Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2018 Utanríkisráðuneytið

Heil kynslóð Róhingja í hættu

Ljósmynd: UNICEF - mynd

Einu ári eftir að hundruð þúsunda Róhingja flúðu ofbeldisöldu í heimalandi sínu Mjanmar yfir til Bangladess er framtíð hálfrar milljónar barna og ungmenna í mikilli óvissu. Nú þegar dregið hefur úr straumi flóttafólks yfir landamærin er mikilvægt að huga að langtíma úrræðum og fjárfesta í menntun og tækifærum fyrir þau börn og ungmenni sem búa í flóttamannabúðum og samfélögum þar í kring. Þetta bendir UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðannna, á í alþjóðlegu neyðarákalli fyrir börn Rohingja.

Í dag búa ríflega 900 þúsund Róhingjar, sem eru ríkisfangslaus minnihlutahópur múslima frá Mjanmar, í sunnanverðri Bangladess. Flestir búa í flóttamannabúðum í Cox‘s Bazar fylki og mikill meirihluti, eða um 700 þúsund, flúðu þangað í ágúst á síðasta ári eftir að ofbeldi og ofsóknir gegn þeim í heimalandinu stigmögnuðust. Um 60% flóttafólksins eru börn. UNICEF bendir á að það er ekki einungis verið að ræna þessi börn barnæskunni heldur einnig framtíðinni.

Verður að fjárfesta í menntun

Hryllingurinn sem börnin hafa upplifað er ólýsanlegur. Sárin eftir ofbeldi og grimmd sem þau urðu fyrir eða urðu vitni að munu eflaust aldrei gróa og börn sem hafa týnt fjölskyldum sínum eða horft uppá fjölskyldumeðlimi og vini myrta eða svívirta bera þess varanlegan skaða. Nær ómögulegt er fyrir þá Róhingja sem hafa flúið að snúa aftur heim. Á meðan búa börn og ungmenni við algjöra óvissu um framtíð sína í þröngum og yfirfullum flóttamannabúðum á mjög fátæku svæði þar sem flóð og náttúruhamfarir eru algeng.

Mohamed, 13 ára, missti annan handlegginn þegar hermenn skutu á hann á flóttanum. Hann segir að það mikilvægasta fyrir sig núna sé að fá menntun, það sé mikilvægara en að fá gervihandlegg. „Ég sé yngri krakkana fara í skóla, en það er ekkert fyrir stráka eins og mig,“ segir Mohamed. „Ég er mjög leiður yfir að geta ekki lært hérna.“ Ashadia, 14 ára, bætir við: „Almennileg menntun er besta leiðin fyrir stelpur að bæta líf sitt. Við getum orðið það sem við viljum vera.“

Mörg barnanna höfðu aldrei aðgengi að menntun í heimalandinu og eru því að fara í skóla í fyrsta sinn í flóttamannabúðunum. Í flóttamannabúðunum hefur UNICEF sett upp fjölda barnvænna svæða þar sem börn fá óformlega menntun, sálrænan stuðning og geta leikið sér í öruggu umhverfi. Nú stefnir UNICEF að því að auka aðgengi eldri barnanna í búðunum að menntun og tækifærum til verkmenntunar, en til þess þarf aukinn fjárstuðning.

„Ef við fjárfestum ekki í menntun barna og ungmenna á svæðinu núna þá er veruleg hætta á því að upp vaxi „týnd kynslóð“ barna Rohingja, barna sem hafa ekki þá færni sem þau þurfa til þess að vinna sig út úr þeirri stöðu sem þau búa við núna. Þau munu auk þess eiga erfitt með að takast á við það verkefni að byggja upp samfélag sitt á ný þegar þau geta snúið aftur til Mjanmar,” segir Edouard Beigbeder, yfirmaður UNICEF í Bangladess.

Hjálp­ar­starfið um­fangs­mikið og þörf­in mikil

Sá mikli fjöldi Rohingja sem flúði á síðasta ári bættist í hóp hundruð þúsunda annarra sem höfðu flúið ofbeldið í Rakhine héraði í Mjanmar áður, en aldrei hafði annar eins fjöldi streymt yfir landamærin í einu. Það var því mikil áskorun fyrir stjórnvöld í Bangladess, UNICEF og samstarfsaðila að tryggja öryggi þeirra og veita neyðaraðstoð.

Aðgerðir sem voru settar í for­gang voru meðal ann­ars að setja upp vatnsdælur og hreinlætisaðstöðu, skima og meðhöndla vannærð börn, tryggja börn­um heilsu­gæslu, koma upp barn­væn­um svæðum í flótta­manna­búðum og veita sál­ræn­a aðstoð. Þökk sé stuðningi frá alþjóðasamfélaginu og almenningi sem svaraði neyðarkalli UNICEF fyrir Rohingja, til dæmis á Íslandi, var unnt að koma hjálpargögnum hratt á svæðið og náðist þannig að afstýra miklum hörmungum, útbreiðslu smitsjúkdóma og hungursneyðar á svæðinu. Frá september til júlí hafa UNICEF og samstarfsaðilar náð að dreifa mikið af hjálpargögnum og veita börnum og fjölskyldum þeirra þeirra í búðunum lífsnauðsynlega hjálp, meðal annars:

  • Veita ríflega 25.000 börnum meðferð við bráðavannæringu;
  • Bólusetja 1,8 milljón börn og fullorðna gegn kóleru;
  • Tryggja 323.900 manns aðgengi að hreinu drykkjarvatni;
  • Veita 149.587 börnum sálrænan stuðning;
  • Tryggja 115.029 börnum á aldrinum 4 til 14 ára óformlega menntun.

Í neyðarákalli sínu varar UNICEF við því að staðan sé verulega viðkvæm og mikil þörf sé á auknum alþjóðlegum fjárstuðningi til þess að hægt sé að að huga að úrræðum til lengri tíma, fjáfesta í menntun og bæta gæði kennslunnar til að mæta þörfum stúlkna og unglinga sem eiga á hættu á að einangrast, vera seld í þrælkunarvinnu eða giftast barnung.

UNICEF kallar einnig eftir langtímalausn á áratuga langri mismunun, útskúfun og ofsóknum gegn Rohingjum og að þeir Rohingjar sem vilja snúa heim aftur geti gert það á öruggan hátt.

Hægt er að styðja neyðaraðgerðir UNICEF fyrir börn Rohingja með því að senda SMS-ið BARN í nr 1900 (1900 krónur) eða leggja inn á reikning 701-26-102020, kt 481203-2950.

Framlög heimsforeldra hafa einnig runnið til neyðaraðgerða UNICEF fyrir börn á flótta frá Mjanmar.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum