Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ás styrktarfélag 50 ára

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, ávarpaði 50 ára afmælisfagnað Áss styrktarfélags síðastliðin sunnudag. Í ávarpi sínu þakkaði ráðherra félaginu fyrir ómetanlegt framlag í þágu samfélagsins en allt frá stofnun Styrktarfélags vangefinna hefur félagið sem nú hefur fengið nafnið Ás styrktarfélag verið í fararbroddi í hagsmunabaráttu fyrir þroskahefta.

Í ávarpi sínu sagði ráðherra meðal annars:

„Í félags- og tryggingamálaráðuneytinu er með markvissum hætti unnið að fjölda verkefna sem stuðlað geta að góðri framkvæmd þjónustu við fatlað fólk. Í því sambandi vil ég vekja athygli á nokkrum atriðum.

Nú í maí geri ég ráð fyrir því að ný reglugerð um búsetu fatlaðra sjái dagsins ljós. Í reglugerðinni munu verða nýjungar sem vonandi gera allt verklag við framkvæmd þjónustunnar auðveldara og aðgengilegra.

Í væntanlegri reglugerð er gert ráð fyrir því að allir sem æskja þjónustu eigi kost á þjónustumati og á grundvelli þess verði gerð þjónustuáætlun sem tryggi að alltaf sé verið að veita þjónustu í samræmi við þarfir hverju sinni. Við gerð þjónustuáætlunar er gert ráð fyrir öflugu samráði milli þeirra sem veita þjónustuna og síðast en ekki síst við þann sem notar hana. Einnig verða í þessari reglugerð skýrari ákvæði um alla fjármálaumsýslu í þjónustu við fatlað fólk í búsetu.

Í mörg ár hefur það verið baráttumál hagsmunasamtaka fatlaðra og fagfélaga að betur sé hugað að réttindum fatlaðra. Eru nú að störfum tveir starfshópar í ráðuneytinu. Annars vegar hópur sem fjallar um réttindagæslu fatlaðra og hins vegar hópur sem vinnur að fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks með fötlun. Störf þessara hópa ganga vel og von er á stöðuskýrslu varðandi samning Sameinuðu þjóðanna nú um mánaðamótin.“

Tenging frá vef ráðuneytisinsÁvarp félags- og tryggingamálaráðherra á 50 ára afmæli Áss styrktarfélags



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum