Hoppa yfir valmynd
24. júlí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 140/2013

Úrskurður

   Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 24. júlí 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 140/2013.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 17. október 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að þar sem hann hefði verið erlendis tímabilið 10. júlí til 31. ágúst 2013 og uppfyllti ekki skilyrði þess að fá greiddan biðstyrk á því tímabili, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, hefði kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á því tímabili samtals að fjárhæð 239.950 kr. með 15% álagi sem innheimtar verði skv. 2. mgr. 39. gr. laganna. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að leggja á fjárhæðina 15% álag og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 27. nóvember 2013. Kærandi krefst þess að 15% álagið verði fellt niður. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 5. september 2012 og fékk greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við rétt sinn. Í febrúar hafði kærandi fullnýtt þriggja ára bótatímabil sitt og þann 14. febrúar 2013 hóf kærandi að þiggja greiðslur biðstyrks á grundvelli reglugerðar um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði á árinu 2013 til atvinnuleitenda sem eru þátttakendur í verkefninu „Liðsstyrkur“, nr. 47/2013. Þann 20. ágúst 2013 hafði kærandi fullnýtt rétt sinn til greiðslu biðstyrks á grundvelli reglugerðar nr. 47/2013.

Vinnumálastofnun barst ábending um að kærandi hefði verið staddur erlendis og með bréfi, dags. 9. september 2013, var honum tilkynnt að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um að hann hefði verið staddur erlendis frá 10. júlí til 31. ágúst 2013. Stofnunin óskaði eftir skriflegri afstöðu frá kæranda vegna ótilkynntrar ferðar erlendis skv. 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Þann 12. september 2013 barst Vinnumálastofnun skýringarbréf kæranda þar sem hann greindi frá því að hann hefði gleymt að láta stofnunina vita um ferð sína erlendis. Með bréfi, dags. 30. september 2013, var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun að stöðva greiðslur til hans þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda var leiðbeint um að ef stofnuninni myndu berast skýringar, flugfarseðlar eða gögn sem sýndu fram á að hann hefði verið á Íslandi á tímabilinu júlí/ágúst 2013 yrði réttur hans til atvinnuleysisbóta metinn að nýju.

Þann 11. október 2013 bárust Vinnumálastofnun flugfarseðlar vegna ferðar kæranda erlendis. Var kærandi samkvæmt þeim staddur erlendis á tímabilinu 10. júlí til 31. ágúst 2013. Á fundi stofnunarinnar þann 17. október 2013 var mál kæranda tekið fyrir að nýju. Ljóst var að rétti kæranda til biðstyrks lauk 20. ágúst 2013 og var sú ákvörðun tekin að kærandi skyldi endurgreiða stofnuninni ofgreiddar biðstyrksgreiðslur fyrir tímabilið 10. júlí til 20. ágúst 2013 samtals að fjárhæð 239.950 kr. með 15% álagi. Var kæranda tilkynnt um ákvörðun þessa með bréfi, dags. 17. október 2013.

Þann 23. október 2013 barst Vinnumálastofnun bréf frá kæranda þar sem hann greindi frá því að áður en hann flaug til B hafi hann mætt á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og tilkynnt að hann væri að fara úr landi í sjö vikur. Þá greindi kærandi frá því að hann tali mjög slæma ensku og að fólk skilji hann ekki alltaf. Sonur kæranda hafi ekki vitað af því að hann hafi farið úr landi og staðfesti hann atvinnuleit fyrir kæranda hjá Vinnumálastofnun. Kærandi óskaði eftir niðurfellingu á því 15% álagi sem lagt var á skuld hans við Vinnumálastofnun.

Með bréfi, dags. 28. október 2013, var kæranda tilkynnt um að í kjölfar endurupptöku á máli hans á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga hafi fyrri ákvörðun frá 17. október 2013 verið staðfest.

Í kæru greinir kærandi frá því að hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá 10. júlí til 31. ágúst 2013 en farið á sama tíma til síns heimalands. Hann fór sjálfur og lét Vinnumálastofnun vita í byrjun júlí. Sonur hans C hafi séð um að staðfesta atvinnuleit fyrir föður sinn þar sem hann hefur ekki og kann ekki á tölvu. Sonur hans hafi ekki vitað að kærandi hefði farið erlendis þar sem hann dvelur í D. Þegar kærandi kom aftur til landsins hafi hann haft samband við son sinn til að biðja hann að aðstoða sig við að skrá sig aftur hjá Vinnumálastofnun og fóru þeir saman þangað. Um mistök hafi verið að ræða og sé fullur vilji að endurgreiða strax ofgreiddar bætur.

Ekki hafi verið um brotavilja að ræða af hálfu kæranda heldur hafi feðgar ekki verið í miklu sambandi og lét kærandi son sinn ekki vita að hann færi erlendis. Því hafi verið um mistök að ræða sem kom í ljós þegar þeir mættu á Vinnumálastofnun strax 2. september 2013. Þá strax hafi verið fullur vilji til að leiðrétta ofgreiðsluna.

 Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 4. febrúar 2014, bendir stofnunin á lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir.

Með reglugerð nr. 47/2013 var Vinnumálastofnun veitt heimild til að greiða atvinnuleitendum svokallaðan biðstyrk þó svo að þeir hefðu klárað rétt sinn til atvinnuleysisbóta.

Þegar bótaréttur kæranda leið undir lok þann 13. febrúar 2013 fékk hann greiddan biðstyrk frá 14. febrúar til 20. ágúst 2013.

Af fyrirliggjandi gögnum í máli kæranda sé ljóst að hann var staddur erlendis á tímabilinu 10. júlí til 31. ágúst 2013 samhliða greiðslum biðstyrks. Á fundi stofnunarinnar þann 17. október 2013 hafi sú ákvörðun verið tekin að kærandi skyldi endurgreiða stofnuninni ofgreiddar biðstyrksgreiðslur er hann hafði þegið á tímabilinu 10. júlí til 20. ágúst 2013, samtals að fjárhæð 239.950 kr. að meðtöldu 15% álagi. Krafa Vinnumálastofnunar um endurgreiðslu sé byggð á 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar hafi kærandi farið fram á að fellt verði niður það 15% álag sem lagt var á skuld kæranda við Vinnumálastofnun. Að mati stofnunarinnar hafi kærandi ekki fært fram rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til þess að hann fékk ofgreiddar biðstyrksgreiðslur. Í bréfi kæranda sem barst Vinnumálastofnun þann 23. október 2013 greindi kærandi frá því að hann hafi fyrir brottför sína til Litháens komið á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og tilkynnt að hann væri að fara úr landi í sjö vikur. Af samskiptasögu kæranda og Vinnumálastofnunar verði ekki ráðið að kærandi hafi tilkynnt stofnuninni um ferð sína erlendis. Þá geti Vinnumálastofnun ekki fallist á að þær skýringar kæranda um að syni hans, sem staðfesti fyrir hann atvinnuleit, hafi ekki verið kunnugt um að faðir sinn væri staddur erlendis, geti leitt til þess að fella eigi niður það 15% álag sem lagt var á skuld kæranda við Vinnumálastofnun.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. febrúar 2014, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 28. febrúar 2014. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að því hvort kæranda beri að greiða 15% álag vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta á tímabilinu frá 10. júlí til 31. ágúst 2013 að fjárhæð 239.950 kr. Reiknast því álagið alls 31.298 kr.

Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum og er kveðið á um 15% álag í 2. mgr. greinarinnar sem er svohljóðandi:

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Rök kæranda fyrir því að fella eigi niður álagið eru þau að kærandi, sem kveðst hafa látið son sinn séð um að staðfesta atvinnuleit fyrir sig, hafði ekki látið son sinn vita að hann yrði erlendis á umræddu tímabili. Jafnframt kveðst kærandi hafa komið á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar til að tilkynna um brottför sína af landinu, en sú heimsókn er ekki skráð í samskiptasögu kæranda og Vinnumálastofnunar. Á þessar skýringar gat Vinnumálastofnun ekki fallist og er óhjákvæmilegt annað en að fallast á það mat stofnunarinnar af hálfu úrskurðarnefndarinnar, enda hefur kærandi ekki lagt fram nein gögn máli sínu til stuðnings. Verður því samkvæmt framangreindu og með vísan til rökstuðnings Vinnumálastofnunar að staðfesta ákvörðun stofnunarinnar um að kæranda beri að greiða 15% álag á ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

 

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að A beri að greiða 15% álag vegna endurkröfu á hendur kæranda vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 10. júlí til 31. ágúst 2013 er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum