Hoppa yfir valmynd
26. júlí 2004 Utanríkisráðuneytið

Stofnun stjórnmálasambands

Hjálmar W. Hannesson og Cheick Sidi Diarra undirrita yfirlýsinguna.
Hjálmar W. Hannesson og Cheick Sidi Diarra undirrita yfirlýsinguna

Föstudaginn 23. júlí sl. var undirrituð í New York yfirlýsing um stofnun stjórnmálasambands milli Íslands og Malí. Fastafulltrúar ríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, sendiherrarnir Hjálmar W. Hannesson og Cheick Sidi Diarra undirrituðu yfirlýsinguna.

Malí er landlukt ríki í Vestur-Afríku með landamæri að Alsír, Mauritaníu, Senegal, Gíneu, Fílabeinsströndinni, Búrkína Faso og Níger. Norðurhluti þess er Sahara-eyðimörkin en frjósamt land er í suðri. Áin Níger rennur í gegnum mið- og suðvesturhluta Malí, sem er tæplega tíu sinnum stærra en Ísland að flatarmáli. Höfuðborgin er Bamako. Íbúafjöldi landsins er um 11,7 milljónir manna.

Malí er fátækt þróunarríki sem háð er þróunaraðstoð vestrænna ríkja. Helsta atvinnugreinin er landbúnaður og baðmull er aðal útflutningsvaran, en hrísgrjónarækt er einnig mikilvæg. Á síðari árum hefur gull- og demantanám og vinnsla demanta, þungmálma og olíu einnig sótt í sig veðrið. Ferðamenn koma til Malí til að fara í safaríferðir meðfram ánni Níger.

Malí var áður frönsk nýlenda en öðlaðist sjálfstæði frá Frökkum árið 1960. Moussa Traoré hershöfðingi hrifsaði til sín völdin í Malí árið 1968 og lauk valdatíð hans með handtöku hans árið 1991. Kosningar fóru fram í landinu árið 1992 og er núverandi forseti þess Alpha Oumar Konaré. Malí varð aðili að Sameinuðu þjóðunum árið 1960. Malí tekur sem lýðræðisríki þátt í svokölluðu "Human Security Network"-samstarfi og hafði formennsku þess með höndum sl. ár á undan Kanada sem nú fer með formennskuna.



Hjálmar W. Hannesson og Cheick Sidi Diarra undirrita yfirlýsinguna.
Hjálmar W. Hannesson og Cheick Sidi Diarra undirrita yfirlýsinguna

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum