Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2016 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 46/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 11. febrúar 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 46/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU15080010

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru sem barst kærunefnd útlendingamála þann 20. ágúst 2015 kærði […] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. ágúst 2015, um brottvísun og endurkomubann kæranda til Íslands í tvö ár.

Kærandi gerir þá kröfu að kærunefnd útlendingamála ógildi ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. ágúst 2015, um að vísa kæranda úr landi og banna honum endurkomu til landsins í tvö ár.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi hér á landi fyrir maka Íslendings þann 3. febrúar 2014 og var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. desember 2014. Hinn 12. mars 2015 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun [...], sbr. 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga.

Útlendingastofnun tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 13. apríl 2015, að hann dveldist ólöglega í landinu og að honum kynni að verða vísað frá landinu og bönnuð endurkoma. Var kæranda gefinn kostur á að yfirgefa landið af sjálfsdáðum. Fyrir liggur að kærandi hefur ekki yfirgefið landið.

Með ákvörðun, dags. 7. ágúst 2015, ákvað Útlendingastofnun að brottvísa kæranda og banna honum endurkomu til landsins á grundvelli 20. gr. laga um útlendinga. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 20. ágúst 2015 og er til umfjöllunar í stjórnsýslumáli þessu.

Með bréfi, dags. 21. ágúst 2015, óskaði kærunefndin eftir afriti af gögnum málsins frá Útlendingastofnun auk þess sem stofnuninni var gefin kostur á að koma á framfæri athugasemdum vegna málsins teldi hún það nauðsynlegt. Umbeðin gögn bárust kærunefndinni með tölvupósti þann 8. september 2015.

Greinargerð talsmanns kæranda ásamt fylgigögnum bárust nefndinni þann 31. ágúst 2015.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda byggir á því að kæranda hafi verið synjað um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli 3. mgr. 13. gr. útlendingalaga. Kærandi dveljist því hér á landi í ólögmætri dvöl.

Ákvörðun Útlendingastofnunar byggir á því að skv. 20. gr. laga um útlendinga sé heimilt að vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann dvelst ólöglega í landinu. Þá byggir stofnunin á því að skv. 2. mgr. 20. gr. útlendingalaga skuli vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur ekki yfirgefið landið af sjálfsdáðum í samræmi við 2. mgr. 33. gr. útlendingalaga svo framarlega sem 21. gr. útlendingalaga eigi ekki við.

Var það niðurstaða Útlendingastofnunar að brottvísun kæranda fæli ekki í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda eða nánustu aðstandendum hans.

Var kæranda því vísað brott af landinu og honum bönnuð endurkoma til landsins í tvö ár.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir á því að brottvísunarákvörðun Útlendingastofnunar byggi á ólögmætri og ógildanlegri ákvörðun stofnunarinnar um að synja honum um dvalarleyfi. Þá telur hann að með ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið brotið gegn borgaralegum réttindum sem honum eigi að vera tryggð skv. ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944 og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Kærandi byggir jafnframt á því að brottvísun hans frá Íslandi feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum og maka hans og sé því andstæð 3. mgr. 21. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir á því að hann og maki hans skuli njóta friðhelgis einkalífs skv. ákvæðum 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þau hjónin hafi með réttu mátt vænta þess að þau gætu stofnað heimili og fjölskyldu á Íslandi sem nyti verndar ákvæða stjórnarskrár Íslands og mannréttindasáttmála Evrópu.

Þá byggir kærandi á því að skv. 3. mgr. 21. gr. laga um útlendinga skuli ekki ákveða brottvísun ef hún, í ljósi atvika máls eða tengsla útlendings við landið, feli í sér sérstaklega ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans. Kærandi telji augljóst að sú ákvörðun að brottvísa honum frá Íslandi feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum og maka hans, enda hafi þau nú haldið saman heimili hér á landi í að verða tvö ár.

Kærandi byggir einnig á því að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar að synja kæranda um dvalarleyfi hafi verið ólögmæt. Ákvörðunin hafi verið huglæg og byggst á geðþótta.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að brottvísa kæranda frá Íslandi og banna honum endurkomu til landsins í tvö ár.

Heimild til brottvísunar

Um heimild til brottvísunar útlendings sem staddur er hér á landi án tilskilinna leyfa er fjallað í a-lið 1. mgr. 20. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002. Samkvæmt greininni er heimilt að vísa útlendingi úr landi ef hann dvelur hér ólöglega, hefur brotið alvarlega eða margsinnis gegn einu eða fleiri ákvæðum laganna eða kemur sér hjá að hlíta ákvörðun sem felur í sér að hann skuli yfirgefa landið. Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. skal vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur ekki yfirgefið landið af sjálfsdáðum í samræmi við 2. mgr. 33. gr. útlendingalaga, svo framarlega sem 21. gr. laganna á ekki við.

Takmarkanir á heimild til brottvísunar

Kærandi byggir á því að sú ákvörðun Útlendingastofnunar að brottvísa honum feli í sér brot á stjórnarskrárvörðum rétti hans og maka. Kærandi og maki hafi mátt gera ráð fyrir því að mega búa hér á landi sem hjón og njóta friðhelgi einkalífs líkt og stjórnarskrá Íslands og mannréttindasáttmáli Evrópu geri ráð fyrir.

Réttur einstaklinga til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu er verndaður af ákvæðum 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Sá réttur er jafnframt tryggður í 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 17. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur vísað til þeirrar viðurkenndu meginreglu þjóðaréttar að ríki hafa, með fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar sínar, rétt til að stjórna aðgengi erlendra ríkisborgara að landsvæði sínu og dvöl þeirra þar. Skylda ríkisins til að virða, vernda og tryggja réttinn til einkalífs, heimilis og fjölskyldu skv. 8. gr. mannréttindasáttmálans, metin í þessu ljósi, felur ekki í sér almenna skyldu til að virða val hjóna eða sambúðarfólks á dvalarríki. Þá felur 8. gr. sáttmálans heldur almennt ekki í sér skyldu ríkis til að samþykkja umsókn erlends maka um leyfi til dvalar eða búsetu á yfirráðasvæði sínu (sjá t.d. Antwi ofl. gegn Noregi, dómur Mannréttindadómstóls Evrópu, 12. febrúar 2012 og Abdulaziz, Cabales og Balkandali gegn Bretlandi, dómur Mannréttindadómstóls Evrópu, 28. maí 1985). Ekki verður séð að tilgangur 71. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið að útvíkka gildissvið friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu umfram inntak 8. gr. mannréttindasáttmálans. Þegar kærandi gekk í hjúskap með íslenskum ríkisborgara var hann ekki með dvalarleyfi hér á landi. Á þeim tíma mátti kæranda vera ljóst að fyrir hendi gætu legið aðstæður sem valdið gætu synjun á útgáfu dvalarleyfis. Verður samkvæmt ofangreindu ekki talið að höfnun á dvalarleyfi kæranda og brottvísun hans frá landinu brjóti á rétti kæranda eða maka hans til friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu skv. 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar.

Takmarkanir á heimild til brottvísunar er að finna í 3. mgr. 21. gr. laga nr. 96/2002 þar sem segir að brottvísun skuli ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum og tengslum útlendingsins við landið, feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans.

Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga, með síðari breytingum, er inntaki 3. mgr. 21. gr. útlendingalaga gerð frekari skil. Segir þar í skýringum við 6. gr. breytingarlaganna sem urðu að 21. gr. útlendingalaga að líta þurfi m.a. til tengsla við landið, svo sem dvalartíma og fjölskyldutengsla.

Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að kærandi eigi önnur fjölskyldutengsl við landið en rakin hafa verið. Þá verður ekki talið að hann hafi myndað hér á landi önnur tengsl sem leitt gætu til þess að brottvísun teldist ósanngjörn ráðstöfun. Þá er ljóst að kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi hér og dvalið hér aðeins á grundvelli áritunarfrelsis eða í ólöglegri dvöl. Með vísan til framangreinds verður því ekki ráðið að kærandi hafi myndað slík tengsl við landið að ósanngjarnt sé að vísa honum af landi brott.

Líkt og fram hefur komið byggir kærandi á því að ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja honum um dvalarleyfi á Íslandi sé ólögmæt. Fyrir liggur að ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda dags. 17. desember 2014, um að synja kæranda um útgáfu dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar var staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 12. mars 2015. Samkvæmt 3. gr. a útlendingalaga er kærunefnd útlendingamála sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem úrskurðar í málum sem til hennar eru kærð á grundvelli 30. gr. sömu laga. Úrskurðum nefndarinnar er ekki unnt að skjóta til æðra stjórnvalds og eru því fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi og verður lögmæti þeirra því einungis borið undir dómstóla.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða kærunefndar að ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann kæranda af landi sé í samræmi við lög. Hin kærða ákvörðun er staðfest.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration regarding expulsion is affirmed.


Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Anna Valbjörg Ólafsdóttir Pétur Dam Leifsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum