Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2001 Heilbrigðisráðuneytið

18. - 24. ágúst 2001

Fréttapistill vikunnar
18. - 24. ágúst 2001


Sumarfundur heilbrigðis- og félagsmálaráðherra Norðurlanda á Álandi

Dagana 26. og 27. ágúst nk. verður haldinn árlegur sumarfundur heilbrigðis- og félagsmálaráðherra Norðurlanda í Mariehamn á Álandi. Meginviðfangsefni fundarins er snemmbúin inngrip í vanda barna og ungmenna. Verður þar einkum rætt um aðgerðir til að bæta stöðu ungmenna í þjóðfélaginu og bakgrunn ýmissa vandamála barna og ungmenna, svo sem vaxandi unglingadrykkkju, fíkniefnaneyslu og ofbeldi. Ráðherrarnir munu taka ákvörðun framtíð Norrænu lyfjanefndarinnar og Norrænu tannlækningastofnunarinnar NIOM. Schengen-lyfjavottorðin verða einnig til umfjöllunar en þau eru fyrir sjúklinga sem taka lyf sem innihalda ávana- og fíkniefni sem fólk þarf á að halda vegna meðferðar við sjúkdómum. Um þetta skortir samræmdar reglur á Schengensvæðinu. Loks munu ráðherrarnir fjalla um tillögur í skýrslunni "Umleikin vindum veraldar" sem fjallar um skipulag norræns samstarfs til framtíðar og lögð var fram á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í nóvember árið 2000.

Sænsku tryggingasamtökin AFA kynna sér íslenska almannatryggingakerfið
Hópur sérfræðinga frá sænsku tryggingasamtökunum AFA heimsóttu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið í vikunni til að fræðast um íslenska almannatryggingakerfið. AFA eru samtök í eigu aðila vinnumarkaðarins í Svíþjóð og tryggja yfir 50% Svía á vinnumarkaði fyrir slysum og viðbótar sjúkrakostnaði. Samtökin sinna einnig ýmsum verkefnum á sviði vinnuverndar og slysavarna. Aðilar vinnumarkaðarins fólu samtökunum nýlega viðamikið verkefni á landsvísu þar sem markmiðið er að stuðla að bættri heilsu fólks, draga úr veikindaforföllum og fækka vinnuslysum. Samtökunum hafa þegar verið tryggðar rúmar 100 milljónir sænskra króna til verkefnisins á næstu tveimur árum. Sænsku sérfræðingarnir höfðu einkum áhuga á að fá heildarmynd af tryggingakerfi Íslendinga og einnig sóttust þeir eftir ýmsum upplýsingum varðandi vinnuslys og endurhæfingu. Á kynningu sem haldin var fyrir sérfræðingana í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu fluttu erindi Dr. Jón Sæmundur Sigurjónsson, hagfræðingur, Sigurður Thorlacius, tryggingayfirlæknir og Sæmundur Stefánsson, upplýsingafulltrúi Tryggingastofnunar ríkisins (TR). Enn fremur tóku þátt í kynningunni Kristján Guðjónsson, forstöðumaður sjúkrasviðs TR og Una Björg Ómarsdóttir, deildarstjóri á slysadeild TR.
HEIMASÍÐA SÆNSKU TRYGGINGASAMTAKANNA AFA...

Fimm greindir með HIV smit fyrstu sex mánuði þessa árs
Alls hafa 148 tilfelli HIV sýkingar verið tilkynntar hér á landi frá því að sjúkdómurinn greindist hér fyrst. Af þeim hafa 52 sjúklingar greinst með alnæmi og 34 hafa látist af völdum sjúkdómsins. Fimm greindust með HIV sýkingu á fyrstu sex mánuðum þessa árs, fjórir karlar og ein kona. Þetta kemur fram í tölum frá Sóttvarnarlækni sem birtar eru á heimasíðu landlæknisembættisins. Nýgengi HIV sýkinga hefur aukist frá árinu 1993, þótt nýgengi alnæmis hafi lækkað og dánartíðni einnig í kjölfar nýrrar lyfjameðferðar. Í umfjöllun Sóttvarnarlæknis kemur fram að veruleg breyting hefur orðið á hlutfallslegri skiptingu áhættuhópa frá því að sjúkdómsins varð fyrst vart. Samkynhneigðir karlar voru hlutfallslega flestir til ársins 1992. Eftir það hefur gagnkynhneigðum sem smitast við kynmök fjölgað hlutfallslega jafnt og þétt og eru nú í meirihluta þeirra sem greinast með smit. Þótt nýgengi alnæmis hafi lækkað og dauðsföllum fækkað greinast enn sjúklingar með alnæmi og enn látast sjúklingar vegna sjúkdómsins. Sóttvarnarlæknir leggur ríka áherslu á að að sumir sjúklingar þola ekki lyfjameðferð og hjá nokkrum þeirra hefur veiran myndað ónæmi gegn lyfjunum. Lyfjameðferð sé ævilöng, reynist mörgum erfið og sé þjóðfélaginu afar dýr. Brýn nauðsyn sé að efla forvarnir gegn HIV smiti með öllum tiltækum ráðum.
NÁNAR...

Rekstrarkostnaður Landspítala - háskólasjúkrahúss tæpar 250 milljónir umfram fjárheimildir
Samkvæmt sex mánaða rekstraruppgjöri Landspítala - háskólasjúkrahúss (LSH), janúar - júní, fór rekstur sjúkrahússins 247 m.kr. umfram fjárheimildir. Þar til viðbótar fór kostnaður vegna S-merktra lyfja tæpar 60 m.kr. umfram fjárheimildir. Í áætlun fyrir tímabilið var hins vegar gert ráð fyrir að kostnaður umfram heimildir yrði 50 m.kr. Í greinargerð framkvæmdastjóra með nýtúkomnum Stjórnunarupplýsingum sjúkrahússins, kemur fram að launagjöld eru sem fyrr stærsti kostnaðarliðurinn, eða 68,6% af heildargjöldum sjúkrahússins og eru 2,3% hærri en áætlað var fyrir tímabilið. Rekstrargjöld eru 27,6% af heildargjöldum sjúkrahússins sem er 5,2% umfram áætlun. Þá kemur fram að áhrif verðlags- og gengisbreytinga á rekstrarkostnað spítalans hafa verið umtalsverð það sem af er árinu, en talsvert af aðföngum sjúkrahússins eru keypt fyrir erlenda gjaldmiðla. Í greinargerðinni kemur fram að verið sé að meta áhrif launahækkana á launakostnað sjúkrahússins, en kjarasamningar hafa verið undirritaðir við flesta starfshópa. Þá segir í greinargerðinni að þau svið sem eru umfram fjárheimildir hafa verið til sérstakrar skoðunar þar sem metnar eru aðgerðir til hagræðingar á árinu og í samráði við stjórnarnefnd spítalans verður ákveðið hvernig við skuli bregðast.
NÁNAR...

Langtímaáætlun í heilbrigðismálum
Heilbrigðisáætlun til ársins 2010 - langtímaáætlun í heilbrigðismálum er komin út á vegum heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytisins, en Alþingi samþykkti áætlunina á fundi sínum 20. maí s.l. með 46 samhljóða atkvæðum. Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, ritar formála að áætluninni og kemur þar m.a. fram að öll meginmarkmið áætlunarinnar verða tekin til endurskoðunar að fimm árum liðnum. Ráðherra lýsir ánægju sinni með þá breiðu samstöðu sem tókst meðal þeirra sem undirbjuggu og afgreiddu áætlunina, en nefndin sem vann tillögur að heilbrigðisáætlunni var undir forsæti Davíðs Á. Gunnarsson, ráðuneytisstjóra. Heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytið mun annast stjórnsýslulega framkvæmd áætlunarinnar. Gert er ráð fyrir að í haust verði fyrstu starfshóparnir kallaðir til ráðuneytis um það hvernig hrinda má í framkvæmd þeim vilja Alþingis sem felst í samþykktri heilbrigðisáætlun til ársins 2010. Áætlunin er aðgengilega á heimsíðu ráðuneytisins sem pdf skjal:
Heilbrigðisáætlun til ársins 2010



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
24. ágúst 2001

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum