Samþykkja aðgerðir gegn plastnotkun
Ísland styður og fagnar ákvörðunum sem stuðla að minni mengun frá skipum og plasti í hafi á vegum OSPAR-samningsins um vernd NA-Atlantshafsins. Þetta kom fram í ávarpi Jóhanns Páls Jóhannssonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á ráðherrafundi samningsins. Jóhann Páll sagði að Ísland stefndi að efldri vernd hafsvæða og hygðist tilnefna fleiri svæði á skrá OSPAR yfir verndarsvæði í hafi á komandi misserum.
Ráðherrafundur OSPAR-samningsins var haldinn í Vigo á Spáni, þar sem fjallað var um fjölmörg mál á sviði umhverfisverndar í hafi, s.s. varðandi mengun, vernd líffræðilegrar fjölbreytni og áhrif loftslagsbreytinga og súrnunar hafsins.
Ráðherra sagði að Ísland hefði lengi nálgast málefni hafsins frá sjónarhóli fiskveiða. Sjálfbærar fiskveiðar væru hornsteinn í hafstefnu Íslands. Það þyrfti hins vegar að skoða umhverfisvernd í hafi heildstætt og það vildu íslensk stjórnvöld gera. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar væru m.a. ákvæði um vernd líffræðilegrar fjölbreytni og efldrar svæðisverndar í hafi.
Á Hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Nice í júní hafi komið fram skýr pólitískur vilji leiðtoga að efla starf við að vernda lífríki hafsins. Það sé áskorun að efna þau loforð og þar hafi svæðissamtök um hafvernd eins og OSPAR skýrt og mikilvægt hlutverk. Styrkur OSPAR-samningsins sé m.a. lausnamiðað starf við að leysa vandamál á hafsvæði samningsins og að þar sé lögð til grundvallar vísindaleg þekking og samræmd vöktun og mat aðildarríkja.
Jóhann Páll sagði Ísland ekki hafa staðið sig nægjanlega vel til þessa varðandi vernd hafsvæða, en þar sé ætlunin að bæta úr og taka áþreifanleg skref í nánustu framtíð að tilnefna ný verndarsvæði í hafi. Ísland sé þakklátt fyrir starf OSPAR við að draga úr mengun í NA-Atlantshafi. Dregið hefði úr styrk sumra mengunarefna á hafsvæðinu, sem þakka megi að hluta til alþjóðlegri samvinnu í þeim efnum. Blikur séu þó á lofti varðandi mengun hafsins, ekki síst varðandi plastmengun, en vonandi auðnist ríkjum heims að ná alþjóðlegu samkomulagi gegn plastmengun á þessu ári. Ísland ætli að halda alþjóðlega vísindaráðstefnu um plastmengun í Atlantshafi árið 2026 og vilji bjóða OSPAR-samningnum að taka þátt í undirbúningi þeirrar ráðstefnu.
Bann við losun mengunarefna úr vothreinsibúnaði
Á ráðherrafundinum var m.a. samþykkt bann við losun skolvatns úr vothreinsibúnaði í skipum í höfnum og innsævi aðildarríkja OSPAR í síðasta lagi 2027. Skoða á að víkka út bannið þannig að það nái til allrar landhelgi ríkjanna síðar, að undangengnu áhrifamati. Vothreinsibúnaður er notaður af sumum skipum sem brenna svartolíu; hann dregur úr loftmengun frá olíubrennslu en úrgangur sem til fellur í hreinsibúnaðinum er ýmist losaður í hafið eða tekið á móti honum í höfnum til förgunar. Hvað Ísland varðar þá er vothreinsibúnaður ekki notaður í fiskiskipum, en er í sumum flutninga- og skemmtiferðaskipum.
Á fundinum var líka samþykkt bann við notkun ákveðinna plastefna í baujum og flotbryggjum. Ákveðið var að stækka OSPAR-svæðið til suðurs, styrkja starf varðandi rusl í hafi og vinna að svæðisbundnum áætlunum varðandi botnvistkerfi, sjófugla og hávaða í hafi. Þá samþykktu ráðherrarnir yfirlýsingu þar sem ákvörðunum fundarins er fagnað og fjallað um helstu áskoranir varðandi umhverfisvernd í hafi fram undan og hvernig OSPAR getur þar lagt lausnum lið.
OSPAR-samningurinn var formlega settur á fót árið 1992 og tók þá yfir hlutverk Óslóar-samningsins frá 1972 og Parísar-samningsins frá 1974 varðandi mengun hafsins. Aðildarríki samningsins eru 15, auk ESB. Ný viðfangsefni hafa bæst við samninginn í gegnum tíðina og hann tekur nú, auk mengunarvarna, m.a. á vernd líffræðilegrar fjölbreytni, súrnun hafsins og áhrif loftslagsbreytinga og umhverfisáhrifum ýmissar haftengdrar starfsemi. OSPAR heldur utan um samræmda vöktun á umhverfisþáttum í hafi og gefur reglulega út ítarlegar stöðuskýrslur um ástand NA-Atlantshafsins og árangur aðgerða, síðast árið 2023. Vöktun íslenskra stjórnvalda á mengun hafsins og fleiri umhverfisþáttum tekur mið af samræmdri vöktunaráætlun OSPAR.