Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 75/2019 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 21. febrúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 75/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19010040

 

Beiðni [...] um endurupptöku

I.             Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 7/2019, dags. 15. janúar 2019, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. nóvember 2018, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Íran (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Fyrir liggur að kærandi nýtur alþjóðlegrar verndar í Grikklandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 21. janúar 2019. Þann 28. janúar 2019 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd með úrskurði, dags. í dag.

Þann 28. janúar sl. barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins og þann 6. febrúar sl. lagði kærandi fram greinargerð og fylgigögn vegna málsins. Þá bárust kærunefnd viðbótargögn í máli kæranda þann 14. febrúar sl.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir aðallega á 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku aðallega á 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem ákvörðun í máli hans hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Að mati kæranda brjóti niðurstaða kærunefndar, um synjun á efnismeðferð umsóknar hans, gegn hagsmunum hans sem einstaklings sem njóti verndar skv. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, ákvæðum laga um útlendinga nr. 80/2016 og málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga. Verði málið ekki endurupptekið hyggist kærandi bera úrskurð kærunefndar undir dómstóla, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, ásamt því að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, sbr. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins.

Kærandi byggir aðallega á því að úrskurður kærunefndar í máli hans hafi byggst á ófullnægjandi mati á aðstæðum hans. Vísar kærandi í því sambandi m.a. til þess að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khalifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016, sem vísað sé til í úrskurði kærunefndar, geti ekki haft fordæmisgildi í máli hans í ljósi ólíkra málsatvika. Engu að síður sé að finna leiðbeiningarreglur í dóminum, sem tiltaki þau atriði sem taka beri tillit til við mat á vanvirðandi og ómannúðlegri meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærandi telji að hefðu aðstæður umsækjenda í framangreindum dómi verið aðrar, s.s. sérstaklega viðkvæm staða, hefði getað verið um að ræða brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Vísar kærandi þar um til umfjöllunar í dóminum í sératkvæði tveggja dómara.

Kærandi kveður að hann hafi verið metinn af íslenskum stjórnvöldum sem einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Kærandi sé ungur og glími við alvarleg veikindi, bæði líkamleg og andleg, og hafi lögum samkvæmt (de jure) aðgang að heilbrigðisþjónustu í Grikklandi en ekki í reynd (de facto). Kærandi hafi þá dvalið við slæmar aðstæður í flóttamannabúðunum Moria í Grikklandi í 11 mánuði áður en hann hafi flúið hingað til lands. Sökum fötlunar og atvinnuleysis hafi hann ekki getað bætt úr stöðu sinni með öflun húsnæðis, heilbrigðisþjónustu og lyfjakaupum. Þá hafi hann verið sviptur framfærslustyrk sínum eftir að hann hafi fengið útgefið dvalarleyfi. Við endurkomu kæranda til Grikklands bíði hans heimilisleysi og ómöguleiki við að framfleyta sér sökum veikinda, fötlunar og mikils atvinnuleysis í Grikklandi. Kærandi telji því að flutningur hans til Grikklands myndi fela í sér brot gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Þá byggir kærandi á því að dómur Mannréttindadómstólsins í máli Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013, sem einnig sé vísað til í úrskurði kærunefndar, hafi ekki heldur fordæmisgildi í máli hans í ljósi ólíkra málsatvika. Þá telji kærandi að tilvísun nefndarinnar til dómsins hafi verið sett fram með röngum og villandi hætti, án samhengis og án heimfærslu upp á aðstæður kæranda. Kærunefnd hafi borið að leggja mat á aðstæður sem bíði kæranda við endurkomu til Grikklands, að teknu tilliti til sérstaklega viðkvæmrar stöðu hans, sbr. 70.-79. mgr. dómsins. Kærunefnd hafi einungis fjallað almennt um aðstæður einstaklinga sem njóti alþjóðlegrar verndar í Grikklandi en ekki aðstæður þeirra sem yfirgefi flóttamannabúðir til langs tíma, séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu og geti ekki framfleytt sér sökum veikinda.

Kærandi vísar þá í greinargerð sinni til dóms Mannréttindadómstólsins í máli Tarakhel gegn Sviss (nr. 29217/12) frá 4. nóvember 2012, þar sem fram komi að þrátt fyrir að aðildarríki mannréttindasáttmálans beri ekki almennt ábyrgð á að tryggja aðstoð fyrir einstaklinga sem njóti verndar, geti það samt sem áður brotið gegn 3. gr. sáttmálans þegar einstaklingur sé í þeirri stöðu að hann sé háður aðstoð aðildarríkis. Kærandi sé háður aðstoð frá grískum stjórnvöldum, sökum andlegra og líkamlegra veikinda. Kveður kærandi að mati kærunefndar í máli hans hafi verið ábótavant að þessu leyti og vísar þar um til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.

Þá byggir kærandi á því að mat kærunefndar á heilsufari hans og aðgengi hans að heilbrigðisþjónustu í Grikklandi hafi verið ábótavant, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, um sérstakar ástæður. Kveður kærandi að þær aðstæður sem bíði hans í Grikklandi séu verulega síðri en almennings þar, sbr. úrskurð kærunefndar nr. 393/2018 frá 27. september 2018. Heilsufar kæranda sé verulega slæmt og flutningur hans til Grikklands kunni að leiða til óafturkræfra afleiðinga fyrir heilsu hans. Þá hafi kærandi gengist undir aðgerð á olnboga hér á landi. Í framlögðu læknabréfi, dags. 3. febrúar sl., komi fram að kærandi glími við töluverða verki og eigi erfitt með að festa svefn af þeim sökum. Þá geti hann lítið beitt höndinni og hreyfigeta sé verulega skert í öllum plönum liðsins. Þá sé töluverð bólga og vökvi í liðnum. Að mati læknis þurfi kærandi jafnframt meiri tíma til að geta sinnt eðlilegri endurhæfingu, sjúkraþjálfun og eftirfylgd.

Kærandi kveður að heilsufar hans sé mun verra en áður hafi legið fyrir og byggir á því að ófullnægjandi upplýsingar hafi legið til grundvallar við ákvörðunartökuna. Í úrskurði kærunefndar hafi verið rakin þau lagalegu réttindi sem kærandi hafi til aðgangs að heilbrigðisþjónustu í Grikklandi en kærandi telji skorta á raunverulegt aðgengi að heilbrigðisþjónustu þar. Framangreint geri aðstæður hans sérstakar í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og kunni að leiða til þess að hann þurfi að dvelja við aðstæður sem fari gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sú þjónusta sem kærandi hafi fengið aðgang að í Grikklandi hafi einungis staðið honum til boða meðan hann hafi haft stöðu umsækjanda um alþjóðlega vernd. Fyrirliggjandi gögn beri með sér að síðasta læknisheimsókn kæranda í Grikklandi hafi verið í júlí 2017 en hann hafi fengið stöðu flóttamanns í október það sama ár. Sökum veikinda sinnar og fötlunar tilheyri kærandi viðkvæmum hópi í samfélaginu og sé háður aðstoð grískra yfirvalda. Upplýsingar í framlagðri grein frá mannréttindasamtökunum Human Rights Watch og umfjöllun gríska flóttamannaráðsins gefi til kynna að grískum yfirvöldum yfirsjáist flóttamenn með fötlun og þeir glími við aðgangshindranir að nauðsynlegri þjónustu. Því telji kærandi að beita beri ákvæði 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, þar sem sérstakar aðstæður séu uppi í máli hans og hann muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki við endurkomu þangað. Kærandi byggir jafnframt á því að hann hafi myndað sérstök tengsl við landið og vísar í því sambandi til þess að hann sé virkur í starfi votta Jehóva hér á landi.

Þá byggir kærandi á því að efni 32. gr. a reglugerðar nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð um útlendinga, fari út fyrir vilja og markmið löggjafans m.t.t. til lögskýringargagna. Að mati kæranda sé útilokað að beita samræmisskýringu við túlkun 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar annars vegar og 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga hins vegar og því sé reglugerðin í andstöðu við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Kærandi kveður að krafa um alvarleika veikinda, sem birtist í ákvæði 32. gr. a, fari út fyrir markmið löggjafans við setningu ákvæðis 36. gr. laga um útlendinga. Vísar kærandi í því sambandi m.a. til lögskýringargagna að baki ákvæðinu, þar sem komi fram að með því sé stjórnvöldum eftirlátið mat og hafi heimild til að taka mál til efnismeðferðar umfram það sem leiði af sérstökum reglum, s.s. reglum Dyflinnarreglugerðarinnar.

Með beiðni sinni um endurupptöku lagði kærandi m.a. fram ýmis heilsufarsgögn, þ. á m. læknabréf, dags. 3. febrúar sl., myndgreiningu frá Landspítala, dags. þann sama dag, uppfærðar komunótur frá Göngudeild sóttvarna og læknisvottorð frá Heilbrigðisstofnun Vesturlands, dags. 14. febrúar sl. Þá lagði kærandi fram fréttir og tilvísanir til heimilda um aðstæður í Grikklandi og staðfestingu frá vottum Jehóva um þátttöku hans í starfi safnaðarins hér á landi.

III.            Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 15. janúar sl., var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Vegna athugasemdar í greinargerð kæranda þess efnis að stjórnvöld hafi metið hann sem einstakling í sérstaklega viðkvæmri stöðu áréttar kærunefnd, líkt og fram kemur í úrskurði nefndarinnar frá 15. janúar sl., að nefndin mat kæranda ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Þá kemur fram í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. nóvember 2018, að kærandi hafi ekki verið metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi ákvæðisins. Þá var það mat kærunefndar að kærandi hefði ekki slík tengsl við landið eða að aðstæður hans væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í nótu bæklunarskurðlæknis í Göngudeildarskrá frá 2. janúar sl., sem lá fyrir við uppkvaðningu úrskurðar kærunefndar þann 15. janúar sl., kom m.a. fram að aðgerð sem kærandi hefði gengist undir hér á landi hefði gengið vel en ekki hafi tekist að fjarlægja eina járnplötu sem hafi verið inngróin í bein. Þá hafi kæranda verið boðinn tími hjá viðkomandi lækni að níu mánuðum liðnum. Í tölvupósti frá þáverandi talsmanni kæranda, dags. 9. janúar sl., kom þá fram að kærandi glímdi enn við eymsli í handlegg en ætti annan tíma hjá bæklunarlækni þann 4. september 2019, þar sem sárið þyrfti að gróa betur.

Með endurupptökubeiðni sinni lagði kærandi m.a. fram læknabréf, dags. 3. febrúar sl. Kemur þar m.a. fram að kærandi sé enn með töluverða verki og eigi erfitt með að festa svefn, geti lítið beitt höndinni og þá sé hreyfigeta hans verulega skert í öllum plönum liðarins. Enn fremur sé töluverð bólga og vökvi í liðnum. Liðurinn sé verulega laskaður og verði aldrei jafn góður og áður. Kærandi þurfi nauðsynlega að komast í endurhæfingu og sjúkraþjálfun til að ná sem bestum og eðlilegum bata. Þá lagði kærandi fram myndgreiningu frá Landspítala vegna röntgenrannsóknar, dags. þann 3. febrúar sl. Kemur þar m.a. fram að ekki sé merki um los en nokkur afmyndun sé í beinum í olnbogalið, hertir vefir o.fl. Þá sjáist ekki merki um aukinn vökva í olnbogalið og ferskir beináverkar afmarkist ekki. Í framlagðri komunótu læknis frá Göngudeild sóttvarna, dags. 7. febrúar sl., kemur m.a. fram að kærandi hafi leitað á bráðamóttöku þann 3. febrúar sl. Í bráðamóttökuskrá, sem vísað er til í komunótunni, kemur m.a. fram að kærandi sé ekki bráðveikindalegur eða verkjaður að sjá en hann hlífi hægri höndinni þegar tekið sé í hana. Þá bendi blóðprufur ekki til sýkingar og röntgenmynd sýni ekkert óeðlilegt. Í komunótu, dags. 8. febrúar sl., kemur þá fram að hreyfiferill í hægri olnboga kæranda hafi verið um 5-10 gráður fyrir aðgerð hans hér á landi en í kjölfar hennar hafi hreyfiferillinn batnað um 30-35 gráður. Þá kemur fram að gagnlegt þyki að bjóða kæranda sjúkraþjálfun á hægri handlim, með hjálp verkjalyfja.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar frá 15. janúar 2019 og þau fylgigögn sem liggja fyrir í málinu, þ. á m. uppfærð heilsufarsgögn. Gefa gögn málsins til kynna, sem fyrr, að kærandi hafi farið í aðgerð hér á landi á hægri höndinni og að það muni taka hann tíma að jafna sig eftir hana. Fyrir liggur að kærandi á ekki aftur tíma í endurmat hjá bæklunarskurðlækni fyrr en í haust, þ.e. þann 4. september 2019. Að mati kærunefndar gefa framlögð gögn kæranda með endurupptökubeiðni sinni því til kynna að um sé að ræða upplýsingar sem þegar lágu fyrir þegar kveðinn var upp úrskurður í máli kæranda. Við ákvörðunartöku í máli kæranda lá m.a. fyrir að hann glímdi við verki og skerta hreyfigetu í annarri höndinni vegna slyss og misheppnaðrar aðgerðar í kjölfar þess í heimaríki. Þá hefði hann notið nokkurrar heilbrigðisþjónustu hér á landi og að miklu leyti fengið bót meina sinna í handlegg. Var það lagt til grundvallar við úrlausn málsins og telur kærunefnd að læknabréf, dags. 3. febrúar s.l., sem síðar var lagt fram í formi læknisvottorðs, eða önnur framlögð gögn hreyfi ekki við þeim forsendum. Í máli kæranda var einnig lagt til grundvallar, með vísan til framburðar hans, framlagðra gagna frá Grikklandi og fyrirliggjandi gagna um aðstæður þar, að hann gæti leitað sér viðhlítandi heilbrigðisþjónustu þar í landi vegna heilsufarsvandamála sinna. Vegna tilvísunar kæranda til úrskurðar kærunefndar nr. 393/2018 frá 27. september 2018 verður tekið fram að kærunefnd telur að ekki sé hægt að jafna stöðu kæranda við stöðu kærenda í framangreindu máli, einkum þar sem um var að ræða börn og barnshafandi konu í því máli.

Í ljósi ofangreinds telur kærunefnd að þegar hafi verið tekin afstaða til málsástæðna og aðstæðna kæranda, sem hann ber fyrir sig í máli þessu, í úrskurði kærunefndar frá 15. janúar 2019. Þá ítrekar kærunefnd það sem fram kom í áðurgreindum úrskurði nefndarinnar þess efnis að kærandi, sem handhafi alþjóðlegrar verndar í Grikklandi, á rétt á sambærilegri félagslegri aðstoð og grískir ríkisborgarar og endurgjaldslausri grunnheilbrigðisþjónustu, þ. á m. nauðsynlegum lyfjum. Að teknu tilliti til frásagnar kæranda og fyrirliggjandi gagna, þ.m.t. framlagðra gagna kæranda, er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að áðurgreindur úrskurður hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

 

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                                        Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum