Hoppa yfir valmynd
11. mars 2019 Innviðaráðuneytið

Aukið húsnæðisöryggi þeirra sem hafa fengið íbúðarhúsnæði á leigu starfs síns vegna í samráð

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Félagsmálaráðuneytið hefur birt drög að frumvarpi félags- og barnamálaráðherra um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994, í samráðsgátt til umsagnar. Umsagnarfrestur er til og með 24. mars. nk.

Frumvarpinu er ætlað að bæta réttarstöðu ákveðins hóps leigjenda við lok leigusamnings. Með því er lagt til að þegar starfsmaður leigir íbúðarhúsnæði af vinnuveitanda sínum muni hann framvegis eiga rétt til uppsagnarfrests við lok leigusamnings. Það er líkt og gildir almennt um leigjendur íbúðarhúsnæðis samkvæmt reglum húsaleigulaga, í stað þess að húsaleigusamningurinn falli sjálfkrafa niður án uppsagnar ef leigjandi lætur af störfum að eigin ósk, honum er löglega vikið úr starfi vegna brota í því eða vegna þess að fyrir fram umsömdum ráðningartíma er lokið.

Þannig er gert ráð fyrir að umræddur hópur njóti framvegis sama réttar til uppsagnarfrests við lok leigusamnings og aðrir leigjendur íbúðarhúsnæðis. Þykir breytingin mikilvægur liður í að auka húsnæðisöryggi þeirra sem hafa fengið íbúðarhúsnæði á leigu starfs síns vegna.

Nánari grein er gerð fyrir efni frumvarpsins í samráðsgáttinni.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum