Hoppa yfir valmynd
9. júní 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Aukið samstarf við Grænlendinga um heilbrigðismál

Samkomulag um aukið samstarf í heilbrigðismálum milli Íslands og Grænlands var undirritað í Nuuk á Grænlandi í gær. Samstarfssamninginn undirrituðu ráðherra heilbrigðismála á Grænlandi, Agathe Fontain, og Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra Íslands.

Samningurinn nú er endurnýjun eldri samstarfssamnings frá árinu 1997. Fram til þessa hefur samstarfið að mestu snúist um sjúkraflug með sjúklinga frá austurströnd Grænlands, sem á sér langa sögu. Grænlendingar höfðu frumkvæði að endurnýjun samkomulagsins, en viðræður fóru af stað í kjölfar aukinnar sjálfsstjórnar landsins. Agathe Fontain sagði vonir standa til að með nýju samkomulagi væri hægt að víkka samstarf landanna út, svo heilbrigðiskerfi beggja styddu hvort við annað - og að allir Grænlendingar nytu góðs af.

Á Grænlandi er um þessar mundir verið að endurskipuleggja heilbrigðiskerfið - m.a. með því að fækka heilbrigðisumdæmum og styrkja með það að markmiði að bæta þjónustu. Hluti af þeirri endurskipulagningu er að landstjórnin horfir nú víðar en til Danmerkur þegar kemur að samstarfi á ýmsum sviðum.

Meðal þess sem stefnt er að í endurnýjuðu samstarfi við Ísland er aukinn flutningur bráðveikra frá Grænlandi hingað til lands. Miklir kostir geta verið fólgnir í að flytja sjúklinga til meðferðar á Íslandi í stað Danmerkur, ekki síst vegna mun styttri flutningstíma og minni kostnaðar. Þá er litið til þess að sérhæfðar aðgerðir - á borð við bæklunaraðgerðir - verði framkvæmdar á Íslandi í stað Danmerkur.

Jafnframt er markmiðið að auka samstarf við íslenskar heilbrigðisstofnanir, meðal annars með það í huga að íslenskir sérfræðingar fáist tímabundið til starfa á Grænlandi. Með aukinni heimastjórn og sjálfstæði vilja Grænlendingar bæta möguleika til meðferðar á heimaslóð, en bæði skortir lækna og hjúkrunarfræðinga í landinu.

 Heilbrigðisráðherrar undirrita samstarfssamning
 Agathe Fontain, ráðherra heilbrigðismála á Grænlandi og Álfheiður Ingadóttir undirrita samstarfssamninginn

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum