Hoppa yfir valmynd
24. október 2007 Innviðaráðuneytið

Rúmlega 40 þúsund flugvélar í reglulegu flugi

Rétt rúmlega 40 þúsund þotur og skrúfuþotur eru á skrá í dag í heiminum, vélar sem notaðar eru í atvinnuflugi og eru einkaþotur þar meðtaldar. Þotur eru alls 20.262, skrúfuþotur 6.350 og einkaþotur eða smáþotur 13.853.

Aukning í flugumferð í Evrópu.
Aukning í flugumferð í Evrópu.

Þessar tölur komu fram á ráðstefnu um flugöryggismál sem haldin er árlega á vegum Flight Safety Foundation, sem eru alþjóðleg flugöryggissamtök, International Airlines Transport Association, Alþjóðasamtök áætlunarflugfélaga, og International Federation of Airworthiness sem eru alþjóðleg samtök tæknimanna. Ekki er þó allur þessi floti á stöðugu flugi því draga má frá þessari tölu rúmlega 1.300 þotur og rúmlega 800 skrúfuþotur, vélar sem ekki eru í notkun í bili heldur hefur verið lagt til lengri eða skemmri tíma. Á Íslandi voru í lok síðasta árs skráð 86 þung loftför en alls voru 407 stór og lítil loftför á skrá að svifflugum meðtöldum.

Stóru flugvélaframleiðendurnir, Airbus og Boeing, hafa á reiðum höndum spár um flugvélaþörfina næstu árin. Gera þeir ráð fyrir að á næstu tveimur áratugum muni um 29 þúsund flugvélar verða smíðaðar. Er það bæði til að mæta nauðsynlegri aukningu og hluti þeirra kemur í stað véla sem úreldast. Talið er að um þriðjungur þeirra muni fara til flugfélaga í Asíuríkjum. Kína er þeirra stórtækast en þotufloti landsins telur nú um þúsund vélar í atvinnuflugi. Talið er að á Kínverjar þurfi kringum 3.400 þotur til viðbótar á næstu 20 árum. Aukning í farþega- og fraktflugi er talin verða á bilinu 4-6% árlega á næstu árum en í Asíu er aukningin þó talin mælast í tveggja stafa tölu.

Jim Burin, tæknistjóri Flight Safety Foundation, kynnti ýmsar tölur um flugslysatíðni á flugöryggisráðstefnu samtakanna í Kóreu á dögunum. Hann sagði slysatíðni ótvírætt fara lækkandi í þotuflugi og sagði að ef tíðnin hefði haldist óbreytt frá árinu 1996 hefðu slysin á síðasta ári verið 30 en ekki 11 eins og reyndin var. Árið 1996 voru um 1,2 slys miðað við eina milljón flugtaka í flugi á þotum frá vestrænum framleiðendum. Á síðasta ári var þessi tíðni komin í 0,5 slys.


Flest slys í aðflugi og lendingu

Þegar litið er á tölur um flugslys á þessu ári kemur í ljós að alvarleg flugslys eru orðin 13 í ár eftir fyrstu 9 mánuði ársins en þau voru 11 allt síðasta ár. Hér er átt við þotur í atvinnuflugi. Síðustu ár hafa verið 11 til 19 alvarleg slys þar sem þotur í atvinnuflugi eiga í hlut. Slys á einkaþotum hafa orðið 8 og á skrúfuþotum hafa orðið 17 alvarleg slys.

Sjö af 13 slysum í þotum voru banaslys þar sem fórust 5 og uppí 187 en í sex tilvikum fórst enginn. Sex slysanna í einkaþotum voru banaslys með einu til sex dauðsföllum og í 13 slysum af 17 hjá skrúfuþotum fórust frá einum og uppí 32.

Af slysunum 13 á þotum í atvinnuflugi sem orðið hafa á árinu urðu 9 í aðflugi eða lendingu. Síðustu tíu árin hafa slík slys verið á bilinu 5-10 árlega og tíðnin farið hægt lækkandi allra síðustu árin. Orsakir slysa í aðflugi og lendingu eru oft einhvers konar truflun eða ónákvæmni í aðflugi sem getur endað með því að flugvél nær ekki inná braut eða lendir of innarlega og fer fram af. Starfshópur sem FSF kallaði saman fyrir síðustu aldamót tók saman sérstaka námskrá eða þjálfunardagskrá sem gefin hefur verið út á geisladiski í 34 þúsund eintökum. Er þar margs konar fróðleikur og ábendingar um atriði sem hafa þarf sérstaklega í huga til að draga úr hættu á slysum í þessum hluta flugsins. Hafa sérfræðingar FSF haldið 25 námskeið víðs vegar um heim til að kenna efnið og kynna það fyrir þjálfunarstjórum flugfélaga. Íslensk flugfélög hafa einnig nýtt sér þessa námskrá.


Bæta þarf söfnun upplýsinga

Þá gerði Jim Burin slys á flugvöllum að umtalsefni og sagði þau ef til vill ekki svo mörg en væru hins vegar oft alvarleg. Þá væri alltof um atvik og óhöpp á flugvöllum þar sem lægi við slysi og brýnt væri að taka á þeirri áhættu. Nefndi hann nokkur dæmi um vélar sem runnið hefðu fram af flugbraut, um árekstur véla á flugvöllum og nýlegt dæmi er um skemmdir á tveimur þotum sem rákust saman á Heathrow flugvelli án þess þó að nokkur slasaðist. Hann sagði verstu slysin iðulega verða þegar flugvél nær ekki að stöðvast og fer útaf braut. Slík slys sagði hann rannsökuð og öll atvik og slys vel upplýst. Það ætti hins vegar síður við um minni háttar atvik sem gerðust þegar flugvélum væri ekið um flughlöð eða þeim til dæmis ýtt frá landgangi. Um slíkar hreyfingar véla giltu ekki sömu reglur og þegar vél væri á flugbraut (í lendingu, flugtaki eða á lofti við flugvöll) og sagði hann brýnt að bæta alla upplýsingasöfnun og rannsóknir. Að því yrðu að koma framleiðendur, flugrekendur, þar með talið áhafnir og flugrekstrarstjórar, flugvallarekendur, flugumferðarstjórar og yfirvöld.

Starfshópur á vegum FSF og margra samstarfsaðila vinnur að upplýsingasöfnun um slys og atvik á flugvöllum og í framhaldi af því verða settar fram tillögur um hvaða lærdóm er unnt að draga af þeim og hvort grípa eigi til sérstakra aðgerða sem gæti hugsanlega verið með svipuðu formi og þjálfunardagskráin vegna aðflugs sem fyrr er getið.





Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum