Hoppa yfir valmynd
16. maí 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Loftslagsaðgerðir á Norðurlöndum gætu verið enn áhrifaríkari

Í nýju riti Norrænu ráðherranefndarinnar Climate Policies in the Nordics kemur fram fjöldi ábendinga um hvernig Norðurlöndin geti með hagkvæmustum hætti stuðlað að sem mestum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Ritinu, sem skrifað er af 12 norrænum fræðimönum á sviði loftslagsmála, er stýrt af fulltrúum fjármálaráðuneyta á Norðurlöndum.

Lagt til að Norðurlöndin samræmi enn frekar stefnu sína í loftslagsmálum

Samanlögð losun Norðurlanda á gróðurhúsalofttegundum er innan við 0,5% af heildarlosun á heimsvísu. Þrátt fyrir að Norðurlöndin hafi metnaðarfyllri stefnu um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda en flest önnur lönd mun samdráttur losunar á svæðinu ekki einn og sér hafa markverð áhrif á loftslagsbreytingar af mannavöldum.

Í riti Norrænu ráðherranefndarinnar er því fjallað um mikilvægi þess að Norðurlöndin samræmi stefnumótun í loftslagsmálum sín á milli og gagnvart öðrum löndum. Nýsköpun í tækni þar sem Norðurlöndin hafa sérstakt forskot en nýta má hvarvetna í heiminum kann að reynast vera stærsta einstaka framlag Norðurlandanna til loftslagsmála á heimsvísu.

Tilefni til frekari breytinga á viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir?

Ísland er aðili að viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (EU-ETS) og um 40% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda hér á landi fellur innan kerfisins. Fraderik Silbye, forseti danska loftslagsráðsins, og Peter Birch Sørensen, prófessor í hagfræði við Kaupmannahafnarháskóla, fjalla í grein sinni um nýlegar breytingar á kerfinu sem minnka umframframboð losunarheimilda og hafa átt þátt í því að verð þeirra hefur fimmfaldast á undanförnum tveimur árum. Að mati þeirra ætti næsta skref í þróun viðskiptakerfisins að vera að setja á verðþak og -gólf til að tryggja enn frekar að verð losunarheimilda endurspegli samfélagslegan kostnað af losun gróðurhúsalofttegunda.

Frekari upplýsingar um Climate Policies in the Nordics

  • Um er að ræða 11. árlegu útgáfu ritsins Nordic Economic Policy Review. Það kemur út á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og útgáfu þess er stýrt af fulltrúum fjármálaráðuneyta á Norðurlöndum.
  • Í ritinu eru fimm ritrýndar greinar um stefnumótun í loftslagsmálum með áherslu á Norðurlönd.
  • Höfundar ritsins í ár eru Lars Calmfors, John Hassler, Naghmeh Nasiritousi, Karin Bäckstrand, Frederik Silbye, Peter Birch Sørensen, Björn Carlen, Bengt Kriström, Mads Greaker, Rolf Golombek, Michael Hoel og Katinka Holtsmark.

Ritið Nordic Economic Policy Review 2019: Climate Policies in the Nordics

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum