætu skýr og skilvirk samskipti reynst mikilvæg til að inna mætti af hendi umsamda þjónustu með fullnægjandi hætti. Áskilnaður um vissa íslenskukunnáttu sendibílstjóra teldist því þjóna lögmætum tilgangi í skilningi 11. gr. laganna. Álitaefnið sem eftir stæði væri hversu langt kærði mætti ganga með slíkum kröfum. Lagði kærunefndin meðal annars til grundvallar yfirlýsingu kæranda þess efnis að viðkomandi starfsmaður hefði á umræddum tíma ekki talað, skilið eða skrifað íslensku. Var því að mati nefndarinnar ekki unnt að draga þá ályktun að réttur hefði verið brotinn á kæranda eða starfsmanni hans.

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 30. ágúst 2019 er tekið fyrir mál nr. 4/2019 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
 2. Með kæru, dagsettri 20. maí 2019, sem móttekin var 23. sama mánaðar, kærði A, ákvörðun B, um að meina kæranda að nýta C, nýlega ráðinn erlendan starfsmann hans, í störfum á vegum kærða, með vísan til skorts á íslenskukunnáttu umrædds starfsmanns. Kærandi telur að með þessari ákvörðun hafi kærði brotið gegn lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.
 3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 24. maí 2019. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 18. júní 2019, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 20. júní 2019.
 4. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 3. júlí 2019, með athugasemdum við greinargerð kærða og sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 9. júlí 2019. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 23. júlí 2019, og sem kynnt var kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 12. ágúst 2019. Frekari athugasemdir bárust ekki.

  MÁLAVEXTIR

 5. Kærði starfrækir sendibílaþjónustu. Ágreiningslaust er að þar sem kærandi er hluthafi í kærða getur hann sem verktaki ekið bifreiðum undir merkjum kærða en kærandi greiðir þá gjald til kærða vegna hverrar bifreiðar. Þannig ræður kærandi til sín starfsfólk sem sinnir starfi bílstjóra undir merkjum kærða en verkefnum er úthlutað frá kærða. Samkvæmt 22. gr. afgreiðslureglna kærða skulu allir bílstjórar tala, skilja og skrifa íslensku. Með vísan til þessarar reglu taldi kærði að starfsmaður af erlendu bergi brotinn, sem kærandi réði til þess að sinna starfi bílstjóra undir merkjum kærða, væri ekki hæfur til að gegna starfinu vegna skorts á íslenskukunnáttu. Með bréfi kæranda, dagsettu 4. mars 2019, fór hann fram á að umrætt ákvæði yrði fellt úr afgreiðslureglum kærða. Í bréfi kærða, dagsettu 13. mars 2019, kemur fram að skilyrðið hafi verið sett af því tilefni að full þörf sé á því að sendibílstjórar geti átt samskipti við viðskiptavini kærða á íslensku.

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA

 6. Í kæru segir að tveir pólskir starfsmenn sinni starfi bílstjóra hjá kæranda. Vegna flutnings annars þeirra til Póllands hafi hann þurft að ráða nýjan starfsmann. Hann hafi fengið tiltekinn erlendan einstakling til starfans sem hafi reynslu af akstri hér á landi. Sá starfsmaður tali ensku, enda hafi hann búið í Englandi í tvö ár og starfað þar. Jafnframt sé hann með meirapróf sem tekið hafi verið hér á landi. Hann uppfylli ekki skilyrði starfsreglna kærða hvað varði skilning, ritun og talfærni í íslensku og hafi honum því verið meinað að aka fyrir kærða.
 7. Umræddur starfskraftur hafi víðtæka reynslu af akstri á höfuðborgarsvæðinu, þekki vel til staðhátta og sé með meirapróf. Eina ástæðan fyrir því að honum hafi verið meinað að starfa sem bílstjóri hjá kærða hafi því verið sú staðreynd að hann tali ekki, skilji ekki og skrifi ekki íslensku. Þess beri að geta að kærandi hafi skráð umræddan starfsmann á íslenskunámskeið en það hafi engu breytt um afstöðu stjórnarformanns kærða þar sem ekki sé uppfyllt skilyrði 22. gr. umræddra starfsreglna.
 8. Kærandi telji umrætt ákvæði brjóta í bága við lög, sér í lagi 65. gr., sbr. 75. gr., stjórnarskrárinnar, 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 4. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Þá gangi ákvæðið í berhögg við lög nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði. Í frumvarpi þeirra laga komi fram að tilgangur þeirra sé sá að stemma stigu við mismunun á atvinnumarkaði. Í 1. gr. laganna segi að lögin gildi um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, svo sem varði aðgengi að störfum, sjálfstæðri atvinnustarfsemi eða starfsgreinum, þ.m.t. við ráðningar og framgang í starfi. Í 2. gr. laganna komi fram að tilgangur laganna sé að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum sem um geti í 1. gr. laganna. Kærandi telji að 22. gr. starfsreglna kærða brjóti í bága við 7. gr. laganna, sbr. 1. gr. og 3. tölul. 3. gr. sömu laga.
 9. Því sé mótmælt að ákvæði starfsreglnanna sé innan marka 11. gr. laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, enda sé sú lagagrein í raun undantekning frá meginreglu laganna og túlkuð þröngt eftir því, sbr. athugasemdir í frumvarpi. Í lagaákvæðinu sé talað um að mismunandi meðferð sé heimil byggi sú meðferð á eðli viðkomandi starfsemi eða því samhengi sem til staðar sé þar sem starfsemin fari fram, enda hafi kröfur um slíka starfstengda eiginleika lögmætan tilgang og gangi ekki lengra en nauðsyn krefji. Rauða línan sé sú að gæta þurfi jafnréttis svo fremi sem eðli starfsins standi því ekki í vegi. Sem dæmi megi nefna nauðsyn þess að íslenskukennari tali, skilji og skrifi íslensku en án þess gæti viðkomandi ekki gegnt starfinu sökum eðli þess. Það að bílstjóri sem starfi við að aka sendingum til viðskiptavina þurfi að uppfylla þann áskilnað sem komi fram í 22. gr. starfsreglna kærða brjóti gegn lögum nr. 86/2018, enda sú kunnátta sem krafist sé samkvæmt ákvæðinu komin út fyrir vikmörk 11. gr. laganna. Þá komi enn fremur fram í athugasemdum við 11. gr. frumvarpsins að í því skyni að stuðla að jafnri meðferð á vinnumarkaði hafi löggjafinn lagt til að heimilt væri að beita sértækum tímabundnum aðgerðum. Í þessu sambandi sé átt við sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlað sé að bæta stöðu þeirra einstaklinga sem standi höllum fæti á ákveðnum sviðum vinnumarkaðarins vegna einhverra þeirra þátta sem um geti í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Þetta sé í samræmi við tilskipun 78/2000EB. Slíkar aðgerðir gætu til dæmis falist í sérstakri þjálfun sem ætluð væri til að undirbúa hlutaðeigandi einstaklinga til að sinna tilteknum störfum eða í auglýsingu þar sem þeir væru sérstaklega hvattir til að sækja um tiltekin störf og þeim boðin aðstoð ef með þyrfti. Aðstoðin gæti til dæmis falist í tungumálanámskeiði þar sem áhersla væri lögð á orðaforða innan þeirrar starfsgreinar sem um væri að ræða. Kærandi hafi sent starfsmenn sína á slík námskeið og sé umræddur bílstjóri að sækja slíkt námskeið og sé þegar farinn að skilja sitthvað í tungumálinu. Þessi staðreynd hafi engu breytt um stöðu starfsmannsins þegar fyrirsvarsmenn kærða hafi verið upplýstir um námskeiðssókn hans.
 10. Tekið sé undir vísan kærða til athugasemda í frumvarpi við 3. tölul. 3. gr. en þó með ólíkum blæbrigðum. Frumvarpstextinn sem vísað sé til hafi þann tilgang að réttlæta heimtu á fullkominni íslenskukunnáttu í þeim tilvikum sem málefnaleg sjónarmið standi slíkri ákvörðun að baki. Í frumvarpstextanum segi einnig að viðmið eða ráðstöfun í lögunum feli ekki í sér óbeina mismunun verði hún réttlætt á málefnalegan hátt með lögmætu markmiði en sýna verði fram á að aðgerðir sem nýttar séu til að ná því markmiði séu viðeigandi og nauðsynlegar. Vísun kærða til frumvarpstextans virðist hafa átt að þjóna þeim tilgangi að sýna fram á að ekki fari fram óbein mismunun þar sem ekki sé gerð krafa um fullkomna íslenskukunnáttu heldur nauðsynlega kunnáttu í tungumálinu til að geta átt þau samskipti við viðskiptavini sem nauðsynleg séu.
 11. Ákvæði 22. gr. verði ekki skilið öðruvísi en svo að starfsmenn þurfi að tala, skilja og skrifa íslensku. Hver skilgreining kærða sé á fullkominni íslenskukunnáttu sé á huldu en ljóst sé að ætlast sé til greinargóðrar kunnáttu. Ákvæðið sé orðað með þeim hætti að órætt sé til hvers sé ætlast en ljóst sé að afar óheppilegt sé að taka svo viðamiklar ákvarðanir á grundvelli svo matskennds ákvæðis. Það sæti furðu að hann megi ekki starfa hjá fyrirtækinu þegar ljóst sé að hann uppfylli allar aðrar kröfur sem séu nauðsynlegar til starfans.
 12. Með vísan til framangreinds sé ljóst að starfskrafturinn sem kærandi hugðist ráða uppfylli öll skilyrði sem eðlilegt megi telja að gerð séu til sendibílstjóra. Ekki fáist séð hvers vegna íslenskukunnátta hans standi því í vegi að hann aki vörum fyrir kærða. Virðist sem regla 22. gr. sé gagngert sett til þess að fæla frá erlent vinnuafl og stuðla að því að meina útlendu vinnuafli að starfa fyrir hönd kærða. Þá sé orðalag greinarinnar síst til þess fallið að gefa til kynna að ætlast sé til lágmarksþekkingar á tungumálinu heldur þvert á móti látið í það skína að talsverðrar kunnáttu sé krafist án þess að skilgreina nánar hvers vegna.
 13. Gerð sé krafa um að kærða verði gert að fella úr gildi 22. gr. í núgildandi starfsreglum hans að viðlögðum dagsektum, sbr. 5. gr. laga nr. 86/2018. Þá sé þess enn fremur farið á leit að kærði verði sektaður í samræmi við 1. mgr. 17. gr. sömu laga. Áskilinn sé réttur til að koma að skaðabótakröfu, sbr. 16. gr. laganna, á síðari stigum málsins og leggja fram gögn slíkri kröfu til stuðnings. Þá sé gerð krafa um málskostnað, sbr. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

   

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA

 14. Kærði gerir kröfu um að öllum kröfum kæranda verði hafnað.
 15. Gild rök standi til grundvallar skilyrðinu um íslenskukunnáttu, en það hafi verið sett af því tilefni að full þörf sé á því að sendibílstjórar geti átt samskipti við viðskiptavini kærða á íslensku. Alkunna sé að mörg, ef ekki flest, verkefni sendibílstjóra séu þess eðlis að þeir þurfi að hafa samskipti við viðskiptavini, ýmist í töluðu eða rituðu máli. Krafan sem gerð sé í reglunum byggi þannig á eðli viðkomandi starfsemi eins og gert sé ráð fyrir í 11. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði og því samhengi sem til staðar sé þar sem starfsemin fari fram, enda hafi kröfur um slíka starfstengda eiginleika lögmætan tilgang auk þess sem þær gangi ekki lengra en nauðsyn krefji í skilningi 1. mgr. 11. gr. laganna. Hafa beri í huga að lögin leggi þannig ekki afdráttarlaust bann við mismunandi meðferð þar sem þau geri ráð fyrir tilteknum frávikum þar sem mismunandi meðferð teljist ekki til mismununar, svo sem vegna starfstengdra eiginleika.
 16. Þannig sé ekki um að ræða mismunun á neinum þeim grundvelli sem tilgreindur sé í 1. mgr. 1. gr. laganna, þ.e. kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Til að mynda starfi hjá kærða fimm Pólverjar, einn Filippseyingur og einn Erítreumaður, sem allir hafi næga kunnáttu í íslensku til starfans. Þá sé heldur ekki um að ræða óbeina mismunun í skilningi 3. tölul. 3. gr. laganna með vísan til meðfylgjandi texta í athugasemdum með frumvarpi sem hafi orðið að lögunum:

  Sé það raunin verður jafnframt að sýna fram á að aðgerðir sem nýttar eru til að ná því markmiði sem stefnt er að séu viðeigandi og nauðsynlegar. Sem dæmi mætti nefna atvinnurekanda sem gerði kröfur um fullkomna íslenskukunnáttu starfsmanna sinna. Þarna gæti verið um óbeina mismunun að ræða gagnvart erlendum umsækjendum sé krafan um fullkomna íslenskukunnáttu ekki réttlætanleg á málefnalegan hátt með lögmætu markmiði. Hugsanlega væri slík krafa réttlætanleg með tilliti til eðlis starfsins, t.d. ef um stöðu íslenskukennara eða prófessors í íslenskum bókmenntum væri að ræða. Þyrfti þá jafnframt að meta hvort krafa um fullkomna íslenskukunnáttu væri viðeigandi og nauðsynleg.

 17. Í umræddum reglum sé ekki gerð krafa um fullkomna íslenskukunnáttu bílstjóranna heldur að þeir hafi þannig íslenskukunnáttu að þeir geti átt þau samskipti við viðskiptavini kærða sem þörf sé á til að viðhafa nauðsynlegt öryggi og þjónustustig í viðskiptum. Því sé hafnað að starfskraftur sá sem kærandi hugðist ráða hafi uppfyllt öll skilyrði sem telja megi eðlileg fyrir sendibílstjóra. Sendibílstjóri verði að geta skilið fyrirmæli viðskiptavina og samstarfsmanna fullkomnlega, enda geti iðulega komið upp aðstæður þar sem til að mynda þurfi að flytja viðkvæman farm milli staða og aðstæður þar sem mikilvægt sé að ekki skapist misskilningur milli manna. Í slíku starfi geti sendingar jafnvel eyðilagst eða legið undir skemmdum verði misskilningur milli manna og því mikilvægt að fyrirmæli skiljist og séu skiljanleg. Þá sé því enn fremur hafnað að ákvæði 22. gr. reglnanna sé með einhverjum hætti matskennt. Ákvæðið sé þvert á móti afar skýrt og mæli einungis fyrir um að bílstjórar skuli tala, skilja og skrifa íslensku.
 18. Vegna tilvísunar kæranda til jafnræðisákvæðis 65. gr. stjórnarskrárinnar og 4. gr. laga um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993, beri að árétta að umrætt ákvæði afgreiðslureglnanna feli ekki í sér mismunun á grundvelli neinna þeirra atriða sem séu nefnd í ákvæðunum. Ekki sé því um að ræða mismunun á grundvelli þjóðernis eða ríkisfangs, enda ljóst að margir erlendir starfsmenn starfi hjá kærða án vandkvæða. Því sé jafnframt alfarið hafnað að um sé að ræða brot á ákvæði 3. tölul. 3. gr. laga nr. 86/2018 þar sem um sé að ræða óbeina mismunun þar sem hlutlaust skilyrði, viðmið eða ráðstöfun komi verr við einstaklinga vegna einhverra þeirra þátta sem getið sé um í 1. mgr. 1. gr. borið saman við aðra einstaklinga. Ítrekað sé að skilyrðið um íslenskukunnáttu komi ekki verr við erlenda starfsmenn á vegum kæranda heldur en aðra erlenda starfsmenn sem séu starfandi hjá kærða. Þar fyrir utan séu, líkt og áður greini, málefnalegar ástæður til að gera kröfu um íslenskukunnáttu bílstjóra. Að auki sé því alfarið hafnað að ákvæðið sé gagngert sett til að fæla frá erlent vinnuafl, enda sýni raunin að svo sé ekki, sbr. þá erlendu starfsmenn sem starfi hjá kærða, þar á meðal fyrri starfsmaður kæranda sem hafi verið pólskur.

  ATHUGASEMDIR KÆRANDA

 19. Í athugasemdum kæranda segir að kærði haldi því fram að engin atriði sem 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018 tiltaki eigi við í tilviki kæranda. Þeirri staðhæfingu sé mótmælt. Umræddur starfsmaður tali íslensku og geti gert sig skiljanlegan en hafi ekki uppfyllt hina matskenndu reglu kærða. Kærði hafi því talið að starfsmaðurinn væri með skerta starfsgetu, en skert starfsgeta falli undir téð ákvæði. Þá hafi enn fremur átt sér stað mismunun á grundvelli þjóðernisuppruna, enda tungumálakunnátta umrædds starfsmanns ekki fullnægjandi sökum þess að hann sé frá öðru landi og tali málið því sem annað tungumál. Rétt sé að benda á að þótt aðrir erlendir starfsmenn vinni hjá kærða, sem hann telji uppfylla hina umdeildu reglu, girði það ekki fyrir þá mismunun sem starfsmaður kæranda hafi orðið fyrir af hálfu kærða.
 20. Því hafi ekki verið haldið fram á fyrri stigum að krafist væri fullkominnar íslenskukunnáttu heldur einfaldlega að reglan verði ekki skilin öðruvísi en svo að starfsmenn þurfi að tala, skilja og skrifa íslensku. Frekari skilgreining liggi ekki fyrir á þeim kvarða sem kærði setji hvað varði íslenskukunnáttu starfsmanna. Bent hafi verið á að það eitt að skilja, lesa og skrifa íslensku feli í sér greinargóða kunnáttu en jafnframt bent á að ákvæðið umdeilda sé orðað með þeim hætti að órætt sé til hvers sé ætlast sem sé afar óheppilegt þegar viðamiklar ákvarðanir grundvallist á téðu hæfisskilyrði.
 21. Því sé enn fremur mótmælt að reglan sé skýrt orðuð. Kærði bendi á að ekki sé krafist fullkominnar kunnáttu í íslensku án þess þó að mælikvarði á fullkomna kunnáttu liggi fyrir. Gerð sé krafa um getu til að tala málið, lesa málið og skilja það en ekki í hvaða mæli. Starfsmaður kæranda geti til að mynda allt það þrennt sem beðið sé um. Hann skilji íslensku, hann tali málið og lesi það líka. Hann virðist þó ekki uppfylla hinn matskennda og dulda kvarða kærða á hvað teljist fullnægjandi. Þar liggi óskýrleiki ákvæðisins.

  ATHUGASEMDIR KÆRÐA

 22. Í athugasemdum kærða segir að fjallað sé um íslenskukunnáttu mannsins sem augljóslega sé átt við, án þess að nokkuð liggi fyrir um hvort og þá hvernig íslensku hann tali. Frá því sé greint að hann tali íslensku og geti gert sig skiljanlegan, án þess að nein tilraun sé gerð til að færa sönnur á neitt í þeim efnum. Þrátt fyrir að farið sé í grófum dráttum yfir nokkur störf mannsins undanfarin ár og þess getið að hann sé skráður á íslenskunámskeið hafi aldrei verið tilgreint hvar eða hvernig hann hafi lært íslensku eða hvaða vald hann hafi í raun á málinu. Kærði hafi staðreynt íslenskukunnáttu starfsmannsins áður en afstaðan hafi verið tekin og niðurstaðan verið vafalaus í hans tilviki. Bæði stjórnarformaður kærða, símavarsla og einn pólskur starfsmaður hafi reynt að ræða við hann á íslensku án árangurs. Síðan séu liðnir hátt í fimm mánuðir, en engum upplýsingum hafi verið komið til kærða um framvindu íslenskukunnáttu hans.
 23. Því sé mótmælt að starfsmaðurinn hafi verið metinn með skerta starfsgetu og að því hafi á nokkru stigi verið haldið fram að hann þyrfti að tala fullkomna íslensku.

  NIÐURSTAÐA

 24. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði er markmið laganna að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna, þ.e. kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Í 6. gr. laganna kemur fram að einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir eða félagasamtök, sem telja að ákvæði laganna hafi verið brotin gagnvart sér eða félagsmönnum sínum, geti í eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna sinna, eftir því sem við á, leitað atbeina kærunefndar jafnréttismála. Í þeim tilvikum gilda 5. til 7. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, eftir því sem við getur átt. Verkefni kærunefndar jafnréttismála í slíkum málum er þar með að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga nr. 86/2018 hafi verið brotin. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna skulu atvinnurekendur, stéttarfélög og samtök þeirra vinna markvisst að jafnri meðferð á vinnumarkaði í samræmi við markmið laganna. Þá skulu atvinnurekendur sérstaklega vinna að jafnri meðferð starfsmanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og koma í veg fyrir mismunun vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna.
 25. Eins og að framan greinir starfrækir kærði sendibílaþjónustu. Ágreiningslaust er að þar sem kærandi er hluthafi í kærða getur hann sem verktaki ekið bifreiðum undir merkjum kærða en kærandi greiðir þá gjald til kærða vegna hverrar bifreiðar. Þannig ræður kærandi til sín starfsfólk sem sinnir starfi bílstjóra undir merkjum kærða en verkefnum er úthlutað frá kærða. Samkvæmt 22. gr. afgreiðslureglna kærða skulu allir bílstjórar tala, skilja og skrifa íslensku. Með vísan til þessarar reglu taldi kærði að starfsmaður af erlendu bergi brotinn, sem kærandi réði til þess að sinna starfi bílstjóra undir merkjum kærða, væri ekki hæfur til að gegna starfinu vegna skorts á íslenskukunnáttu.
 26. Kröfugerð kæranda snýr í fyrsta lagi að því að kærða verði gert að fella úr gildi 22. gr. núgildandi starfsreglna kærða að viðlögðum dagsektum. Hvað þennan kröfulið varðar þá verður að líta til þess að heimild til álagningar dagsekta í 5. gr. laga nr. 86/2018 er bundin við Jafnréttisstofu. Ekki er því lagastoð fyrir álagningu dagsekta af hálfu kærunefndarinnar í málinu og getur sá þáttur kröfugerðar kæranda þar með ekki komið til frekari skoðunar. Að því leyti sem krafa kæranda snýr að því að nefndin geri kærða skylt að fella úr gildi 22. gr. starfsreglna sinna skal þess getið að hlutverk nefndarinnar afmarkast eins og áður segir við það að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga nr. 86/2018 hafi verið brotin í tilviki málsaðila. Ræðst niðurstaða um það atriði af beitingu kærða á starfsreglum sínum gagnvart kæranda, en í því fælist þó ekki að kærunefndin kvæði upp úrskurð sem leiddi til almennrar ógildingar starfsreglna kærða.
 27. Kærandi krefst þess einnig að kærða verði gert að sæta sekt. Hvað þá kröfu varðar ber að líta til þess að dómstólar einir eru bærir til að kveða á um sektir samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 86/2018. Getur þessi þáttur kröfugerðar kæranda því ekki heldur komið til frekari skoðunar við úrlausn málsins.
 28. Eftir stendur það álitaefni hvort kærði hafi brotið í bága við lög nr. 86/2018 með kröfum um íslenskukunnáttu, sem gerðar voru til viðkomandi starfsmanns kæranda, en í þessum efnum kemur einungis til skoðunar hvort kærði hafi brotið gegn lögunum með þeirri háttsemi sem leiddi í öndverðu til þeirrar kæru sem hér er til úrlausnar, þ.e. synjun kærða á að breyta starfsreglum sínum, sbr. fyrrgreint erindi lögmanns kærða, dagsett 13. mars 2019. Hvað varðar aðrar réttarheimildir sem kærandi vísar til í kæru sinni þá ber að líta til þess að kærunefndinni er að lögum einungis falið að skýra sértæka löggjöf, þ.e. í þessu tilviki lög nr. 86/2018, en önnur löggjöf sem kærandi skírskotar til gæti þó eftir atvikum komið til skoðunar undir merkjum lögskýringar laga nr. 86/2018, svo sem við samræmisskýringu.
 29. Í 7. gr. laga nr. 86/2018 er, eins og áður segir, mælt fyrir um það að óheimil sé hvers kyns mismunun á vinnumarkaði, hvort heldur bein eða óbein, vegna einhverra þeirra þátta sem um geti í 1. mgr. 1. gr. laganna, þ.e. kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningu. Kærandi telur að kærði hafi með 22. gr. starfsreglna sinna brotið gegn þessu lagaákvæði.
 30. Kemur þá til skoðunar hvort kröfur kærða um íslenskukunnáttu feli með beinum eða óbeinum hætti í sér mismunun á grundvelli laga nr. 86/2018.
 31. Eins og áður segir felur 1. mgr. 7. gr. laganna í sér almennt bann við mismunun á vinnumarkaði. Af a-lið 1. mgr. 1. gr. laganna verður ráðið að lögin gilda ekki einungis um aðgengi að störfum heldur jafnframt um aðgengi að sjálfstæðri starfsemi. Geta lögin því tekið til aðstæðna á borð við þær sem uppi eru í máli þessu þar sem kærandi, sem er sjálfstæður lögaðili, starfar innan vébanda sendibílaþjónustu kærða og ræður sjálfur til sín starfsmenn í því skyni. Að þessu virtu verður jafnframt að telja að hið almenna bann 1. mgr. 7. gr. laganna sé það lagaákvæði sem komi til skoðunar í málinu fremur en ákvæði 8. gr. laganna um bann við mismunun í starfi og við ráðningu, enda er ekki ráðningarsamband á milli kærða og umrædds starfsmanns kæranda.
 32. Af athugasemdum með frumvarpi því er síðar varð að lögum nr. 86/2018 verður skýrlega ráðið að orðið „þjóðernisuppruni“ vísi til sameiginlegs uppruna hóps fólks sem geti falist í sameiginlegu tungumáli. Kröfur kærða um íslenskuþekkingu geta því verið til þess fallnar að fara í bága við 1. mgr. 7. gr. laga nr. 86/2018, enda þótt sú mismunun teldist einungis óbein, sbr. til hliðsjónar 3. tölulið 3. gr. laganna og athugasemdir með frumvarpi því er síðar varð að lögum nr. 86/2018.
 33. Að öllu framangreindu virtu telst kærandi hafa leitt nægar líkur að óbeinni mismunun kærða þannig að sú skylda verði lögð á kærða að sýna fram á að ástæður þær sem legið hafi til grundvallar meðferðinni tengist ekki einhverjum af þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laganna, sbr. sönnunarreglu 15. gr. laganna.
 34. Í þessum efnum byggir kærði einkum á því að 1. mgr. 11. gr. laga nr. 86/2018 eigi við, en samkvæmt þeirri reglu telst mismunandi meðferð á grundvelli tungumálakunnáttu ekki brjóta gegn lögunum ef hún byggist á eðli viðkomandi starfsemi eða því samhengi sem til staðar er þar sem starfsemin fer fram, enda hafi kröfur um slíka starfstengda eiginleika lögmætan tilgang og gangi ekki lengra en nauðsyn krefur.
 35. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. orkar ekki tvímælis að mati kærunefndarinnar að kröfur um tungumálakunnáttu geta í ýmsum tilvikum talist lögmætar, enda þótt þær komi að einhverju marki niður á einstaklingum sem eru af erlendum þjóðernisuppruna og búa þar með hugsanlega ekki yfir íslenskukunnáttu. Þannig getur atvinnurekendum hér á landi reynst nauðsynlegt að tryggja skilvirk samskipti við viðskiptavini, þar á meðal í störfum í þjónustugeiranum. Þá eru sum störf hér á landi einfaldlega þess eðlis að þau verða ekki unnin án yfirgripsmikillar þekkingar á íslensku, svo sem störf íslenskukennara, eins og vikið er að í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 86/2018. Til þess að kröfur um tungumálakunnáttu fái þó staðist samkvæmt 11. gr. verða þær ávallt að fullnægja þeim skilyrðum sem lagaákvæðið setur fram og áður eru rakin.
 36. Að mati kærunefndarinnar má fallast á það með kærða að í starfsemi á borð við þá sem sendibílstjórar sinna geti skýr og skilvirk samskipti reynst mikilvæg til að inna megi af hendi umsamda þjónustu með fullnægjandi hætti. Áskilnaður um vissa íslenskukunnáttu sendibílstjóra telst því þjóna lögmætum tilgangi í skilningi 11. gr. laganna. Álitaefnið sem eftir stendur er hversu langt kærði megi ganga með slíkum kröfum. Við mat á störfum sendibílstjóra hefði í þessum efnum einkum þýðingu hvort viðkomandi starfsmaður byggi a.m.k. yfir vissri þekkingu á íslensku sem gerði honum kleift að skilja upplýsingar um stað og stund sendingar, innihald farms og jafnframt ákveðna getu til að miðla slíkum upplýsingum áfram til viðskiptavina og taka á móti frekari leiðbeiningum eða athugasemdum þeirra. Í þeim efnum sem hér um ræðir áskilur 1. mgr. 11. gr., eins og áður segir, að slíkar kröfur gangi ekki lengra en nauðsyn krefur. Við mat á því hvort kærandi hafi að þessu leyti brotið gegn rétti kæranda í hinu fyrirliggjandi máli er að mati nefndarinnar ekki unnt að taka einungis mið af almennu orðalagi starfsreglna kærða, heldur verður að miða við beitingu starfsreglnanna í tilviki kæranda á þeim tímapunkti sem kæran tekur til. Í þessum efnum verður að líta til þess að kærandi sjálfur staðhæfði í upphaflegri kæru sinni að sá erlendi starfsmaður sem hann hugðist tefla fram í starfið talaði ekki, skildi ekki og skrifaði ekki íslensku. Síðar undir rekstri málsins birtist þó önnur afstaða í málatilbúnaði kæranda. Tók hann þá fram að hann teldi umræddan starfsmann tala íslensku og geta gert sig skiljanlegan en hann hafi þó ekki uppfyllt 22. gr. starfsreglna kærða, en þar væri á ferð matskennd regla. Við sama tækifæri hélt kærandi því raunar einnig fram að starfsmaður hans geti „til að mynda allt það þrennt sem beðið er um“ í starfsreglum kærða, þ.e. hann „skilur íslensku, hann talar málið og hann les það líka“.
 37. Að þessu leyti gætir töluverðs innbyrðis ósamræmis í málatilbúnaði kæranda, enda þótt það ósamræmi kunni að nokkru leyti að skýrast af því að umræddur starfsmaður mun hafa sótt tungumálanám eftir að ágreiningur málsaðila hófst. Við úrlausn málsins verður að miða við tungumálakunnáttu umrædds starfsmanns í öndverðu, þ.e. á þeim tímapunkti þegar kæranda var synjað um að fela umræddum starfsmanni sínum að starfa innan vébanda kærða, en að mati kærunefndarinnar var það 13. mars 2019 þegar lögmaður kærða lýsti því yfir að kærði hygðist ekki breyta starfsreglum sínum. Að öllu framangreindu virtu verður kærandi að sæta því að lögð sé til grundvallar hans eigin fullyrðing um skort á íslenskukunnáttu starfsmanns hans á þeim tímapunkti er mál þetta kom upp, sem er einnig í samræmi við staðhæfingu kærða sem getur þess að þrír starfsmenn kærða hafi reynt án árangurs að tala íslensku við starfsmanninn. Bréf kæranda til kærða, dagsett 4. mars 2019, rennir einnig nokkrum stoðum undir þá niðurstöðu.
 38. Þar sem kærunefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að vissar kröfur hafi mátt gera til íslenskukunnáttu sendibílstjóra á vegum kærða og í ljósi fyrrgreindrar yfirlýsingar kæranda um skort á íslenskukunnáttu starfsmannsins á umræddum tíma er að mati nefndarinnar ekki unnt að draga þá ályktun að réttur hafi verið brotinn á kæranda eða starfsmanni hans á þeim tímapunkti sem hér er til skoðunar. Hefði starfsmaðurinn á hinn bóginn verið búinn að öðlast nokkra íslenskukunnáttu þá hefði málið getað horft við á annan hátt. Í þeim efnum verður að líta til þess að enda þótt nefndin telji málefnalegt að vinnuveitendur geri ákveðnar kröfur til íslenskukunnáttu sendibílstjóra sem starfa á þeirra snærum, þá eru takmörk fyrir því hversu langt megi ganga að þessu leyti. Leiðir þetta beinlínis af áskilnaði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 86/2018 um að kröfur um starfstengda eiginleika, sem hafa lögmætan tilgang en leiða til mismunandi meðferðar í skilningi laganna, megi ekki ganga lengra en nauðsyn krefur til að ná hinu lögmæta markmiði.
 39. Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða nefndarinnar að eins og atvikum málsins sé háttað þá hafi kærði ekki brotið gegn lögum nr. 86/2018 gagnvart kæranda með áskilnaði um íslenskukunnáttu af hálfu umrædds starfsmanns kæranda.
 40. Samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008, sbr. 6. gr. laga nr. 86/2018, getur kærunefnd jafnréttismála ákveðið að sá sem kæra beinist gegn greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi fyrir kærunefndinni. Kærandi hefur haft uppi slíka kröfu í málinu. Skilyrði fyrir slíkri ákvörðun er að niðurstaða nefndarinnar falli kæranda í hag. Þar sem svo er ekki getur ekki komið til þess að nefndin ákvarði kæranda málskostnað.
 41. Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna sumarleyfa nefndarmanna.

Ú r s k u r ð a r o r ð

         Vísað er frá kærunefnd jafnréttismála kröfu kæranda, A, um að kærða, B, verði gert að fella úr gildi 22. gr. núgildandi starfsreglna sinna að viðlögðum dagsektum. Þá er vísað frá kærunefndinni kröfu kæranda um að kærða verði gert að greiða sekt.

         Kærði braut ekki gegn lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði gagnvart kæranda með áskilnaði um íslenskukunnáttu af hálfu C, starfsmanns kæranda.

         Hafnað er kröfu kæranda um að kærða verði gert að greiða honum málskostnað.

 

Arnaldur Hjartarson

 

Björn L. Bergsson

 

Þórey S. Þórðardóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum