Hoppa yfir valmynd
31. ágúst 2005 Forsætisráðuneytið

17. og 18. skýrsla Íslands um framkvæmd alþjóðasamnings um afnám alls kynþáttamisréttis

17. og 18. skýrsla Íslands um framkvæmd alþjóðasamnings um afnám alls kynþáttamisréttis var tekin fyrir hjá nefnd Sameinuðu þjóðanna um samninginn í Genf fyrr í þessum mánuði. Hér á eftir fara niðurstöður nefndarinnar.I. Inngangur

Þann 10. og 11. ágúst sl., var tekin fyrir hjá Sameinuðu þjóðunum í Genf 17. og 18. skýrsla Íslands um framkvæmd alþjóðasamnings um afnám alls kynþáttamisréttis.

Af hálfu Íslands sóttu fundinn Anna Jóhannsdóttir frá utanríkisráðuneyti, Ragna Árnadóttir og Þórdís Ingadóttir af hálfu dómsmálaráðuneytisins og Ingibjörg Broddadóttir frá félagsmálaráðuneyti.

Íslenska sendinefndin svaraði skriflegum spurningum frá nefndinni svo og munnlegum viðbótarspurningum sem nefndarmenn báru fram á fundinum. Alls var komið inn á 27 svið er varða löggjöf um útlendinga og atvinnuréttindi útlendinga, almenn hegningarlög, lög um kosningu til sveitarstjórna o.fl.

Niðurstöður nefndarinnar hafa nú borist íslenskum stjórnvöldum, lýsir nefndin ánægju með fjölmörg atriði en auk þess lýsir hún þeim atriðum sem að hún telur að íslensk stjórnvöld þurfi að huga betur að.


II. Fagnaðarefni

Nefndin lýsir yfir ánægju með að Ísland hafi fullgilt fjölda mannréttindasamninga síðan árið 2001, þ. á m. báða viðauka við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og jafnframt svæðisbundna samninga sem tengjast valdsviði nefndarinnar. Nefndin fagnar nýlegum lagabreytingum sem bæta réttarstöðu útlendinga og nefnir í því sambandi lög um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002 og breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna sem veittu útlendingum kosningarétt og kjörgengi. Nefndin lýsir yfir ánægju með tilvonandi stofnun innflytjendaráðs sem mun gera tillögur til ríkisstjórnar um stefnumótun í málefnum útlendinga og vinna að samhæfingu þjónustu og upplýsingagjafar til útlendinga. Nefndin fagnar jafnframt dómi Hæstaréttar frá apríl 2002 þar sem einstaklingur sem réðst opinberlega gegn hópi fólks á grundvelli þjóðernis þess, litar- og kynþáttar var sakfelldur fyrir brot gegn 233. gr. a almennra hegningarlaga. Þá fagnar nefndin því að tiltekinn lögreglumaður innan lögreglunnar í Reykjavík hafi það hlutverk að vera tengiliður á milli lögreglunnar og útlendinga og miðli meðal annars kvörtunum útlendinga til viðeigandi yfirvalda.

III. Áhyggjuefni og tilmæli

Lagasetning, aðgerðir stjórnvalda o.fl.

Nefndin hvetur íslensk stjórnvöld til þess að taka efnisákvæði samningsins um afnám alls kynþáttamisréttis upp í íslenska löggjöf. Jafnframt leggur nefndin til að gripið verði til beinna aðgerða til að koma í veg fyrir kynþáttamismunun á öllum sviðum og að í því sambandi verði kannað hvort til greina komi að taka upp heildstæða löggjöf gegn mismunun sem hafi meðal annars að geyma úrræði gegn kynþáttamismunun við meðferð einkamála og stjórnsýslumála.

Fjárveitingar til Mannréttindaskrifstofu Íslands

Nefndin vísar til þess að ekki hafi verið gert ráð fyrir beinum framlögum til Mannréttindaskrifstofu Íslands í fjárlögum fyrir árið 2005 og að það fé sem áður hafi verið úthlutað til skrifstofunnar hafi verið úthlutað til almennra mannréttindaverkefna. Í þessu sambandi hvetur nefndin Ísland til að halda áfram samvinnu við frjáls félagasamtök sem berjast gegn kynþáttamismunun, meðal annars með því að tryggja fjárhag og sjálfstæði slíkra stofnana. Vísað er til þess að samkvæmt e-lið 1. mgr. 2. gr. samningsins skuldbindi hvert aðildarríki sig til að efla, þar sem slíkt á við, samtök og hreyfingar sem vinna að sameiningu kynþátta.

Þjálfun landamæralögreglu

Nefndin hvetur íslensk stjórnvöld til að efla reglubundna þjálfun landamæralögreglu í því skyni að auka þekkingu þeirra á öllum þáttum flóttamannaverndar og á aðstæðum í upprunalöndum hælisleitenda.

Málefni útlendinga

Þótt tilgangur skilyrðis útlendingalaga um að erlendur maki, sambúðarmaki eða samvistarmaki útlendings sem dvelst löglega hér á landi þurfi að vera 24 ára eða eldri til að fá dvalarleyfi sem aðstandandi, sé að koma í veg fyrir nauðungarhjónabönd eða hjónabönd til málamynda, hefur nefndin áhyggjur af því að skilyrðið geti leitt til mismununar í ljósi þess að lágmarksaldur til að gifta sig á Íslandi er 18 ár. Nefndin mælist til þess að aldursskilyrðið verði endurskoðað og að aðrar leiðir til að koma í veg fyrir nauðungarhjónabönd og málamyndahjónabönd verði kannaðar.

Nefndin hefur áhyggjur af því að sú staðreynd að vinnuveitendum eru veitt tímabundin atvinnuleyfi útlendinga en ekki þeim sjálfum geti leitt til brota á vinnuréttindum þeirra útlendinga sem starfa hér á landi tímabundið. Nefndin hvetur íslensk stjórnvöld til að efla úrræði til að koma í veg fyrir slík brot og til að tryggja að erlent vinnuafl sé varið gegn mismunun, einkum að því er varðar vinnuaðstæður og vinnuskilyrði.

Nefndin lýsir yfir áhyggjum af því að hælisleitendur, sem hafi verið synjað um hæli eða verið ákveðið að vísa úr landi, geti aðeins skotið þeirri ákvörðun til dómsmálaráðherra sem eftirlitsstjórnvalds, en að ákvörðun hans sæti aðeins takmarkaðri endurskoðun dómstóla um formsatriði frekar en efnisatriði. Nefndin leggur til að sjálfstæðum dómstól verði fengið vald til að endurskoða alla þætti í ákvörðunum Útlendingastofnunar og/eða dómsmálaráðherra sem varða synjun á hælisumsókn eða brottvísun hælisleitenda.

Kynþáttamismunun á opinberum stöðum, svo sem skemmtistöðum

Nefndin lýsir yfir áhyggjum af tilvikum þar sem einstaklingum hefur verið bannaður aðgangur að opinberum stöðum, svo sem skemmtistöðum, vegna kynþáttar og vísar jafnframt til þess að ekki séu til dómar þar sem reynt hefur á 180. gr. almennra hegningarlaga sem leggur bann við slíkri mismunun. Nefndin tekur fram að allir einstaklingar eigi rétt á aðgangi að opinberum stöðum án mismununar og leggur til að íslenska ríkið setji reglur um sönnunarbyrði í einkamálum sem varði synjun á aðgangi að opinberum stöðum vegna kynþáttar, litarháttar eða uppruna með þeim hætti að þegar einstaklingur hafi leitt líkum að því að hann sé fórnarlamb slíkrar synjunar þurfi varnaraðili að sýna fram á réttlætingu slíkrar mismunandi meðferðar.

Þörf á mannréttindastofnun í samræmi við Parísarreglurnar

Nefndin hvetur íslenska ríkið til að stuðla að stofnun mannréttindastofnunar í samræmi við svokallaðar Parísarreglur um stöðu innanríkisstofnana.

Önnur atriði

Af öðrum atriðum má helst nefna að nefndin hvetur íslenska ríkið til að fullgilda samning um stöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá 1954 og samning um minnkun á ríkisfangsleysi frá 1961. Jafnframt hvetur nefndin íslenska ríkið til að ljúka fullgildingu á viðauka við evrópska tölvuglæpasamninginn.

Þá hvetur nefndin íslenska ríkið til þess að halda áfram að gera skýrslur sínar til nefndarinnar og lokaathugasemdir nefndarinnar aðgengilegar almenningi.

Nefndin leggur til að íslenska ríkið skili 19. og 20. skýrslu sinni í einu lagi hinn 4. janúar 2008.

IV. Næstu skref

Farið verður ítarlega yfir niðurstöður nefndarinnar og hugað að viðbrögðum við framangreindum tilmælum hennar.

---

17. og 18 skýrsla Íslands um framkvæmd alþjóðasamnings um afnám alls kynþáttamisréttis. (pdf-skjal)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum