Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 118/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 118/2020

Miðvikudaginn 1. júlí 2020

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 28. febrúar 2020, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 19. desember 2019 um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X 2018.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi varð fyrir slysi X 2018 þegar hún rann á hálu gólfi í vinnu sinni þannig að hún fór í „splitt“ og hlaut áverka á aftanvert læri. Tilkynning um slys, dags. 23. júlí 2018, var send til Sjúkratrygginga Íslands sem samþykktu bótaskyldu. Með bréfi, dags. 19. desember 2019, var kæranda tilkynnt að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins hefði verið metin 5%.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. febrúar 2020. Með bréfi, dags. 13. mars 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 18. mars 2020, og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. mars 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 19. desember 2019, verði felld úr gildi og læknisfræðileg örorka hennar vegna vinnuslyssins X 2018 verði ákvörðuð á nýjan leik.

Í kæru segir að slysið hafi orðið með þeim hætti að kærandi hafi verið að ganga úr vinnunni  þegar hún hafi runnið til á gólfinu með þeim afleiðingum að hún hafi dottið. Í slysinu hafi kærandi orðið fyrir meiðslum samkvæmt læknisfræðilegum gögnum málsins.

Slysið hafi verið tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands og bótaskylda samþykkt. Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 19. desember 2019, hafi verið tilkynnt að ekki yrði um greiðslu örorkubóta að ræða í tilviki kæranda þar sem örorka hennar vegna slyssins hafi verið metin minni en 10%, eða 5%. Meðfylgjandi hafi verið tillaga C læknis að mati á varanlegri læknisfræðilegri örorku, dags. 25. nóvember 2019.

Í kæru segir að kærandi geti á engan hátt sætt sig við ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands og telji afleiðingar slyssins hafa verið of lágt metnar af C lækni. Þann 10. júlí 2018 hafi kærandi leitað á X og þaðan verið send í ómskoðun og segulómskoðun af vinstra læri í myndgreiningu Hjartaverndar. Þar hafi komið í ljós áverki á sinar í lærvöðva aftan til. Henni hafi verið ráðlagt að vera frá vinnu og hafi hún fengið vottorð frá vinnuveitanda vegna veikinda í sumarleyfi. Hún hafi svo fengið tilkynningu um að eftirfylgni yrði hjá læknum Orkuhússins. Vegna áframhaldandi einkenna eftir slysið hafi kærandi einnig leitað til heimilislæknis, sjúkraþjálfara og bæklunarlæknis.

Kærandi hafi meðal annars verið til meðferðar hjá D bæklunarlækni vegna vandamála frá aftanverðu læri eftir slysið, samanber ódagsett læknisvottorð frá fyrrgreindum bæklunarlækni.

Varðandi fyrra heilsufar kæranda skuli þess getið að við yfirferð á sjúkraskánni, sem nái aftur til ársins 1995, sé ekkert þar að finna sem haft gæti áhrif á afleiðingar framangreinds slyss, sbr. læknisvottorð E læknis, dags. 24. júní 2019.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi ekki getað setið við vinnu sína vegna verkja og hafi því þurft að standa við vinnu sína sem X og kveðst hún verða lúin við það. Kærandi kveðst ekki geta unnið heilan vinnudag lengur vegna verkja og hafi vegna þess þurft að minnka við sig í 50% starf. Kveðst hún verða aum fyrir ofan hægra hnéð og einnig verða hvellaum neðan við setbeinið við vinnu sína. Þá sé öll seta mjög slæm fyrir einkenni hennar. Af framangreindu sé ljóst að afleiðingar slyssins hafi haft veruleg áhrif á daglegt líf og lífsgæði kæranda.

Með matsgerð C læknis hafi kærandi verið metin með 5% varanlega læknisfræðilega örorku og byggi ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands á því mati. Niðurstaða C hafi byggst á miskatöflum örorkunefndar, kafla VII.B.a.4., Gróið mjaðmabrot en álagsóþægindi með vægari hreyfiskerðingu. Í niðurstöðu matsins segi síðan eftirfarandi: ,,Undirritaður telur meiri líkur en minni til þess að með viðvarandi aktívum æfingum sé mögulega hægt að draga úr einkennum. Ekki eru líkur til þess að einkenni munu versna og aðgerð mun aldrei vera í boði við þessu vandmáli.“

Kærandi telji niðurstöðu framangreinds mats C læknis ranga og byggi á því að læknisfræðileg örorka hennar hafa verið of lágt metin miðað við gögn málsins og þau einkenni sem hún finni fyrir í dag. Þá vilji kærandi benda á að í læknisvottorði D bæklunarlæknis segi: „A hefur fengið talsverðan áverka á sinafestu vöðvanna í aftanverðu læri og mun líklega aldrei ná sér alveg að fullu.“ Enn fremur segir hann: „Ef hún nær ekki fullum krafti í aftanvert lærið, er með viðvarandi eymsli og verki við að sitja eða við álag eða ef einkenni um settaugarertingu koma fram gæti þurft að framkvæma aðgerð þar sem sinin er saumuð aftur á festingu sína í setbeininu. Ljóst er að þrátt fyrir aðgerð myndi hún aldrei verða einkennalaus.“ Þá telji kærandi að C geri of lítið úr einkennum hennar eftir umrætt slys þegar hann tali um meiri líkur en minni á því að með viðvarandi aktívum æfingum sé mögulega hægt að draga úr einkennum, en kærandi telji þetta ekki rétt mat miðað við gögn málsins og þau einkenni sem hún finni fyrir í dag vegna afleiðinga slyssins.

Kærandi hafi beðið eftir matsfundi hjá F lækni vegna slysatryggingar hjá vátryggingafélagi vegna umrædds slyss þann X 2018. Sá fundur hafi ekki enn átt sér stað og því hafi matsgerð ekki enn borist, en þar sem kærandi sé ósátt við framangreint mat Sjúkratrygginga Íslands sem kveði á um 5% læknisfræðilega örorku vegna slyssins þann X 2018, sé umrædd ákvörðun stofnunarinnar kærð í þeim tilgangi að rjúfa þriggja mánaða kærufrest til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þess sé óskað að úrskurðarnefndin bíði með að ákvarða í málinu þar til matsgerð hefur borist frá F lækni og áskilinn sé réttur til að koma að frekari rökstuðningi og gögnum, ef tilefni gefst til.

 

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 19. desember 2019, hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda verið metin 5% vegna umrædds slyss. Sjúkratryggingar Íslands hafi sent kæranda bréf, dagsett sama dag, þar sem henni hafi verið tilkynnt að ekki yrði því um greiðslu örorkubóta að ræða, sbr. 5. mgr. 12. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga.

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að slysið hafi orðið með þeim hætti að kærandi hafi runnið á hálu gólfi við vinnu sína og við það farið í splitt með vinstri fót fram. Hún hafi leitað til læknis nokkrum dögum seinna og hafi þá komið í ljós áverki á sinar í lærvöðva aftan til.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda verið metin 5%. Við ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands hafi verið byggt á örorkumatstillögu C læknis, dags. 25. nóvember 2019, byggðri á 12. gr. laga nr. 45/2015. Örorkumatstillaga C hafi verið unnin á grundvelli fyrirliggjandi gagna, auk viðtals og læknisskoðunar. Það sé mat Sjúkratrygginga Íslands að í tillögunni sé forsendum örorkumats rétt lýst og að rétt sé metið með hliðsjón af miskatöflum örorkunefndar. Sé tillagan því grundvöllur ákvörðunar stofnunarinnar og þess að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins sé rétt ákveðin 5%.

Kærð sé niðurstaða Sjúkratrygginga Íslands um 5% varanlega læknisfræðilega örorku og vísað til þess að varanlegar afleiðingar slyssins séu of lágt metnar, sbr. örorkumatstillögu C læknis, dags. 25. nóvember 2019.

Í kæru komi fram að kært sé til að rjúfa þriggja mánaða kærufrest og farið sé fram á við úrskurðarnefndina að hún bíði með að úrskurða í málinu þar til matsgerð hafi borist frá F lækni. Í ljósi þessa muni Sjúkratryggingar Íslands að svo komnu máli ekki svara kæru efnislega með frekari hætti. Stofnunin vísi því til þeirrar umfjöllunar sem fram komi í fyrirliggjandi ákvörðun frá 19. desember 2019 og örorkumatstillögu C læknis, dags. 25. nóvember 2019. Segir jafnframt í greinargerð að áskilinn sé réttur til að koma að frekari rökstuðningi, ef fleiri gögn berist.

Það sé því afstaða Sjúkratrygginga Íslands að rétt sé að miða mat á afleiðingum slyssins þann X 2018 við lýsingar á einkennum og niðurstöðu skoðunar sem komi fram í fyrirliggjandi tillögu C læknis að varanlegri læknisfræðilegri örorku, þannig að rétt niðurstaða teljist vera 5% varanleg læknisfræðileg örorka.

Að öllu virtu beri því að staðfesta þá afstöðu Sjúkratrygginga Íslands, sem gerð hafi verið grein fyrir að framan, og staðfesta hina kærðu ákvörðun um 5% varanlega læknisfræðilega örorku.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ágreining um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X 2018. Með ákvörðun, dags. 19. desember 2019, mátu Sjúkratryggingar Íslands varanlega læknisfræðilega örorku kæranda vegna slyssins 5%.

Í læknisvottorði E heimilislæknis, dags. 24. júní 2019, segir svo:

„Vinnuslys X 2018, kl. X. Var á leið úr vinnu hélt í hurðarhún og rann til þannig að hún fór nánast í splitt, fékk högg aftanvert á læri. Varð mjög verkjuð aftan í læri og niður að hné. Skoðun: Stórt hematoma, mar, aftan á hægra læri, en ekki að finna eymsli yfir mjaðmagrind, hreyfingar í mjaðmarliðum og skoðun á hnjám eðlileg. Ákveðið að fá myndgreiningu, ómun, m.t.t áverka á hamstrings-vöðva/sinar.

Ráðleggingar og fær vottorð til vinnuveitanda,vegna veikinda í sumarleyfi.

Niðurstöður ómunar sem gerð var hjá Myndgreiningu Hjartaverndar þann 11. júlí 2018 var efturfarandi: Það er rof, typa 3 í distölu sameinuðu sinafestu Hamstrings vöðva vinstra megin.

Haft samband við [kæranda] þann 12. júlí 2018 og hún upplýst um niðurstöður rannsókna, að það sé rof í Hamstrings-vöðvanum vinstra megin. Reiknað með að meðferð verði konservativ og eftirfylgni verði hjá læknum Orkuhússins

Sjúkdómsgr.: Áverki á vöðva og sin úr aftari vöðvahópnum við læri ICN nr. S76.3

Þann 16. júlí hefur heimilislæknir símasamband við A.

Búið að hafa samband við bæklunarskurðlækni, sem telur að ekki ábending fyrir skurðaðgerð þar sem um er að ræða distal rof á hamstrings vöðvum. Hins vegar er ráðlögð hvíld og kæling og síðan varlegt ástig í kjölfarið eftir getu sem má auka hægt og rólega næstu fjórar vikurnar. Síðan mætti í kjölfarið á því hefja teygjur og styrktaræfingar sem að öllum líkindum væri heppilegast að gera hjá sjúkraþjálfara ef með þarf. Að öðru leyti ekki þörf á frekari meðferð.

Syndir daglega Stígur varlega í. Komin með glettilega góða hreyfigetu. Mar komið niður á ökkla. Farin að stífna upp í rasskinninni og hinum fætinum því hún beitir sér öðruvísi en áður.

Tilvísun skrifuð og send til D, bæklunarskurðlæknis í Orkuhúsinu og hann beðinn um að taka málið að sér.

Þann 26. júlí 2018 leitar [kærandi] aftur á X og hittir aftur sinn heimilislækni að máli. Færsla dagsins er eftirfarandi. Kveðst hún á margan hátt þokkaleg. Getur setið yfirleitt en ekki í vinnunni þannig að hún stendur við vinnu sína, en verður frekar lúin. Fór til vinnu 23. júlí 2018 og vann heilan dag, sem var of mikið. Síðan unnið rúmlega 50% starf. Aum medialt fyrir ofan hægra hnéð Einnig hvellaum neðan við setbeinið þar sem palperast hola. Hringt í G röntenlækni, sem staðfestir að rifan í vöðvanum er proximalt og umfangsmikil, nær yfir í gluteus medius og addutctora.

Farin að geta hreyft sig meira og hefur getað verið í 50% starfi, en á erfitt með að sitja vegna verkja. Fær tilvísun í sjúkraþjálfun en á ekki að byrja í þjálfun fyrr en 4 vikum eftir slysið, en gæti fengið ráðgjöf sjúkraþjálfara um hvað hún megi gera.

Fyrir liggur bréf frá D, dags. 27. ágúst 2018 sem hefur þá skoðað ofangreinda konu og metur stöðuna eftirfarandi:

Hún er líklegast með 3° rupturu á proximal hamstrings en er að jafna sig vel og ráðlegg ég núna að hún bóki tíma hjá sjúkraþjálfara, er með tilvísun frá heimilislækni. Við sjáum nú hvernig einkennin þróast næstu vikurnar, mánuðina. Maður reiknar með að þetta taki hana 3-6 mánuði að jafna sig á þessu. Ef hún versnar eða ný koma upp þá verður hún í sambandi.

Sjúkdómsgreining: Injury of muscle and tendon at hip and thigh level, S76.

Skv. sjúkraskránni virðist [kærandi] ekki eiga fleiri komur hingað á Heilsugæsluna Sólvangi vegna framangreinds slyss.“

Í læknisvottorði D sérfræðings í bæklunarskurðlækningum segir um slys kæranda:

3. Sjúkra og áverkasaga

[Kærandi] er annars hraust kona. Þann X 2018 er hún á leið heim frá vinnu þegar hún rennur til á gólfinu og fer með fæturna í hálfgerðan „splitt“. Finnur strax fyrir verk í aftanverðu vinstra læri og fram kemur mikið mar á aftanvert lærið. Jafnar sig hægt og rólega en verður aldrei alveg einkennalaus.

4. Einkenni

Þreytuverkir í aftanverðu við lengra álag. Verkir við hlaup og á einnig erfitt með að sitja lengi.

5. Skoðun

Kom til skoðunar til undirritaðs á læknastofu í Orkuhúsinu þann 27. ágúst 2018. Við skoðun er [almennt] ástand gott og hún gengur óhölt. Ágætur styrkur í aftanlærisvöðvum (hamstrings) og rassvöðvum en óþægindi við teygju á aftanlærisvöðvum. Góður hreyfanleiki í mjaðmalið og ekki hægt að framkalla einkenni frá mjaðmalið. Það eru þreyfieymsli yfir setbeini (tuber ischii) og nærfestu aftanlærisvöðva og þreifanleg hola í sininni neðan við festuna. Ekki merki um áreiti á settaug (n. ischiadicus).

6. Rannsóknir

Í kjölfar áverkans fer [kærandi] í segulómskoðun af lærum í Hjartavernd. Þar sést fullþykktar áverki í nærfestu aftanlærisvöðva. Vökvasöfnun kringum áverkann og bil milli sinaenda.

7. Meðferð

Fékk tilvísun til sjúkraþjálfara hjá heimilislækni. Var ekki byrjuð í sjúkraþjálfun við komu til undirritaðs en ráðlagt að boða tíma í endurhæfingu og meðferð hjá sjúkraþjálfara.

8. Horfur

[Kærandi] hefur fengið talsverðan áverka á sinafestu vöðvanna í aftanverðu læri og mun líklega aldrei ná sér alveg að fullu. Markmið meðferðar er að hún hafi ekki einkenni við hversdagslegar athafnir og geti stundað léttari líkamsrækt. Ef að sitja eða við álag eða ef einkenni um settaugarertingu koma fram gæti þurft að framkvæma aðgerð þar sem sinin er saumuð aftur á festingu sína í setbeininu. Ljóst er að þrátt fyrir aðgerð myndi hún aldrei verða alveg einkennalaus.“

Samkvæmt læknisvottorðinu fékk kærandi eftirfarandi sjúkdómsgreiningu: Rifin sin og vöðvi í aftanverðu læri, S76.3.

Í tillögu C læknis að mati á varanlegri læknisfræðilegri örorku, dags. 25. nóvember 2019, segir svo um skoðun á kæranda 18. nóvember 2019:

„[Kærandi] gengur óhölt. Hún kveðst vera X cm á hæð og X kg. Standandi á gólfi getur hún gengið á tábergi og hælum sér, hún sest á hækjur sér og stendur upp en þetta er vont vegna verkja í vinstra hné. Við frambeygju nást fingur í gólf. Standandi á gólfi er ekki að sjá neina aflögun, rýrnun eða skekkjur á lærum, hvorki framanvert eða aftanvert. Liggjandi á baki eru ganglimir jafnlangir. SLR er 80/80. Það er greinilegur vökvi í vinstra hné og verkir að innanverðu. Mjaðmir hreyfast eðlilega og sársaukalaust, hægri eins og vinstri. Styrkur í lærvöðva þegar mjöðm er beygð er góður mót álagi. Liggjandi á maga er ekki að finna neina rýrnun eða aflaganir í tvíhöfða læris, það er ekki að sjá neina aflögun. Styrkur við beygju á hné mót álagi er greinilega minni í vinstri en hægri. Það er ekki hægt að þreifa neina hnúta eða fyrirferðir í vöðvum og virðast þeir eins en stór sin sem liggur upp á litla lærhnútu er þreifuð eðlileg hægra megin en hún er greinilega minni og veikari fyrir vinstra megin. Liggjandi á baki eru mæld ummál 15 cm ofan efri hnéskeljarpóls og eru þau eins á hægri og vinstri 43 cm. Skoðun gefur til kynna einstakling með eðlilega útlítandi læri og lærvöðva, það er ekki að finna verki við þreifingu, það er að finna rýrnun á sin sem liggur frá tvíhöfða upp á litlu lærhnútu og minni styrk við beygju um vinstri hnélið [samanborið] við hægri.

Sjúkdómsgreining vegna afleiðinga slyssins: S76,3

Niðurstaða: 5%“.

Í útskýringu tillögunnar segir svo:

„Vísast í töflur Örorkunefndar kafli VII Ba liður 4, gróið mjaðmabrot en álagsóþægindi með [vægri] hreyfiskerðingu er 5%. Þessi liður finnst undirrituðum passa við þau óþægindi og vandamál er [kærandi] hefur í dag. Það er um að ræða minnkaðan styrk við beygju á hnélið, það eru óþægindi við að sitja og úthaldsleysi til langra göngu. Rétt er að benda á niðurstöðu segulómskoðunar sem framkvæmd er í Myndgreiningu Hjartaverndar 25.07.2019 og er niðurstaða röntgenlækna þannig „Það er ástand eftir áverka/rifu á sameiginlegri hamstring sin vinstra megin, í kjölfarið er atrophia á biceps femoris langhöfði, semitendinosus og semimembranosus.“ Þessi rannsókn sýnir hér fram á rýrnun á þessum aðalvöðvum aftari hluta lærleggjar. Undirritaður telur meiri líkur en minni til þess að með viðvarandi aktívum æfingum sé mögulega hægt að draga úr einkennum. Ekki eru líkur til þess að einkenni munu versna og aðgerð mun aldrei vera í boði við þessu vandamáli“.

Ákvörðun slysaörorku samkvæmt lögum nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga er eingöngu læknisfræðileg þar sem tilteknir líkamsáverkar eru metnir til ákveðins örorkustigs. Félagslegir þættir, svo sem vinnufærni og áhrif örorku á getu til tekjuöflunar, koma ekki til álita. Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatsskrár/miskatöflur örorkunefndar frá árinu 2019 og/eða eftir atvikum hliðsjónarrit taflnanna þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka eru metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum, án tillits til starfs eða menntunar tjónþola.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á örorku kæranda og byggir mat sitt á fyrirliggjandi gögnum sem hún telur nægileg. Samkvæmt gögnum málsins bar slysið að með þeim hætti að kærandi rann á hálu gólfi með þeim afleiðingum að hún fór í „splitt“ með vinstri fót fram og hlaut áverka á aftanvert læri. Samkvæmt vottorði D læknis eru einkenni kæranda vegna slyssins þreytuverkir í aftanverðu vinstra læri við lengra álag. Þá muni kærandi líklega aldrei ná sér alveg að fullu. Samkvæmt örorkumatstillögu C læknis, dags. 25. nóvember 2019, eru afleiðingar slyssins taldar vera rýrnun á sin sem liggur frá tvíhöfða upp á litlu lærhnútu í aftanverðu vinstra læri og minni styrkur við beygju um vinstri hnélið samanborið við hægri. Vandamál kæranda séu minnkaður styrkur við beygju á hnélið, óþægindi við að sitja og úthaldsleysi til langrar göngu. Hann telur meiri líkur en minni á því að með viðvarandi aktívum æfingum sé mögulega hægt að draga úr einkennum kæranda í kjölfar slyssins og ekki séu líkur til þess að einkenni munu versna.

Af fyrirliggjandi gögnum fær úrskurðarnefnd ráðið að varanleg einkenni kæranda vegna slyssins séu áverkar á sinafestu vöðva í aftanverðu læri. Ljóst er að áverkarnir hamla kæranda í daglegu lífi og býr hún við varanlegt tjón af þessum sökum. Áverka kæranda er hvorki lýst í íslensku né dönsku miskatöflunum en úrskurðarnefndin telur rétt að jafna honum við lið VII.B.a.4. í miskatöflum örorkunefndar frá 2019, gróið mjaðmabrot en álagsóþægindi með vægri hreyfiskerðingu, sem metinn er til 5% varanlegrar örorku. Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd að varanleg læknisfræðileg örorka kæranda sé hæfilega metin 5%.

Í kæru er þess óskað að úrskurðarnefndin bíði með að úrskurða í málinu þar til matsgerð að beiðni kæranda liggur fyrir. Undir rekstri málsins kannaði úrskurðarnefndin hvort matsgerðin lægi fyrir með tölvupósti til lögmanns kæranda 11. júní 2020. Sú matsgerð liggur ekki enn fyrir, þrátt fyrir að rúmlega fjórir mánuðir séu liðnir frá því að kæra barst úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal úrskurðarnefndin kveða upp úrskurð svo fljótt sem kostur er og að jafnaði innan þriggja mánaða eftir að henni berst mál, nema sérstakar ástæður hamli. Þá segir í 5. mgr. 7. gr. laganna að um málsmeðferð hjá nefndinni fari að öðru leyti samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Þá segir í 2. mgr. 18. gr. laganna að aðili máls geti á hvaða stigi málsmeðferðar sem er krafist þess að afgreiðslu málsins sé frestað uns honum hafi gefist tími til þess að kynna sér gögn eða gera grein fyrir afstöðu sinni. Máli skal þó ekki frestað, hafi það í för með sér að farið sé fram úr lögmæltum fresti til afgreiðslu málsins.

Í ljósi framangreindra ákvæða um málshraða telur úrskurðarnefnd velferðarmála ekki rétt að bíða með að úrskurða í málinu. Úrskurðarnefndin lítur jafnframt til þess að kærandi getur óskað eftir endurupptöku málsins, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga, ef matsgerðin gefur tilefni til þess.

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 5% varanlega læknisfræðilega örorku kæranda er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 5% varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem A varð fyrir X 2018, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

                                                                                                                                                                                             Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum