Hoppa yfir valmynd
27. febrúar 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Þeim fækkar sem mælast undir lágtekjumörkum og jöfnuður eykst

Tæp 8% landsmanna mældust með tekjur undir lágtekjumörkum árið 2014 samkvæmt nýjum Félagsvísum. Aðeins einu sinni hafa jafn fáir mælst undir lágtekjumörkum frá árinu 2004. Tekjujöfnuður samkvæmt Gini stuðli mældist meiri árið 2014 en nokkru sinni á árabilinu 2004–2013.

Árið 2004 mældust 10% landsmanna undir lágtekjumörkum en hlutfallið hafði lækkað niður í 7,9% árið 2014 og er það sama hlutfall og árið 2012.

Þegar upplýsingar um fjölda einstaklinga undir lágtekjumörkum eru greindar eftir kyni má sjá að fækkunin er hlutfallslega meiri í hópi kvenna en karla, þótt fækki í báðum hópum. Þannig var hlutfall karla undir lágtekjumörkum 9,6% árið 2004 en 8,1% árið 2014. Hlutfall kvenna undir lágtekjumörkum var 10,5% árið 2004 en var komið niður í 7,7% árið 2014. Á þessu árabili mældist það einu sinni lægra hjá konum, þ.e. árið 2012 þegar það var 7,5%.

Aukinn tekjujöfnuður samkvæmt Gini-stuðli

Í Félagsvísum kemur fram að tekjur hafa ekki dreifst jafnar milli fólks hér á landi frá því að mælingar hófust árið 2004. Gini-stuðull er notaður til að mæla dreifingu tekna en hann mælir hvernig samanlagðar tekjur allra einstaklinga dreifast. Ef Gini-stuðullinn væri 0 þýddi það að allir hefðu jafnar tekjur, en 100 ef sami einstaklingur hefði allar tekjurnar. Árið 2004 mældist Gini-stuðullinn hér á landi 24,1 en hann var 22,7 árið 2014. Tekjudreifing var ójöfnust samkvæmt Gini-stuðli árið 2009 sem mældist þá 29,6.

Nánari upplýsingar um lífskjör og velferð má sjá í 3. kafla Félagsvísa 2015.

Athygli er vakin á því að Félagsvísum 2015 fylgja öll bakgrunnsgögn í exelskjölum sem opin eru til notkunar fyrir alla.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum