Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félags- og barnamálaráðherra undirritar Sáttmála Alheimssamtaka heyrnarlausra um rétt allra til táknmáls og veitir félagi heyrnarlausra styrk

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, rita saman undir sáttmála Alheimssamtaka heyrnarlausra um rétt allra til táknmáls - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, undirritaði í dag Sáttmála Alheimssamtaka heyrnarlausra um rétt allra til táknmáls. Félag heyrnarlausra undirrituðu sáttmálann hinn 11. febrúar sl., á degi íslenska táknmálsins og 60 ára afmælisdegi félagsins, en alheimssamtök heyrnarlausra gáfu sáttmálann út á síðasta ári. Í sáttmálanum eru áréttaðar skuldbindingar um að tryggja þátttöku heyrnarlausra í samfélaginu, viðurkenna þarfir þeirra, mannlega reisn og mannréttindi í samræmi við mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og annara alþjóðlegra mannréttindasamninga.

Í sáttmálanum er lögð áhersla á að heyrnarlausu fólki sé tryggt jafnt aðgengi að samfélaginu, opinberu lífi og einkalífi fyrir tilstilli táknmáls og án mismununar og að það fái að ráða eigin lífi og taka þátt í samfélaginu.

Í sáttmálanum er einnig lögð áhersla á menntun án aðgreiningar fyrir heyrnarlaus börn en það felur í sér tvítyngda menntun á þjóðartáknmáli og skriflegri þjóðartungu. Heyrnarlausu fólki þarf að gefast kostur á að nota táknmál til að starfa í aðgengilegu vinnuumhverfi án aðgreiningar þar sem það getur virkjað hæfileika sína til fulls og tekið fullan þátt í að leggja sitt af mörkum til samfélagsins.

Þróun og fjármögnun á menntun löggiltra túlka og þýðenda er forsenda þess að hægt verði að tryggja þátttöku þeirra sem búa við heyrnarleysi fulla þátttöku.

Í sáttmálanum er jafnframt hvatt til þess að upplýsinga- og samskiptatækni, fjarskiptaþjónusta og þar með myndsamskiptatækni sé aðgengileg heyrnarlausu fólki í lífi og starfi.

Það er í því ljósi og í ljósi þeirra áherslna sem félags- og barnamálaráðherra hefur í störfum sínum lagt á málefni barna að hann hefur ákveðið að styrkja félagið um 2 milljónir króna. Fénu skal varið til þess að þróa tvítyngt app. Með appinu fá heyrnarlaus börn tækifæri til að hlýða á sögur á sínu tungumáli þ.e. íslenska táknmálinu, og sögurnar verða jafnframt textaðar þannig að önnur börn fái notið þess að sjá sagðar sögur á lifandi hreyfimáli, íslenska táknmálinu. Um leið geta þau öðlast sýn í heim heyrnarlausra jafnaldra sinna með því að sjá og fylgja söguþræðinum eftir á táknmáli og geta jafnframt lesið með. Appið sem þegar er til erlendis er líklegt til þess að auka þekkingu, skilning og þroska á milli barna sem eru heyrandi og þeirra sem búa við heyrnarleysi.

Félags- og barnamálaráðherra staðfestir með undirritun sáttmálans vilja sinn til þess að styðja við framgang þeirra áherslna sem þar koma fram.

  • Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Heiðdís Eiríksdóttir, formaður félags heyrnarlausra, undirrita samning um 2 milljóna króna styrk til félags heyrnarlausra - mynd
  • Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, rita saman undir sáttmála Alheimssamtaka heyrnarlausra um rétt allra til táknmáls - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum