Hoppa yfir valmynd
31. október 2006 Innviðaráðuneytið

Breytingar á lögum um Flugmálastjórn og lögum um loftferðir undirbúnar

Í undirbúningi eru breytingar á lögum um Flugmálastjórn Íslands nr. 100/2006 og lögum um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum. Umsagnarfrestur er gefinn til 10. nóvember næstkomandi.

Breytingarnar á lögunum um Flugmálastjórn eru til að kveða á um breytta skipan gjaldtöku stofnunarinnar. Þá þarf að breyta þarf lögunum um loftferðir til að tryggja styrkari lagastoð vegna innleiðingar EES-gerða sem teknar hafa verið inní EES-samninginn en hafa ekki verið innleiddar í íslenskan rétt. Einnig er þörf á að gera tímabærar leiðréttingar á ákvæðum laganna til samræmis við það sem tíðkast í nágrannaríkjum.

Ný lög um Flugmálastjórn Íslands voru samþykkt á Alþingi síðastliðið vor sem fela í sér breytta skipan Flugmálastjórnar. Um leið voru samþykkt lög um stofnun opinbers hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur sem Flugmálastjórn hefur til þessa annast. Breytingarnar sem lögin kveða á um taka gildi um næstu áramót.

Þegar framangreind frumvörp voru lögð fram var ljóst að ekki tækist fyllilega að ljúka skipan gjaldtökuákvæða vegna Flugmálastjórnar Íslands. Voru lögin því samþykkt með almennri gjaldaheimild í 9. grein laganna. Eldri ákvæði í lögum um loftferðir nr. 60/1998 sem hafa að geyma ýmsar skattlagningar- og gjaldtökuheimildir voru látin standa óbreytt. Megintilgangur frumvarpsins um Flugmálastjórn er því að undirbyggja heimildir stofnunarinnar til gjaldtöku og fella á móti niður skattlagningarheimildir sem ekki er lengur þörf fyrir í lögunum um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum og lögum um aukatekjur ríkissjóðs nr. 88/1991 með síðari breytingum.

Nánari grein er gerð fyrir breytingum frumvarpanna í athugasemdum við einstakar greinar þeirra.

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Flugmálastjórn Íslands nr. 100/20006 er að finna hér.

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum er að finna hér.

Veittur er frestur til 10. nóvember næstkomandi til að koma með athugasemdir eða umsagnir um lagafrumvörpin. Unnt er að koma þeim á framfæri á tölvupóstfangið [email protected].



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum