Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2013 Innviðaráðuneytið

Framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Innanríkisráðherra hefur samþykkt eftirfarandi tillögur ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga frá 24. janúar síðastliðinn um úthlutanir framlaga úr sjóðnum.

Viðbótarframlög vegna skólaaksturs 2012

Framlög vegna skólaaksturs úr dreifbýli falla undir B-hluta útgjaldajöfnunarframlaga sjóðsins, skv. 13. gr. reglugerðar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, nr. 960/2010. Til ráðstöfunar  til greiðslu þeirra framlaga voru 750 m.kr. á árinu 2012. Til úthlutunar og greiðslu  komu samtals 575 m.kr. á árinu  með mánaðarlegum greiðslum. Áætlað var að 175 m.kr. kæmu til úthlutunar í árslokin á grundvelli umsókna, sbr. b-lið 3. gr. vinnureglna frá 11. desember 2012, vegna íþyngjandi kostnaðar sveitarfélaga við skólaakstur úr dreifbýli á árinu 2012 umfram tekjur úr Jöfnunarsjóði þar að lútandi.

Ráðgjafarnefndin leggur til að viðbótarframlög vegna íþyngjandi kostnaðar við skólaakstur úr dreifbýli á árinu 2012 nemi samtals um 170,3 m.kr. Framlögin komu til greiðslu 31. janúar sl. og hafa endanleg útgjaldajöfnunarframlög sjóðsins á árinu 2012 verið endurskoðuð með tilliti til þessa.

Endanleg útgjaldajöfnunarframlög ársins 2012 nema samtals um 4.995,3 m.kr. Þar af eru framlög vegna skólaaksturs úr dreifbýli að fjárhæð um 745,3 m.kr.

Framlög úr Jöfnunarsjóði til eflingar tónlistarnámi og jöfnunar á aðstöðumun nemenda skólaárið 2012-2013

Á grundvelli samkomulags ríkis og sveitarfélaga frá 13. maí 2011 um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til námsins greiðir ríkissjóður árlega 520 m.kr. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga á gildistíma samkomulagsins frá 1. júlí 2011 til 31. ágúst 2013.

Á grundvelli nýrrar reglugerðar um úthlutun framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til eflingar tónlistarnámi og jöfnunar á aðstöðumun nemenda, nr. 23/2013, greiðir Jöfnunarsjóður framlög til sveitarfélaga vegna kennslukostnaðar nemenda er stunda nám í hljóðfæraleik á framhaldsstigi og söngnám á mið- og framhaldsstigi óháð búsetu þeirra. Við útreikning framlaga til sveitarfélaga er tekið mið af heildarfjölda kennslueininga viðurkenndra tónlistarskóla í sveitarfélagi.

Nú liggur fyrir endurskoðuð tillaga ráðgjafarnefndar að áætlun um úthlutun framlaga á grundvelli 2. mgr. 1. gr., sbr. a-lið 4. gr. reglugerðarinnar og vinnureglna þar að lútandi vegna skólaársins 2012-2013. Við greiðslu framlaga vegna janúarmánaðar sem fram fór 1. febrúar sl. fór jafnframt fram leiðrétting á greiðslum til sveitarfélaga vegna mánaðanna september til desember.

Jafnframt liggur fyrir tillaga ráðgjafarnefndar að úthlutun framlaga á grundvelli 3. mgr. 1. gr., sbr. 7. gr. reglugerðarinnar, fyrir skólaárið 2012-2013. Eftir því sem fjárveitingar Jöfnunarsjóðs leyfa er Jöfnunarsjóði heimilt að veita sveitarfélögum framlög vegna nemenda sem stunda nám á grunnstigi í söng og á grunn- eða miðstigi í hljóðfæragreinum utan síns sveitarfélags vegna framhaldsskólanáms að uppfylltum sérstökum skilyrðum. Framlag á nemanda nemur að hámarki 50% af vegnu meðaltali framlags á nemanda sem fellur undir 2. mgr. 1. gr.

Endurskoðuð áætlun um úthlutun framlaga til eflingar tónlistarnámi skólaárið 2012-2013 nemur samtals um 515 m.kr.

Endurskoðuð áætlun um  framlög vegna lækkunar tekna af fasteignaskatti 2013

Ráðgjafarnefndin leggur til að endurskoðuð áætlun um heildarúthlutun  framlaga til jöfnunar á tekjutapi vegna lækkunar tekna af fasteignaskatti á árinu 2013, sbr. reglugerð, nr. 80/2001 með síðari breytingum, nemi 3.134 m.kr. Jöfnunarsjóður greiðir sveitarfélögum framlög fyrirfram sem nema 60% af áætluðum framlögum ársins eða um 1.880 m.kr. Greiðsla framlaganna fer fram  með fimm jöfnum greiðslum mánuðina febrúar til júní. Uppgjör framlaganna fer fram með þremur jöfnum greiðslum mánuðina, júlí, ágúst og september. Endurskoðuð áætlun tekur mið af ráðstöfunarfjármagni sjóðsins á grundvelli fjárlaga 2013.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum