Hoppa yfir valmynd
10. júní 2010 Heilbrigðisráðuneytið

Ungbörn verði bólusett gegn pneumókokkasýkingu

Stefnt er að því að öll börn sem fæðast hér á landi frá og með 2011 verði bólusett gegn pneumókokkasýkingu, en hún er einn af helstu orsakavöldum eyrnabólgu. Alþingi hefur samþykkt tvær þingsályktunartillögur um bólusetningar, annars vegar gegn pneumókokkum og hins vegar gegn leghálskrabbameini af völdum HPV-veiru.

Þingið samþykkti í dag þingsályktunartillögu þingkonunnar Sivjar Friðleifsdóttur um bólusetningar ungbarna gegn pneumókokkum og tillögu Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur um bólusetningu 12 ára stúlkna gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini.

Bólusetning gegn pneumókokkasýkingum er hagkvæmust þeirra bólusetninga sem heilbrigðisráðuneytið hefur skoðað. Eyrnabólgur eru eitt algengasta heilsuvandamál barna hér á landi og skýra yfir 50% allrar sýklalyfjanotkunar hjá börnum. Pneumókokkar geta jafnframt valdið lungnabólgu og heilahimnubólgu.

Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra fagnar samþykkt þingsályktunartillagnanna tveggja. Slíkar bólusetningar séu ekki aðeins þjóðhagslega hagkvæmar, heldur auki lífsgæði, dragi úr sjúkdómum og minnki lyfjanotkun og álag á heilbrigðisþjónustu. Samþykktin feli í sér mikinn stuðning við þau áform heilbrigðisráðuneytisins að hefja þegar á næsta ári bólusetningar gegn pneumókokkum.

Kostnaður við bólusetninguna gegn pneumókokkum er áætlaður um 120-140 milljónir á ári.

Í áliti meirihluta heilbrigðisnefndar vegna þingsályktunartillagnanna tveggja er bent á nauðsyn þess að forgangsraða þegar teknar eru ákvarðanir um bólusetningar. Vísar nefndin í skýrslu ráðgjafahóps um bólusetningar og telur rétt að fara eftir þeirri forgangsröðun sem þar er sett fram. Í skýrslunni er lagt til að fyrst skuli hefja bólusetningar barna gegn pneumókokkasýkingum og síðan bólusetningar gegn HPV-sýkingum og leghálskrabbameini.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum